20.05.1942
Efri deild: 62. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

133. mál, hitaveitulán fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv. var flutt af fjhn. Nd. Það fer fram á, að ríkisstj. sé heimilað að ábyrgjast f.h. ríkissjóðs allt að 200 þús. kr. hitaveitulán handa Ólafsfjarðarhreppi, þó aldrei meira en 80% kostnaðar. Með grg. frv. er prentuð allýtarleg skýrsla og áætlun um stofnkostnað og rekstur hinnar fyrirhuguðu hitaveitu, samin af Höskuldi Baldvinssyni og Sveinbirni Jónssyni. Mér finnst ég geta alveg sparað mér ómakið að fara að lýsa þessu fyrirtæki eða ræða það nánar, heldur læt nægja að vísa til grg. En eins og sjá má á fylgiskjalinu, er gert ráð fyrir og færð að því rök, að fyrirtækið muni geta borgað sig og endurgreitt lánið á hæfilegum tíma. Fjhn. Ed. hafði málið til meðferðar í gær eftir þingfund og leggur til, að frv. sé samþ. óbreytt. Vonast ég til, að hv. þd. geti fallizt á það, m.a. sökum þess, að ákveðið er, að fyrir láninu skuli setja þær tryggingar, er ríkisstj. metur gildar. Ég vil aðeins minna á það, að Reykjavík hefur nú fengið allriflega ábyrgð á hitaveituláni, og það er vitanlega sanngirnismál, að ekki verði aðeins höfuðstaðurinn aðnjótandi slíkra hlunninda, heldur líka þorp og bæir kringum land, þar sem fært þykir aðstöðu vegna að ráðast í þau fyrirtæki.