02.05.1942
Efri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Síðasti ræðumaður skildi ekki, að þm. gætu fylgt málum, nema þeir hefðu verið beðnir um það. Hans sjóndeildarhringur nær ekki lengra en hann er beðinn fyrir. Í þessu tilfelli hefur ríkið sett upp rannsóknarstöð, sem getur varðað landbúnaðinn í landinu meira en allt annað og sparað milljónir. Því að það er fullt útlit fyrir, að Guðm. Gíslasyni lækni takist að búa til lyf til að sannprófa, hvort kind hefur garnaveiki, ef hann fær aðstöðu til þess á Keldum. Það þarf enginn að biðja mig um það að reyna að stuðla að því, að Keldnabúið fái þá aðstöðu, sem nauðsynlegt er. Það er svo sjálfsagt mál, að hver maður, sem skyn ber á búskap, sér það.

Það getur verið, að mennirnir, sem hér hafa talað mest og kalla sig þingmenn Reykjavíkur, skilji það ekki. Þeir sjá ekki annað en verkalýðsmál og guðfræði, — og þarf þó að biðja þá fyrir þau. En það þarf enginn að biðja mig um að standa á verði í þessu máli og tryggja framtíð og árangur rannsóknarbúsins.

Hins vegar hefur og oddviti sveitarinnar talað við mig og skýrt mér frá því, að það væri alveg til niðurdreps fyrir sveitina, ef Reykjavík fengi þessa aðstöðu. — En viðvíkjandi till., þá tel ég, að það skilyrði eigi að vera af ríkisins hálfu, ef það selur þetta land, að það fái keypt annað land í staðinn handa sjúka fénu á Keldum. Það er því langt frá því, að ég taki till. mína aftur.