09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

125. mál, verðlagsuppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég vil aðeins vekja athygli hv. þdm., og þá ekki sízt þeirra hv. þm., sem telja sig fyrst og fremst málsvara. launamanna, að það kynni að reynast nokkuð tvíeggjað fyrir launamennina að gera slíkar lagfæringar á launakjörum þeirra, sem hér er farið fram á.

Eins og menn vita, þá er það eilíft deilumál innan þings og utan, hvernig eigi að launa starfsmenn ríkisins eða opinbera starfsmenn yfirleitt. Og þeir, sem lifa mest á handafla sínum, eftir því sem guð og lukkan gefur, telja, að það séu mikil hlunnindi fyrir opinbera starfsmenn að eiga þó alltaf sín laun vís, þar sem þeir hins vegar eiga undir högg að sækja um sína afkomu á mismunandi tímum. Þessi rök komu mjög fram í sambandi við dýrtíðaruppbótina á laun opinberra starfsmanna, eins og allir hv. þm. kannast vel við. Því er af hálfu ýmissa haldið fram, að þó að nokkur dýrtíð verði í landinu, samfara verðbólgu og auknum tekjum til ýmissa landsmanna, þá sé það ekki endilega sjálfsagt, að opinberir starfsmenn fái það allt bætt upp, af því að þeirra staða sé alltaf trygg á erfiðu tímunum, þegar atvinnuleysi er og atvinnureksturinn er rekinn með tapi. Nú er því ekki að neita, að opinberir starfsmenn margir hverjir, og kannske yfirleitt, eru lakar settir heldur en mikill fjöldi manna, sem stundar aðra atvinnu, og þess vegna eru líka slík tilmæli sem þessi á miklum rökum reist, enda ákaflega vafasamt, hvort hjá því verður komizt að verða að einhverju leyti við þeim. En ég fyrir mitt leyti er í mjög miklum vafa um, hve mikill greiði launastéttunum er gerður með þessu, með tilliti til þess, hvernig þeirra málum kunni þá að verða borgið, þegar verr árar. Við skulum segja, að þegar þrengdi í búi hjá ríkissjóði, þá kæmu fram kröfur um lækkun á launum opinberra starfsmanna, sem byggðist á því, að úr því að menn hefðu fengið sérstakar uppbætur vegna góðæris, þá sé líka eðlilegt, að skorið sé af launum þeirra, þegar harðnar í ári. Það hefur nú einu sinni verið gripið til þessa og mælzt misjafnlega fyrir, og ef menn athuguðu þetta frá báðum hliðum, þá efast ég ákaflega mikið um, að launamenn mundu telja hag sínum betur borgið með því að fara inn á þá braut, sem hér yrði stofnað til.

Það er ætlazt til, að með verðlagsuppbót fái launamenn, að undanskildum hálaunamönnum, sem hafa yfir kr. 650.00 í mánaðarlaun, laun sín bætt í hlutfalli við verðlagshækkun í landinu. Svo framarlega sem, talið er, að stofnlaun séu hæfileg á venjulegum tímum, þá má segja, að starfsmenn hafi ekki yfir neinu að kvarta. Enda er þessi till., að mér skilst, ekki borin fram vegna þess, að það sé álitið, að menn komist ekki af með laun sín, eins og þau nú eru með verðlagsuppbót, heldur af hinu, sem ég get viðurkennt að víssu leyti, að það árar vel og ríkissjóður fær miklar tekjur og allur almenningur í landinu hefur miklu meiri tekjur en venjulega, og af þessu er ekki nema ákaflega eðlilegt, að slíkar kröfur sem þessi komi fram frá fast launuðum mönnum.