04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti ! Í raun og veru hefur mjög lítið nýtt komið fram í málinu, nema hæstv. forsrh. undirstrikaði það, að frv. væri nægileg heimild fyrir þann ráðh., er fær málið til meðferðar. Ef ég hef skilið ræðu hæstv. ráðh. rétt, þá taldi hann brtt. óþarfar, fannst þó ekki rétt að fella þær, en æskilegast, að þær yrðu teknar aftur. Mér finnst það líka vera einfaldasta lausnin.

Það hafa komið fram tilmæli um, að málið yrði tekið af dagskrá í dag. Ég veit ekki, hvort n. tekst að fá skriflega yfirlýsingu frá borgarstjóra um þetta atriði. Hann hefur á fundi n. lýst yfir, að enginn ágreiningur þurfi að vera um þetta, en ég veit satt að segja ekki, hvort borgarstjóra þykir hlýða að koma með skriflega yfirlýsingu. Ég tel engan efa á, að ef Mosfellssveitarhreppur óskar eftir forkaupsrétti, þá sé hann ekki rýrður með frv. og viðkomandi ráðh. muni taka óskir hreppsins til greina.

Mér skilst nú, úr því sem komið er, að ekki sé önnur leið fyrir hendi heldur en að reyna að framkalla þessar skriflegu yfirlýsingar frá borgarstjóra eða bæjarráði. Hvort það tekst, veit ég ekki. Hins vegar býst ég ekki við, að það verði talið viðeigandi, að hæstv. ráðh. gefi hér skrifl. yfirlýsingar umfram það, sem hann getur sjálfur skýrt frá hér í hv. d., sem mér skilst, að hann sé búinn að gera um það, að hann muni fara samningaleið við bæinn í þessu máli.