08.05.1942
Efri deild: 52. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

125. mál, verðlagsuppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Þegar fyrir fjhn. lá beiðni frá hæstv. fjmrh. um, að n. flytti þetta frv., og það var vitanlega samþ., þá hreyfði ég því í n., hvort ekki gæti orði samkomulag um það, að n. tæki upp í þetta frv. heimild handa stj. til að greiða ákveðna uppbót á útborguð laun starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana, og jafnframt hvort ekki mundi unnt að gefa bæjarfélögunum heimild til að gera slíkt hið sama fyrir sín,a menn.

Ástæðan til þess, að ég hreyfði þessu, er m.a. sú, að eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefur borizt til Alþ. beiðni frá starfsmönnum ríkis og bæja, þar sem þeir óska eftir, að þeim verði greiddur ákveðinn hundraðshluti á laun sín, og færa gildar ástæður fyrir, að sú beiðni er fram komin. Hv. meðnm. mínir töldu ekki rétt að gera breyt. við frv., áður en það væri lagt fram, þar sem það væri samið af stj. og engar óskir lægju fyrir frá henni í þessa átt. Hins vegar var frv. til 1. umr. í gær. Mér hefur ekki gefizt kostur á að ræða um það við hv. meðnm. mína, hvort þeir gætu fallizt á að flytja slíka breyt. Þegar málið kemur nú til 3. umr., mun ég og hv. 2. landsk. flytja brtt. þess efnis, sem ég hef rætt um. Hins vegar vildi ég gjarnan leita samvinnu við aðra hv. dm. til þess að tryggja till. framgang.

Ég ætla ekki nánar að rekja, hversu mikil þörf er á þessu. Það getur ekki gengið fyrir ríkið og stofnanir þess að hafa starfsmennina mjög óánægða með laun sín og láta þá hafa lægri laun en lítt lærðir iðnaðarmenn hafa nú á tímum og vilja ekki gera þar á neina leiðréttingu, því að skilyrðið fyrir, að þeir vilji vera áfram, er, að þeir fái sómasamleg laun fyrir störf sín.