16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

“Sigurður Kristjánsson: Það eru örfá orð, sem ég vil bæta við. Ég tók ekki fram nema aðra ástæðuna fyrir, að þessi l. voru sett, en hæstv. viðskmrh. hefur bætt við annarri ástæðunni, sem er rétt, að var færð fram, en ég tel, að nú sé úr gildi fallin. Ég tel, að sú ástæða að létta á bönkunum sé úr gildi fallin að mestu leyti. Ég vil taka til dæmis innieign Landsbankans erlendis, að á móti henni er þetta ekki nema 1:24, sem hann ber ábyrgð á. Hins vegar er það með Útvegsbankann, að þótt hann hafi 3–4 millj. á sinni könnu, þá á sá banki alls engar innieignir, og þar af leiðandi hefði hann engin veruleg óþægindi af því, þótt þetta yrði yfirfært.

Ég gleymdi að færa það fram, til þess að engin skekkja sé í reikningunum, að á móti þessum 172 millj. kr., sem Landsbankinn átti inni um síðustu mánaðamót, skuldar hann 5–10 millj., svo að það er ekki nema 162 millj. fram yfir skuldir, en það raskar ekki miklu í þessu efni.

Hæstv. viðskmrh. sagðist álíta þessar ástæður, sem voru fyrir hendi. þegar l. voru sett, enn í gildi. Um þetta má deila. Hann veit vel, að það var gert ráð fyrir, að hlutföllin í innieignum bankanna á þessum lokuðu reikningum yrðu önnur en raun varð á. Það var álitið, að verulegur hluti mundi vera á reikningum útflytjenda, en reyndin varð sú, að það varð aðeins 10 millj. og líklegt, að það fari að verulegu leyti út, eins og hv. 7. landsk. tók fram. Ég er því sannfærður um, að þessi ástæða er að miklu leyti úr gildi fallin.

Að ekki þótti fært að láta þessar innieignir erða meiri, stafar af ýmsum ástæðum, sem í ljós komu, eftir að l. voru sett. Það vita allir, að ekki kemur til mála, að þessar 7–10 millj. sé svipað því allur gróðinn fyrir útflutning á þessum fiski. Það hefur verið yfirfært mikið fram yfir það, sem skylt var, því að það var nauðsynlegt fyrir útgerðina að fá þar fram yfir.

Að peningarnir verði í umferð til mikilla óþæginda, er nokkuð fræðileg ástæða. Það er náttúrlega rétt, að þegar ekki er verðmæti til að mæta peningunum, þá lækkar verð peninganna ósjálfrátt og verð á eignum hækkar. Ég vil segja án allra ýfinga, að mér hefur ekki fundizt hæstv. viðskmrh. sýna mikinn áhuga á því, a.m.k. ekki áður, að koma í veg fyrir þessi vandræði, því að ég held, að hann hafi staðið mjög á móti því, að verðmæti væru flutt inn í landið til þess að mæta hinu mikla peningaflóði. Ég held, að hann hafi litið á þetta og ýmsir bankamenn afar mikið frá hinni fræðilegu hlið. Ég talaði lengi um það við einn bankamann, að eitt útgerðarfélag vildi þá borga erlenda skuld með sterlingspundainnieign. Bankamaðurinn vildi gjarnan, að útgerðarmaðurinn borgaði þessa erlendu skuld og í staðinn kæmi innlent skuldabréf. Það varð að ráði í ríkisstj., því að ég talaði líka við hæstv. viðskmrh. um að leyfa þetta, að það mætti ekki selja bréfið. Þessi bankamaður sagði við mig: Það hefur enga þýðingu að hafa skuldabréfið laust, af því að það stendur í núlli. Það verður að standa fast, annars verður það selt. Þetta er vitleysa, en svona getur fræðimennskan farið með menn í gönur.

Ég er sannfærður um, að þótt það fé, sem hér um ræðir, komi mest inn í landið á þennan hátt, þá mundu menn kaupa fyrir það erlenda vöru. Það mundi lítil áhrif hafa, vegna þess að peningaflóðið er mest vegna innanlandskaupgreiðslu, sölu á veitingum og annað þess háttar, en stafar langminnst beint frá atvinnurekstrinum. Nú er þetta ekki mikið fé, og þótt eitthvað af því yrði til að auka peningaumferðina, þá mundi það nema aðeins ákaflega litlu.

Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. vilji líta á þetta mál frá sama sjónarmiði og ég, að þjóðhagslega er hagkvæmt að nota þessar gagns lausu innieignir sumpart til lúkningar skulda og sumpart til kaupa á þarflegum verðmætum, sem yrðu þá flutt inn í landið og við höfum mikla þörf fyrir.