21.05.1942
Neðri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

125. mál, verðlagsuppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Ég hef hér, ásamt hv. 4. landsk., leyft mér að flytja brtt. á þskj. 382, þess efnis, að greidd sé uppbót á laun opinberra starfsmanna og þannig, að þeir, sem hafa lægstu launin, fái hæstu uppbótina. Tilgangurinn er sá að bæta úr því misrétti, sem starfsmenn ríkis og bæja verða fyrir.

Flest sterkustu verklýðsfélögin hafa getað knúð fram grunnkaupshækkanir, annaðhvort á bak við gerðardóminn eða með samþykki hans. Þeir, sem verða harðast fyrir barðinu á gerðadómnum, eru því opinberir starfsmenn, sem engar launahækkanir hafa fengið. Ofan á þetta bætist, að sumar stéttir opinberra starfsmanna hafa sérstaklega lág laun. Því hefur alltaf verið borið við, að ríkið hefði ekki efni á því að launa þessa menn betur, en nú er ekki lengur hægt að bera því við. Á s.l. ári var tekjuafgangur ríkissjóðs 17 millj. króna, og ekkert bendir í þá átt, að hann verði lægri nú. Mælir því allt með því, að till. okkar verði samþ., og ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að vera ekki lakari atvinnurekandi en aðrir.