06.03.1942
Neðri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Til þess hefur ekki komið enn, að dollarar væru settir á biðreikninga, því að við höfum ekki enn haft nægilega dollara, en það er kunnugt, að innilokun sterlingspundanna stafaði af því, að við höfum meira af þeim en þurfti að nota í svipinn eða fyrst um sinn. Því þótti betra að loka slíkan gróða inni erlendis en flytja hann heim, og þótti eðlilegast, að þeir, sem áttu sterlingspundin, hefðu áhættuna af því. Hins vegar verður það sjónarmið fyrst um sinn að sitja í fyrirrúmi, að við höfum nægilegan gjaldeyri til að kaupa frá Ameríku nauðsynlegar vörur, og verja því ekki dollarar settir á biðreikning fyrst um sinn, enda er nú lagt mikið kapp á að kaupa vörur frá Ameríku.

Viðvíkjandi sterlingspundunum vil ég taka það fram, að þótt ég geti ekki fallizt á það, að rétt sé að gefa þau frjáls, þykir mér rétt að gefa mönnum kost á að greiða skatta og gjöld í sterlingspundum. Tryggingin gegn þeim áhrifum, sem stór gróði hefur á verðbólguna, — en mikill hluti af þeim gróða er fyrir seldan fisk —, er sú, að skattakerfi ríkisins sé eins og það á að vera á slíkum tímum sem þessum og sé miðað við það að gæta þeirrar hliðar á verðbólgunni. En hvað sem aðferðum til að ná þessu marki líður, get ég sagt það, að innilokun dollara er ekki fyrir hendi, því að við höfum hingað til þurft á okkar dollurum að halda.