09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

125. mál, verðlagsuppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Eins og hæstv. forseti veit, þá var þessari brtt. útbýtt nú á fundinum. Ég vildi því bara fyrir hönd fjhn., sem flytur þetta mál, geta þess, að n. hefur ekki tekið neina afstöðu til þessarar till., og tók ekki heldur afstöðu til þess, þegar minnzt var á það á fundi, eins og hv. 1. flm. gat hér um við 1. umr. málsins, og ég skal játa, að ég man ekki eftir, hvort minnzt var nokkurn tíma á það, en véfengi það þó ekki.

Mér sýnist á hinn bóginn ekki alveg ljóst, hvað átt er við með till., og tók ekki heldur eftir því hjá hv. flm., hvernig á að skilja till., hvort það ber að taka hana eins og hún liggur fyrir, að heimildin sé um það að greiða 10–20% á laun og dýrtíðaruppbót. Einnig langar mig að vita, hvort þetta nær til þeirra, sem nú hafa hærri laun en kr. 650.00 á mánuði, en það er það hámark, sem verðlagsuppbót er greidd af.

Það er aðeins þetta, sem ég vildi fá að vita, en tek annars ekki afstöðu til þessa máls nema með atkv. mínu.