16.02.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Ríkisstjóri setur þingið

Ríkisstjóri (Sveinn Björnsson):

Háttvirtu þjóðarfulltrúar !

Ríkisstjórnin telur, að þing það, sem nú kemur saman, verði að gera allumfangsmiklar ráðstafanir til þess að halda niðri sívaxandi dýrtíð í landinu. Jafnframt því verði aðgerðir þingsins að beinast að því að gera undirbúning að því að geta mætt þeim vandræðum, sem búast má við, að fari í kjölfar styrjaldarinnar, atvinnuleysi og öðrum erfiðleikum. Til þess þarf meðal annars að leitast við að safna í sjóði, svo að fé verði fyrir hendi til þess að inna af hendi nauðsynlegt viðreisnarstarf. Verður óumflýjanlegt að afla ríkissjóði frekari tekna í því skyni.

Auk venjulegs fjárlagafrumvarps munu frumvörp þau, er stjórnin leggur fyrir Alþingi að þessu sinni, aðallega beinast í þá átt, sem greint hefur verið.

Að svo mæltu vil ég biðja alþingismenn að minnast fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum sínum.

Þingheimur stóð upp, og forsætisráðherra, Hermann Jónasson mælti: „Lifi Ísland!“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.

Ríkisstjóri kvaddi nú elzta viðstaddan þingmann, Jakob Möller fjármálaráðherra, til þess að stýra fundi, þar til er kosinn væri forseti sameinaðs þings. Gekk ríkisstjóri síðan út úr salnum.