02.05.1942
Efri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég er áður búinn að mæla fyrir brtt., sem fyrir liggur, svo að ég skal ekki vera langorður. Ég benti á, að ég teldi ekki nema eðlilegt, þar sem ríkið á Hólm og þarf að halda á landi, sem bærinn á upp að Keldnalandi, að þessu tvennu væri skeytt saman. Það kynni samt að verða samkomulag um sölu á þessum skika, en ef það ekki næst, hefur ríkissjóður ekki aðstöðu til þess að selja Hólm, því að það er svo mikil þörf á beitilandi fyrir sauðfé á Keldunni, að einhvern hluta af Hólmslandi verður að taka undir það, ef ekki fæst land að Keldnalandi frá Gufunesi. Ég vil tengja þetta saman. Ég teldi mjög misráðið, ef ríkissjóður færi að selja bænum þetta litla heiðarland, sem liggur í Mosfellssveit, og skapa Rvík aðstöðu til að hafa þarna beitarland, sem hún ræki á sitt fé til trafala, fyrir aðra, því að féð mundi ganga á Mosfellssveitunga.

Einhvern tíma á 14. öld voru gerðir samningar um, að bóndinn á Hólmi mætti beita sinu fé á ákveðin svæði, ef hann léti skógarhögg. á móti. Beitin hefur haldizt, þó að skógarhöggið sé úr sögunni fyrir 100 eða 200 árum, en ekki veit ég, hvernig lögfræðingar mundu líta á þetta nú. Ég vil láta Mosfellssveitarhrepp fá forgangsrétt til að kaupa þetta land, en nú má víst ríkissjóður ekki láta það til hreppsins nema með sérstakri heimild.

Ég bar till. mína undir hæstv. forsrh., og hann hafði ekkert við hana að athuga og taldi sig samþ. henni.