05.03.1942
Neðri deild: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Eins og hæstv. utanrmh. hefur tekið fram, er það ekki í neinu ósamræmi við yfirlýsingu hæstv. ríkisstjóra af hálfu ríkisstj. um, að safna yrði í sjóði til að mæta væntanlegri kreppu, að þetta frv. er fram komið.

Það, sem mestu máli skiptir um alla sjóðstofnun, er, að einhverjir peningar séu til til þess að leggja í þá. Þess vegna hefur fyrst og fremst verið unnið að því af hálfu ríkisstj. að koma sér saman um skattamálin og á hvern hátt yrði hægt að ná verulegum hluta stríðsgróðans til að leggja í sjóð. Um þetta hefur verið samið í aðalatriðum, og er nú verið að ganga frá þeim samningum þessa dagana, svo að þeir geti komið fram í frumv.-formi innan skamms. Það, sem hæstv. ríkisstjóri átti við, er, að ríkisstj. hefur vissu fyrir því, að samkv. lagafrv. um tekjuskatt muni verulegar upphæðir safnast í ríkissjóð, en það hefur ekki verið ákveðið, hvernig þeir fjármunir skuli geymdir, hvort þeir skuli geymdir sem tekjuafgangur í ríkissjóði og notaðir til framkvæmda eftir stríð, eða hvort féð skuli tekið frá í sérstakan sjóð, eins og gert er ráð fyrir í frv., sem fyrir liggur. Um þetta hefur lítilsháttar verið rætt í ríkisstj., og hún er ef til vill ekki alveg sammála um, hvor leiðin skuli farin. En það er áreiðanlega skoðun hæstv. viðskmrh., að það eigi að taka allverulegan hluta af tekjuafgangi s.l. árs og áfram og leggja í sérstakan framkvæmdasjóð. Aftur á móti hygg ég, að sumir aðrir í ríkisstj. hafi meiri tilhneigingu til að skipta ekki þessu fé. Það er rétt, að þetta komi hér fram til athugunar fyrir n. þá, sem fær málið til meðferðar. Frá mínu sjónarmiði hygg ég, að það sé öllu skynsamlegra að leggja féð fyrir í sérstakan sjóð. bíeð því móti höfum við gleggri tilfinningu fyrir því, til hvers á að nota féð eftir stríð. Við þurfum að fara að hefja rannsókn á því, hvað þarf að gera og hverju liggur mest á. Því meiri ástæða held ég sé til þess fyrir þá sök, að það ber mikið á því á þessu þ., að till. koma fram um stóreflis fjárframlög, án þess að sé nógu skipulega undirbúið, hvað á að sitja í fyrirrúmi að styrjöldinni lokinni. En það gæti bægt frá einhverju af því tillagnaflóði, ef fullkomin trygging væri fyrir því, að fé yrði til í sérstökum sjóði til framkvæmda eftir stríðið.

Ég hygg, að það sé tímabært að benda í það vegna tillagna, sem hér hafa komið fram, að það er í fyrsta lagi vafasamt, hvort skynsamlegt er að ráðast í jafnmiklar framkvæmdir og hugur þm. stendur til nú, þegar allt er svo dýrt og vinnukraft vantár. En í annan stað er rétt, að það, komi fram, að það eru litlar líkur til þess, eins og nú horfir, að möguleg verði að fá efni til ýmissa framkvæmda, sem hv. alþm. virðast gera ráð fyrir, að hægt sé að ráðast í. Hv. alþm. hafa eflaust veitt því athygli, að erfiðleikar um flutninga á Atlantshafi hafa farið vaxandi 2–3 síðustu mánuði, og því hefur verið lýst yfir í brezka útvarpinu, að vegna skipatapa síðustu mánuðina verði að minnka matarskammt í Bretlandi, þar eð skipakostinn verði að nota svo sem unnt er til að flytja vopn. Þegar þessa er gætt, er ekki undarlegt, þó að tregara gangi fyrir okkur að fá skipakost til að flytja vistir, hvað þá til að fá efnivið, svo að við getum haldið áfram nýbyggingum. Það sem skiptir mestu máli nú, er, að við gerum okkur ljóst, hvar við stöndum. Við verðum að reyna að halda uppi sem óskertustu atvinnulífi því, sem fyrir er, og reyna svo að leggja fjárhagslegan grundvöll til að byggja á, þegar kreppan kemur og hugsa leiðir til framkvæmda eftir stríð.