16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Garðar Þorsteinsson:

Hæstv. viðskmrh. hefur upplýst, að þetta fé, sem bundið er í sterlingspundum, muni vera um.10 millj. kr. Þegar það er athugað, að innieignir bankanna munu nú vera 160 millj. kr., er ljóst, að sú upphæð, sem hér um ræðir, er ákaflega smávægileg. Það er líka þannig, að mikill hluti þessarar fjárhæðar mundi vera notaður til þess að greiða ríkissjóði og bæjarsjóðum skatta og útsvör. Hygg ég, að ekki sé fjarri því, að um 60% a.m.k. fari beinIínis í þær greiðslur. Það, sem mér virðist skipta aðalmálinu, er, að það er svo lítill hluti af þessu, þar sem væri um raunveruleg kaup af hendi bankanna að ræða umfram það, sem eigendurnir hafa kröfu til, að keypt sé af þeim upp í útsvar og skatt. Það er ekki nema 2–4 millj., sem um væri að ræða, og sér hver maður, að það getur ekki haft neina úrslitaþýðingu fyrir peningaflóðið eða dýrtíðina hér, hvort þetta er gert eða ekki. Mér er kunnugt, að það eru til félög, sem eiga ekki einn einasta eyri nema þessi bundnu sterlingspund og geta ekki keypt svo mikið sem róðrarbát fyrir íslenzka peninga, og er ósanngjarnt, að svo þurfi að vera. Ég veit um félag, sem stundaði útgerð nokkurn tíma, byrjaði ekki að sigla fyrr en þessi l. voru gengin í gildi og er hætt fyrir nokkru og fékk ekki yfirfærslu nema fyrir brýnasta útgerðarkostnaði. Hver eyrir, sem félagið hafði afgangs, var bundinn í sterlingspundum. Ég vil líka benda á, að það er ósanngjarnt gagnvart slíkum félögum, að nú um nokkurt skeið, síðan samningurinn við Ameríku gekk í gildi, hafa öll skip, sem selt hafa fisk til Englands, fengið allt yfirfært, og ég hygg, að frá því að þessi samningur gekk í gildi og fram til þessa dags, hafi sala sízt verið verri en áður, verið svo heppin að hafa getað selt, síðan farið. Það er því ósanngjarnt, að þau félög, sem hafa var að borga í dollurum, skuli fá allt yfirfært, en þau, sem hafa búið við þrengri kost, skuli ekkert hafa fengið yfirfært umfram nauðsynlegasta kostnað og verði að hafa fé sitt áfram bundið í sterlingspundum. Hæstv. ráðh. segir, að það komi af því, að það hafi verið dollaraþörf. Ég hygg, að ef réttsýni hefði átt að gilda og jafnt hefði átt að ganga yfir alla, hefði stj. getað greitt þessum mönnum íslenzka peninga eða látið þá hafa sínar greiðslur í sterlingspundum. Þeim sem selja til Englands, selja fyrir sterlingspund, þó að Bandaríkin hafi greitt í dollurum. Ég er sízt að mæla með, að sú leið verði farin, en hitt er auðséð, að ósanngjarnt er að kaupa sterlingspund af einum aðilanum, en neita öðrum um það.

Hæstv. ráðh. hefur nú játað, að síðari ástæðan, sem hann færði fram, að peningaflóðið mundi verulega aukast, er niður fallin, og að því er snertir stórgróðann, að síður sé þörf á að yfirfæra hann, þá skal það játað í þeim tilfellum, sem það er rétt. En þar sem hæstv. ráðh. minntist á, að það væri nokkur tími, sem bankarnir fengju með því að þurfa ekki að kaupa peningana, fyrr en þegar skattarnir ættu að greiðast, þá vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann vilji til samkomulags fallast á, að l. falli úr gildi 1. sept. 1942, sem sé á þeim tíma, sem bankarnir verða nauðugir viljugir að kaupa upp í 70% af þessum sterlingspundum vegna greiðslu á sköttum og útsvari. Það er nokkur ívilnun, að þeir, sem eiga þessi sterlingspund, megi eiga von á að fá þau laus, en þá er gengið til móts við ráðh., að pundin komi ekki í umferð, fyrr en þau koma til greiðslu sem skattar og útsvar. —- Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um mál þetta að sinni.