29.04.1942
Efri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Jóhann Jósefsson:

Ég bjóst nú ekki við öðru en því, að hæstv. ráðh. mundi vilja halda í þessi lög, þótt hann kannaðist við, að þær vonir, sem til þeirra voru gerðar í byrjun, hafi staðið hærra en raun bæri vitni um. Ég hef enga löngun til að vera að karpa við hæstv. ráðh. um þetta „prinsip“— atriði. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að hafi tilgangurinn með þessum lögum verið sá að koma í veg fyrir óþarfa eyðslu í landinu, þá hefur honum ekki verið náð. Það er sýnilegt. En áður en ég eyði meira af tíma þessarar hv. d., þá vil ég, að gefnu tilefni eftir ræðu hv. 10. landsk., spyrja hæstv. ráðh., hvort hann muni vilja taka til athugunar breyt. á reglugerðarákvæðinu, til þess með því að rétta nokkuð hlut þeirra, sem vissulega eru til í þessu máli, sem bókstaflega geta ekki greitt skatta sína nema með því að fá yfirfært.

Hæstv. ráðh. talaði um toppgróða. Hvað á atvinnurekandinn að gera við þann gróða, sem hann hefur fram yfir útgjöld? Hann vill gjarnan halda áfram að starfa. En hann getur bara ekki haldið áfram, ef þessi gróði er bundinn og hann fær ekki hreyft við honum. Við skulum t.d. gera ráð fyrir, að menn, sem hefðu skip í förum á þessu tímabili, fengju það, sem hæstv. ráðh. kallar toppgróða. Þeir mundu vilja eignast skipið, kaupa báta og halda áfram að gera út. En þetta geta þeir ekki, þeim er haldið. Þeir hafa ekki leyfi til að ráðstafa sínum pundum. Þetta er dálítið einkennileg peningapólitík, en svona er það.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann vildi fallast á að láta mig fá frest til að ræða við n., um að fá einhverja tilhliðrun, sem yrði þá komið fram í reglugerð, í þessa átt, og mundi ég þá taka till. mína aftur, um afnám laganna. En ef hæstv. ráðh., og ef til vill einhverjum fleiri hv. þm., er það keppikefli að halda í þessi lög, sem eru ónýt og verða ónýt í framkvæmd, þá skal ég ekki standa í stríði með það. En hitt vil ég gjarnan, að hæstv. ráðh. fallist á að lagfæra það, sem hægt er, með reglugerð.

Í fyrra var þetta mál hér til umræðu, og varð þá að samkomulagi við hæstv. ráðh., að hann féllst á að gefa pundakaupan. fyrirmæli um það, að hún leyfði mönnum að kaupa skip og vélar fyrir þessa peninga. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það loforð hafi a.m.k. verið hálfsvikið. Ég veit ekki, hvers er eiginlega verið að hefna á einstökum mönnum, sem lenda innan þessa lagakerfis. Það eru ekki togaraeigendur, sem þarna eiga hlut að máli, heldur einstakir útflytjendur, margir hverjir smáir, sem hafa farið út í þennan fullkomlega leyfilega atvinnuveg á því tímabili, sem þessi binding hefur gilt, og vegna samningsins við Breta eru farnir út úr honum. Það var ekki leyfilegt eftir honum að hafa nein útlend skip í förum með ísvarinn fisk fyrir Íslendinga og ekki kaupa hann nema á vissum stöðum. Þess vegna finnst mér, að hæstv. ráðh. gæti gengið svo langt til samkomulags í þessu efni að fallast á það, að inn í lögin væri sett ákvæði um það, að í reglugerð skyldi tekið tillit til þess, hvort menn hefðu atvinnurekstur sinn að öllu leyti bundinn á þennan hátt eða ekki.

Eins og ég sagði áðan, geri ég ráð fyrir, að ríkið vilji fá sinn hluta af þessum tekjum eins og öðrum. Það verður auðvitað ekki komizt hjá því. En hvernig hefur ríkið hugsað sér, að greiddir yrðu skattar af frosnum pundum? Það er ég enn ekki farinn að sjá. Og eiga ekki þjóðfélagsborgararnir fullan rétt á því að fá að meta þann afrakstur, sem þeir hafa af atvinnu sinni? Ég segi fyrir mig, að ég held, að þeir eigi rétt á því, þó að það megi með ólögum binda hendur þeirra á einhverju tímabili.

Ég man eftir því, þegar ég spurði hæstv. ráðh. að því á síðasta þingi, hvers vegna bankarnir hefðu keypt sterlingspund af togarafél. algerlega umyrðalaust á því háa gengi, sem þá var, og miklu meira en maður gat ímyndað sér að bankarnir vildu hlaða að sér af þeirri mynt, að þá vildi hann skýra það með því, að það hefði verið eftir beiðni bankanna. Þeir hefðu gert það til þess að geta umreiknað þau og borgað upp sínar skuldir. Hér hefur verið mikil tilhliðrun sýnd, og það er ekki ástæða til að lasta það. En hún rekst óneitanlega á við fyrri afstöðu hæstv. ráðh. gagnvart togarafél. og gengur mjög á móti því, sem öðrum en togaraeigendum, sem þó hafa rekið líkan atvinnurekstur, er ætlað að búa við, því að þeirra afrakstur, sem hæstv. ráðh. kallar toppgróða, á nú að binda. Það er nú orðið svo með afrakstur þeirra manna, sem þennan atvinnuveg stunda, að hann er í svoleiðis járnklóm, að þeir mega ekki kaupa fyrir hann neinar vörur, heldur verða þeir að skila bönkunum honum, sem banna að láta þá fá hann í ísl. krónum. Og enn þá er ekki sýnt, hvort hægt verður einu sinni að fá hann til að greiða með lögboðin gjöld, eins og skatta. Það er líka ýmislegt fleira, sem menn vildu óska að gera við ágóðann af atvinnurekstri sínum, eins og ég tók fram í þessari hv. d. í fyrra, t.d. að auka framleiðslutæki sín.

Ef hæstv. ráðh. vill fallast á, að þetta verði tekið til athugunar, þá vildi ég bera fram þau tilmæli, að þessari umr. verði frestað, og að n. athugi, hvort ekki mætti leiðrétta það misrétti, sem hér er á orðið, með reglugerðarákvæði.