29.04.1942
Efri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

80. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti ! Nefndin hefur haft mál þetta alllengi til meðferðar og átt um það tal við marga menn. Hún hefur orðið sammála um að leggja til, að höfuðbreytingar þær, sem farið er fram á, verði samþykktar, en auk þess breytingin, sem sjá má á þskj. 262. Það voru tvö atriði, sem breyta átti eftir frv. og þó nokkuð óljóst um annað þeirra. Fyrra atriðið var það að lækka úr 3000 lítrum á ári í 2500 þá ársnyt, sem reiknuð er eftir hverja kú hér við Reykjavík til að miða verðjöfnunargjald við, þegar mjólkin fer ekki um hendur samsölunnar. Upphaflega þótti mér 3000 lítra áætlunin of há, en hún komst í lög fyrir tilstuðlun þm. Reykv., sem töldu meðalnytina þetta. Ég álít 2700 lítra næst sanni, en í n. varð að samkomulagi að leggja til, að hún yrði ákveðin 2600 lítrar. Þá höfum við tekið upp breytingu, sem ekki var í frv., um að hækka úr 1/2 lítra í 1 lítra á dag það mjólkurmagn á heimilismann, sem frádráttarbært er við álagningu gjaldsins. Þegar þetta var ákveðið í fyrstu, var neyzlan ekki nærri orðin 1/2 lítri á mann í Reykjavík, svo að ekki þótti rétt að fara hærra. Nú er hún orðin rúmlega það, og það er allra manna álit, að það sé ákaflega mikils virði, að menn noti sér sem mest mjólkina til fæðis. Í samæmi við það leggjum við til að hækka þetta.

Önnur breyting frv. átti að vera að fella niður verðjöfnunargjaldið, svo sem um ræðir í 2. gr. þess. Sú breyting var þó alls ekki útfærð, og ég skal ekki leggja dóm á, hvernig hv. flm. hefur hugsað sér hana útfærða. Það er algerlega á valdi mjólkursölunefndar, hve hátt gjaldið er hverju sinni. Það fer eftir ýmsum aðstæðum. Mjólkurmagn verðjöfnunarsvæðisins, það sem á markað kemur, er um 15 millj. lítra á ári, og ákaflega breytilegt, hve mikill hluti þess fer til neyzlu og hve mikill þarf að fara til vinnsla, eða hve mikið fæst fyrir það, sem í vinnslu fer. Þess vegna þarf á mjög mismiklu fjármagni að halda til uppbótar, svo að verðmunur sé sem minnstur á hinum ýmsu stöðum. Mjólkursölunefnd er sá aðili, sem fylgist langbezt með því á hverjum tíma, hvert gjaldið þarf að vera. Hún reynir að stilla því í hóf. Þess vegna sér n. enga ástæðu til að hrófla við verðjöfnunargjaldinu, heldur leggur til, að 2. gr. frv. falli niður.

Loks hefur n. breytt fyrirsögn frv., sem af einhverjum ástæðum hefur raskazt úr réttu formi. Ég veit ekki betur en n. standi óskipt að brtt. og sammála, nema þá helzt, að það væri ég, sem þykir 2600 lítra ársnytin sett of lágt. Sé ég ekki ástæðu til að segja fleira um þetta.