09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

125. mál, verðlagsuppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af ræðu hæstv. fjmrh.

Hann taldi vafa bundið, hvort heppilegt væri fyrir starfsmenn ríkisins að fá slíka hækkun sem hér um ræðir. Þessu hefur hv. 10. landsk. svarað að nokkru, þar sem hann réttilega hefur bent á, hversu mikill mismunur er á launum opinberra starfsmanna og launum yfirleitt fyrir öll önnur störf, sem unnin eru í þjóðfélaginu. Og hins vegar hefur hann bent á það, að þegar krepputímar eru, þá eru byrðarnar náttúrlega lagðar á þá, sem hafa föstu tekjurnar.

En það er ein hlið á þessu máli, sem ekki hefur verið minnzt á og kom fram í ávarpi starfsmanna ríkisins til Alþ., og hún er sú, að það vofir nokkur hætta yfir stofnunum ríkisins, að fólkið, sem þar vinnur, a.m.k. í lægri launaflokkunum, fari út í atvinnulífið, þar sem betur er greitt, og að ríkið komi til með að standa uppi með færra starfsfólk eða óvanara eða fólk, sem kannske er ekki eins mikilli starfshæfni búið og það, sem nú er til. Það er vissulega hætta á ferðum í þessu efni. Og út frá þessu sjónarmiði væri það kannske skynsamleg ráðstöfun af Alþ., til þess að tryggja, að ríkið missi ekki þessa starfskrafta í mörgum greinum, að gera þessa launabreyt. Ég veit, að þeir, sem búa í Reykjavík, þekkja það, að í verzlun, iðnaði og við alls konar kaupmennsku er ekki, verið að spyrja um laun. Mönnum er bara borgað það, sem þeir geta sætt sig við, og eftir því, hvað menn hafa mikla starfshæfni fram að leggja, og eftir því, hvað mikið er eftir þeim sótt. Og þegar slík keppni er komin í atvinnulífið í landinu, þá er ekki nema eðlilegt, að yfir bæjum og ríki vofi sú hætta, að þau standi uppi starfsfólkslítil.

Ég vildi draga fram þessa hlið málsins, því að hún er fyllilega þess verð, að henni sé gaumur gefin. Ég hygg, að það verði svo um laun þeirra, sem vinna hjá ríki og bæ, að ef á annað borð kreppir eitthvað að í okkar þjóðfélagi að þessu stríði loknu, þá verði að taka launakerfið til athugunar yfirleitt, án tillits til þess, hvernig það var á stríðstímanum, og án tillits til þess, að kostir launastéttanna hafa verið þrengdir. Ég álít því ekki nema sanngjarnt að láta hina opinberu starfsmenn njóta nokkurs af því, sem kallað er góðæri í landinu.

Það hefur réttilega verið bent á, að fjöldinn af opinberum starfsmönnum hefur 300 kr. grunnlaun og aðrir á 4. hundrað á mánuði. Þetta er ekki meira en það, að tæplega verður komizt af með það í þessari miklu dýrtíð. Það er því ekki nema ósköp eðlilegt, að þetta fólk snúi sér nú til þessa aðila, sem á að ráða fram úr málum þess, og reyni að fá hlut sinn að einhverju bættan.