29.04.1942
Efri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þm. Vestm. gerði grein fyrir, leggur hann til, að lögin, sem hér er farið fram á að breyta lítilsháttar, verði felld úr gildi, og færir hann fyrir því nokkur rök frá sinni hálfu. Hann færir tvær ástæður fram fyrir þessari tillögu sinni. Í fyrsta lagi, að þau hafi litla þýðingu, og í öðru tagi. að framkvæmd þeirra skapi misrétti, sem sé óæskilegt.

Ég mun fyrst víkja að fyrra atriðinu. Þá runnu tvær stoðir undir þessa lagasetningu á sínum tíma. Önnur var sú, að mönnum óx í augum, að bankarnir keyptu allan þennan gjaldeyri. Landsmenn höfðu ekki þörf fyrir allan þennan gjaldeyri og fannst því réttmætt, að nokkur hluti hans yrði lagður fyrir erlendis á reikning þeirra, sem öfluðu hans með útflutningi, í stað þess að kaupa hann allan. Hin stoðin var sú, að mönnum ógnaði peningaflóðið í landinu og sáa gleggra og gleggra, að ef engar ráðstafanir yrðu gerðar til þess að draga úr því, mundi það hafa óheppileg áhrif á allt fjárhagslíf í landinu. Ýmsar leiðir voru hugsanlegar til þess að draga úr þessari hættu og ein einmitt sú að binda erlendis hluta af útflutningsverði þeirra afurða, sem mestum gróða skilaði, til þess að koma í veg fyrir, að sá gróði kæmist í umferð í landinu. Þetta eru þær tvær stoðir, sem runnu undir þessa löggjöf á sínum tíma.

Það er óhætt að fullyrða, að þeir, sem stóðu að þessari löggjöf, gerðu sér vonir um, að framkvæmd hennar mundi marka tímamót í þessum efnum, og að þær fjárhæðir, sem bundnar yrðu, mundu reynast hærri. En til þess, að ekki er meira fé bundið en raun ber vitni um, liggja þær ástæður, sem nú skal greina:

Það var ljóst, að ekki var hægt að binda nema hreinar tekjur, þ.e. hreinan gróða. Það var óhugsandi að binda það, sem framleiðendur þurftu til greiðslu innanlands. Enn fremur var á sinni tíð gengið út frá, að einnig yrði að taka til greina, hvort þeim, sem hlut áttu í máli, bar brýna nauðsyn til að greiða upp í skuldir sínar. Það þótti ekki fært að binda þann hluta af ágóðanum, sem framleiðendur töldu nauðsynlegt að nota til þess að greiða niður skuldir sínar viðkomandi atvinnurekstrinum. Það var talið, að það yrði að fara gætilega í það að binda þann hluta af ágóðanum, sem þyrfti að ganga til þessa.

Nú kom það fljótlega til greina, þegar fara átti að nota lögin, hversu víðtækt skyldi gera þetta. Hvort ætti að binda aðeins nokkurn hluta af andvirði fiskjar og annarra sjávarafurða, eða hvort það ætti að binda það allt. Nánar tiltekið, hvort það ætti að binda nokkuð af því verði, sem Englendingar gæfu fyrir fiskinn hér á íslenzkri höfn. Þótt menn vissu, að hér var um nokkurn ágóða að ræða, var talið erfitt að ganga inn á þá braut að binda nokkurn hluta af þessu fisksöluverði. Alveg sama máli gegndi um það, sem landsmenn unnu í þágu setuliðsins, og kom það til umræðu, en var ekki talið framkvæmanlegt né út í það leggjandi, enda aðilar þá svo margir. Sem sagt, pundatekjur landsmanna fyrir fisk eða aðrar afurðir, sem framleiðendur sjálfir seldu, eða fyrir vinnu, hlutu að koma inn í landið. Það var ljóst, að ef ekki yrði farið út í að binda nema nokkurn hluta af þessum tekjum, yrði starfsemi pundabindingarinnar að einskorðast að mestu leyti við ísfiskútflutning þeirra, sem veiddu í eigin skip eða keyptu fisk til. útflutnings, enda hefur verið mikill gróði hjá þessum aðilum. Þannig hafa lögin verið framkvæmd, og þannig atvikaðist það, að ekki var farið út í víðtækari pundabindingu.

Sú upphæð, sem um er að ræða, er eitthvað um 101/2 milljón króna. Það er sá gróði, sem hefur orðið að pundabindingunni mínus því, sem eigendur hafa þurft að hafa í sérstakar greiðslur. Þetta er ekki há upphæð, ef miðað er við pundainnieign landsmanna erlendis, en þess her að gæta, að þetta er gróði, sem mundi hafa farið í umferð í landinu, ef hann hefði ekki verið bundinn. Og það er þessi toppgróði, sem er hættulegur öllu fjárhagslífi, ef hann er látinn teika lausum hala. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að bindingin hefur meiri þýðingu en hún virðist hafa fljótt á lítið af upphæðinni sjálfri, af því að hér er um umframgróða að ræða í sambandi við útflutninginn. Ég held, að allar þær ástæður, sem voru fyrir hendi, þegar þessi lög voru sett, séu fyrir hendi í aðalatriðum. Það hefur ekki verið talið fært að fara út í víðtækari bindingu af ástæðum, sem ég nú hef nefnt, en mér finnst það ekki fullnægjandi rök fyrir því að sleppa hendinni af toppgróða num, að bindingin var ekki stórfelldari en þetta. Ég get því ekki mælt með því, að þess lög verði felld úr gildi. Það gæti vel verið, að ýmsir vildu nota sér þær heimildir, sem í þessum lögum felast, í ríkara mæli en gert hefur verið. Þá væri ógætilegt að vera búinn að fella þau og sleppa milljónum þeim lausum, sem hafi verið bundnar. Ef milljónunum væri sleppt lausum, mundi það varla teljast mögulegt að byrja á ný, því að þá væri hægt að vísa í það, að því, sem búið væri að gera, væri sleppt lausu og því ekki réttmætt að byrja á slíku. Það er ekki heldur rétt að afhenda þetta bundna fé að sinni.

Það er rétt, sem hv. þm. Vestm. gat um, að lögin eru nú sem stendur ekki framkvæmd að neinu leyti.

Ástæðurnar eru þær, að hér hefur um lengri tíma verið skortur á dollurum. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir þeim, meiri en hægt hefur verið að fullnægja. Af þessu leiðir, að bönkunum hefur verið heimilt að kaupa skilmálalaust alla þá dollara, sem fengizt hafa, og hefur það verið gert. Nú er þetta að breytast þannig, að bankarnir eru byrjaðir að eignast dollara, lítið að vísu, en ekki er hægt að gera sér grein fyrir, hve ört þeir kunna að berast. Af því leiðir að mínum dómi, að bráðlega verður tímabært að taka upp framkvæmd þessara laga með dollarana eins og pundin. Og eftir því, sem ég lit til, get ég ekki betur séð en að tímabært sé á næstunni að byrja á að binda eitthvað af þeim dollurum, sem við erum ekki knúðir til að kaupa fyrir, því að framboðið virðist vera að nálgast það að fullnægja eftirspurninni. Af þessu get ég ekki séð, að rétt sér að fella lögin.

Hv. þm. Vestm. minntist á, að hægt væri að grípa til þess að setja lögin aftur síðar, ef það teldist skynsamlegt. En ég vil sérstaklega benda á það atriði í ræðu hans og undirstrika, að ef búið er að sleppa lausum þeim gróða, sem til fellur í pundum, mundi hann verða til þess að auka verðbólguna. Ég vil einnig undirstrika það, sem ég sagði áðan, að það eru líkur til, að dollararnir séu að fara í sama farveg. Svo getur komið til álita, hvort menn telja skynsamlegt að ganga lengra en áður var gert, þannig, að meiri hluti af útflutningnum verði bundinn en áður var. En á því eru margir erfiðleikar. Ef sleppa á útflutningnum, yrðu innistæðueigendur margir og mjög erfitt að gera sér grein fyrir, hve mikla þörf hlutaðeigandi hefur fyrir að fá yfirfærslu. Ég held þess vegna. að þar sem það er vitað mál, að hér er ekki bundið annað en stærsti gróðinn, toppgróðinn, þá sé það skynsamlegt að halda þessari löggjöf og framkvæma hana a.m.k. svipað og verið hefur.

Ég hef hér minnzt aðallega á fyrri ástæðuna, sem hv. þm. Vestm. bar fram fyrir því, að það bæri að fella þessi lög, sem sé það, að þau hefðu litla þýðingu. Um síðara atriðið vil ég aðeins segja það, að ég hef ekki fylgzt með í einstökum atriðum í framkvæmd þessarar löggjafar. Ég skildi hv. þm. Vestm. þannig, að þessi löggjöf hefði komið þyngra niður á þeim, sem byrjuðu eftir að lögin gengu í gildi, en hinum, sem byrjuðu að starfa áður en þau öðluðust gildi. Ég geri ráð fyrir, að erfitt sé að koma í veg fyrir, að slíkir hlutir geti átt sér stað, ef hægt er að kalla þetta misrétti, þegar allir búa við það sama eftir að lögin eru gengin í gildi og komin til framkvæmda. Þó má vera, að frá sjónarmiði þeirra, sem byrjuðu eftir að lögin öðluðust gildi, komi þetta undir að heita misrétti, en ég held, að það verði að líta á það sem óhjákvæmilega nauðsyn, að þeir komi undir lögin eins og aðrir, þótt þeir hafi starfað áður, og það getur þó aldrei orðið verra en það, að kannske verulegar hluti af gróða þeirra verði lokaður inni.

Ég veit ekki, hvort mönnum þykir það svo voðalegt, að meiri hlutinn af þessum gróða verði að bíða þangað til þjóðfélagið hefur meiri þörf fyrir gjaldeyri.

Ég held, að ég hafi minnzt á mest af því, sem hv. þm. Vestm. talaði um. Ég get ekki fallizt á réttmæti þess að fella þessa löggjöf úr gildi. Ég tel, að hún eigi að vera í gildi og framkvæmast líkt og verið hefur, ef ekki er hægt að framkvæma hana þannig, að hún komi að meira gagni, en á því eru ýmsir annmarkar, sem menn hafa fram að þessu talið svo veigamikla, að ekki sé hægt að komast fram hjá þeim