05.03.1942
Neðri deild: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

*Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég er þakklátur hv. þm. Borgf. og hæstv. ráðh. fyrir ummæli þeirra, og er gleðilegt fyrir okkur flm. að heyra, að þeir sýna svona mikinn áhuga fyrir þessu máli. En út af þeim ummælum hv. þm. Borgf., að það sé einkennilegt, að við skulum flytja þetta frv. nú, þar sem því hafi verið lýst yfir af hæstv. ríkisstjóra, að ríkisstj. væri með till. í þessa átt á prjónunum, vil ég taka það fram, að nú eru 21/2 vika, síðan þ. kom saman, og enn liggja ekki fyrir till. frá ríkisstj. Þarf því engum að koma á óvart, þótt við viljum hreyfa málinu aftur. Enda getur það ekki orðið till. ríkisstj. til hnekkis, þó að frv. eins og þetta komi fram, þegar þess er líka gætt, að meðal flm. er einn ráðh. Eftir undirtektum bæði hæstv. ráðh. og hv. þm. Borgf. að dæma, sé ég, að vera muni enn meiri trygging fyrir því en áður, að till. Framsfl. frá aukaþ. í haust fái nú að sigla hraðbyri gegnum þingið.