16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Brtt. hér á þskj. 46 er um það, að l. um svo kölluð geymslupund verði felld úr gildi.

Ég verð að rifja upp með nokkrum orðum, hvernig þessar sakir standa. Það er vitað, að l. um geymslupundin voru sett í þeim tilgangi að skipta áhættunni af þessari geymslu milli bankanna og þeirra manna, sem eignuðust þau í Englandi. Þegar innieignir okkar fóru að skapast þar í stórum stíl, þótti það að vonum ákaflega áhættumikið að láta bankana eina bera ábyrgð á þessu. Nú hefur reynslan fallið þannig, að pundainnieignin hefur hlaðizt upp svo að segja öll hjá þjóðbankanum. Og þessi geymslupund eru orðin í raun og veru ákaflega miklir smámunir, borið saman við pundaeignir landsmanna í heild. Ég hef fengið upplýsingar um þetta, talað um þetta bæði við formann n. og líka við stjórnir bankanna og fengið skýrslur um þetta. Um síðustu mánaðarnót átti þjóðbankinn erlendis inni 172 millj. kr., 120 millj. kr. í bönkum, í verðbréfum 40 millj. kr. og í gjaldeyrisvarasjóði. 12 millj. kr. En á sama tíma voru á reikningum þessa banka ekki nema 7 millj. kr. af þessum geymslupundum. Og án þess að sá bankastjóri sem ég talaði við, leyfði mér að hafa það eftir sér, að hann teldi bankanum þetta einskis virði, þá lét hann þau orð falla við mig, að hann teldi það hégóma að halda þessi fyrirkomulagi við. Og sömuleiðis álítur n. þetta vera smámuni eina.

Um Útvegsbankann er það að segja, að hann átti engin pund erlendis um síðustu mánaðamót. En á hans vegum voru þá eitthvað um 3 millj. kr. í þessum geymslupundum, eða 137 þús. sterlingspund. Hann munar ekkert um, þó að hann þyrfi að yfirfæra þetta, af þeirri ástæðu, að hann á engar innistæður ytra.

Spurningin hefur verið og er um það, hvað mæli með því að láta þessi geymslupund vera þarna áfram og halda við l. um það og n., sem þar er utan um, og hvaða ástæða er til þess að afnema þetta. Ég skal skýra frá mínu sjónarmiði í þessu efni. Ég veit það af viðtali við ýmsa menn, sem þar eiga hlut að máli, að eigendur þessara punda geta hagnýtt sér þau, ef þeir fengju þau út, sumpart til skuldagreiðslna og sumpart, og kannske aðallega, til þess að kaupa fyrir þau vörur til landsins. Ég er nú alveg sannfærður um það, að þótt ekki sé um meiri upphæðir að ræða en þetta, 10–11 millj. kr. alls, væri ákaflega hagkvæmt fyrir landið, ef hægt væri að breyta þeirri eign sumpart í greiðslur á skuldum erlendis og þó aðallega til að flytja þarflegarn varning inn í landið fyrir þessar upphæðir. Mikið af þessu fé er í eigu manna, – náttúrulega ekki svipað því allt —, sem enn halda uppi siglingum til Englands og selja þar íslenzkan fisk. Þessir menn eiga skip í förum og eiga því hægt með að flytja vörur til landsins. Þeir hafa kunnugleika ytra og sambönd og eiga því hægt með að afla sér nytsamra vara fyrir sína vöru. Það er enn þá hægt að fá talsvert af útgerðavörum, sumar tegundir véla, byggingarefni og margt fleira. Og ég hygg, ef þessar innieignir væru gefnar lausar, að þær mundu fara út úr landinu á þann hátt, að þeim væri breytt í þarflegan varning, sem kæmi til landsins, og varið til lúkningar á erlendum skuldum.

Ég vil líka, áður en ég lýk máli mínu, geta þess, að þessi geymsla fjárins hefur komið talsvert á óréttlátlega niður af óviðráðanlegum ástæðum. Það hefur fallið þannig, að þegar samningarnir voru gerðir um kaup Breta á sjávarafurðum hér, þá urðu margir menn sem áður höfðu selt fisk til Englands, að hætta því. Skipum sem sigldu, var fækkað úr rúmum 50 niður í 30, og þeir menn, sem áttu skip, sem þurftu að hætta, áttu meira og minna af lokuðum pundum. Ýmsir menn höfðu flutt fisk út á öðrum skipum aðeins fyrir flutningsgjöld, og sú sala ísuðum fiski hvarf alveg úr sögunni, og ýmsir þeirra manna áttu þá nokkuð af geymslupundum lokuðum þarna inni. Þeir menn, sem halda nú áfram að selja fisk til Englands, fá hann greiddan hvern einasta skilding fyrir hann, í dollurum. Þessir menn njóta þess vegna allt annara kjara heldur en hinir, sem þurftu að hætta siglingum með pund sín innilokuð. Ég veit, að ef hægt er að meinalausu fyrir ríkið að gera þessum mönnum jafnt undir höfði og hinum, þ.e.a.s. að leysa pund þeirra manna, sem ekki geta haldið áfram neinum atvinnurekstri snertandi sölu sjávarafurða til Englands, þá á hæstv. Alþ. náttúrulega að vera mjög fúst til þess.

Höfuðatriðrið er þá þetta, að ég tel, að það mundi vera hagkvæmt fyrir heildina, ef hægt væri að breyta þessum eignum í erlendar skuldagreiðslur og einkum í varning, sem fluttur yrði til landsins. En þar er vitað, að þeir menn, sem mundu gera slíkt, þeir hafa ekki neina hagsmuni af því eða tök á því að gera það, ef þeir hafa ekki pund sín til umráða.