16.05.1942
Efri deild: 59. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

*Magnús Gíslason:

Hv. frsm. meiri hl. hefur svarað þeirri aths., sem ég gerði út af þessu frv., hvernig ráðstafa mætti þessu fé á næstu árum, áður en þetta kæmi til framkvæmda, á þá leið, að það væri tilgangur með þessu frv. að taka þetta fé og leggja til hliðar, og það alveg án tillits til þess, hvernig afkoma ríkissjóðs verður á næsta ári, jafnvel þótt um halla verði að ræða. Ég verð nú að telja það ákaflega lítil búhyggindi að taka 8 millj. kr. eða hva, sem það verður, og leggja í Landsbankann og láta það liggja vaxtalaust þar á sama tíma sem ríkið þyrfti að reka sinn búskap með dýru lánsfé., Ég efast ekki um, að í reyndinni yrði fyrst gripið til þessa fjár, ef slíkt bæri að höndum. Mér virtist líka hv. frsm. inna að þessu í sinni síðustu ræðu, þar sem hann reiknar með þeim möguleika, að ríkissjóði yrði lánað fé úr þessum framkvæmdasjóði til nauðsynlegra framkvæmda. Hann taldi einnig geta komið til mála að taka lán úr þessum sjóði, ef greiða þyrfti skuldir ríkisins erlendis. Gat hann þess jafnframt, að ef ekki verður handbært fé að stríðinu loknu til þeirra framkvæmda, sem ætlazt er til með lögum, þá gæti komið til mála að taka ný lán til þeirra hluta. En er þá ekki mergur málsins, hvað það er, sem framtíðin ber í skauti sínu? Verður nokkur fullnaðarráðstöfun gerð um þetta fé, fyrr en maður sér fram á, hvernig afkoman verður á næsta ári? Það hygg ég ekki. Ég held þess vegna, að þetta sé meinlaus till. í sjálfu sér, en geti því miður ekki náð þeim tilgangi, sem ætlazt er til.