21.05.1942
Neðri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

118. mál, eignarnám landa á hverasvæðinu í Ölfusi

*Jóhann G. Möller:

Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara, og vil ég nú gera stutta grein fyrir honum.

Fyrirvari minn felst ekki í því, að ég sé mótfallinn þeirri hugsun, sem er í þessu frv., að ríkið eigi þetta land, sem hverahitinn er á eða líklegt, að megi ná hverahita á. Ég tel það eðlilegt. Mér virðist sú hugsun liggja hér á bak við, að það eigi að hindra, að stórfelld „spekulation“ með þetta jarðhitasvæði geti átt sér stað, og á þá væntanlega að gefa þeim, sem óska eftir að fá þarna lönd, kost á að fá þau ódýrt. En ég tel, að ekki sé vel farið með slíka auðlegð sem jarðhitann á Íslandi, ef aðallega á að nota jarðhitasvæðin til þess að byggja þar sumarbústaði og hús, sem eru aðeins til lítilfjörlegra nota fyrir einstaka menn, og þá sérstaklega þá, sem hafa ráð á því að búa á tveimur stöðum. Ég tel eðlilegt, að ríkið eigi sem allra flest hverasvæði á landinu og heitar uppsprettur og skipuleggi notkun þeirra á þann hátt, að sem mestur hagnaður verði af fyrir landið í heild, og sérstaklega vil ég, að ríkið tryggi, með því að eiga sem flest hverasvæði á landinu, að sú ræktun fari þar fram, sem bæði heilbrigðilega séð og af öðrum ástæðum er nauðsynleg. Ég tel það hreint skipulagsleysi, að heitar uppsprettur og hverasvæði skuli vera í höndum einstakra manna, sem hafa ótakmörkuð yfirráð um notkun þessara hlunninda, sem þeir á þennan hátt hafa eignazt, og tel ég eðlilegt, að ríkið hafi þar hönd í bagga og vil beina því til hæstv. stj., þegar hún fær þessa heimild, að nota hana ekki til að selja þessa skika, til þess að þarna verði byggðir sumarbústaðir eða annað slíkt, fyrr en fram hefur farið rannsókn á, hvort ekki sé hægt að skipuleggja það afl, sem þarna blundar, helzt sem viðast, og helzt að nota það þannig, að það verði til sem mestra heilla fyrir þjóðina í heild. Til þess að skýra hugsun mína enn frekar vil ég taka fram, að ég tel misráðið, að hér í Reykjavík sé yfirfullur markaður af rándýrum blómum, sem ræktuð eru í vermihúsum manna, sem hafa þau sér til einkahagnaðar, þegar stundum er ekki hægt að rækta á sama tíma nytsamlega ávexti til verndar heilsu landsmanna, sem ekki fást fluttir inn í landið, en hægt að tryggja með ræktun þeirra, að hagnaður sé fyrir hendi, að vísu ekki jafnmikill og af blómaræktinni, en þó sómasamlegur. Þessu vil ég skjóta til hæstv. stj., sem fær þessa heimild, en það er ekki það, að ég sé á móti því, að ríkið eignist þetta land þarna, ég er því þvert á móti fylgjandi.