21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

95. mál, styrkur til Íslendinga vestan hafs til náms í íslenzkum fræðum í Háskóla Íslands

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er um það að styrkja árlega einn Íslending, fæddan vestan hafs, til náms í íslenzkum fræðum við Háskóla Íslands, og skal sá, er styrks nýtur, njóta hans, meðan nám hans þar stendur yfir, eða allt að 4 árum, ef þarf. Vestur-Íslendingar hafa á síðari árum sýnt allmikla og vaxandi viðleitni til að viðhalda og efla tungu sína og samband við heimaþjóðina, — að því er virðist —, með verulegum árangri. Aðstaða þeirra til þess verður þó því verri se:m lengra líður frá því, að vesturferðir stöðvuðust. Þeir hafa lagt mikið kapp á að koma upp stórum sjóði til þess að standast kostnað við að hafa háskólakennara í íslenzkum fræðum í Winnipeg, og hefði ekki stríðið skollið yfir, væru þeir nú búnir að fá þann sjóð. Og ekki er þeim um að kenna, að á því hlýtur nú að verða bið. Með þessu frv. er hægt með furðulitlum kostnaði að verða þessum frændum okkar að verulegu gagni. Þetta yrði aðeins einn maður á ári. Sumir yrðu kannske 4 ár og tækju fullt háskólanám, en flestir kæmu hingað að afloknu háskólaprófi vestra og yrðu 1–2 ár. Ég vil ekki orðlengja um þetta, held mér sé óhætt að mæla með f. h. n., að frv. verði samþ. óbreytt.