22.05.1942
Neðri deild: 64. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

118. mál, eignarnám landa á hverasvæðinu í Ölfusi

Bjarni Bjarnason:

Ég skal ekki vera langorður.

Ég hélt, að hv. 8. landsk. væri svo kunnugur þarna eystra, að hann hefði ekki þurft að finna sér upp ástæðu til þess að flytja þessa brtt., en mér skilst, að hún sé eingöngu flutt í þeim tilgangi að hrekja málið milli deilda, svo að það dagi uppi.

Ég vil endurtaka það, sem hér hefur komi fram, að Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri vill láta hafa það eftir sér hér, að hann véfengi ekki, að land Kaupfélags Árnesinga heyri hér undir, þó að aðrir véfengi það. Enn fremur er það kunnugt, að land Kaupfélags Árnesinga hefur lengi staðið ríkinu til boða, en engum öðrum. — Er því brtt. hv. 8. landsk. með öllu óþörf.