25.02.1942
Efri deild: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

9. mál, eftirlit með ungmennum o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Í gær var hér til 1. umr. frv. til I. um staðfestingu á brbl. um vegabréf. Hæstv. ráðh. lét þá ekki svo lítið að upplýsa, hver tilgangurinn hefði verið með þeirri lagasetningu, enda þótt stj. hafi ekki leyfi til að gefa út brbl., nema brýna nauðsyn beri til. Hæstv. forsrh. hefur lítið eitt bætt úr þessu nú, er hann mælti fyrir frv. því, sem nú liggur hér fyrir, og sagði, án þess að fara nánar inn á þetta frv., hver tilgangurinn væri. Það hefði verið gott að fá að vita þetta í gær, vegna þess að það er ekki gott fyrir þm. að greiða atkv. um mál, sem þeir hafa ekki bugmynd um, hvaða tilgang hefur, sérstaklega þegar um er að ræða brbl., sem stj. hefur ekki heimild til að gefa út, nema brýna nauðsyn beri til. Ég ætla ekki að bera brigður á nauðsyn þessara brbl., en það ber a.m.k. ekki vott um mikla virðingu fyrir stjórnarskránni, þegar ráðh. gerir enga tilraun til að gera þm. skiljanlegt, hvaða nauður hafi rekið stj. til að gefa þessi I. út. Þeim er nefnilega nokkuð farið að fjölga, þessum brbl. Það er engu líkara en að hæstv. stj. hafi alveg fallið úr minni, að ekki má gefa út brbl., nema brýna nauðsyn beri til. Nú liggur fyrir þinginu sægur af brbl. Hvaða nauðsyn hefur borið til fyrir hæstv. stj. að gefa þau öll út? Það kann að vera, að nokkur rök megi færa fyrir nauðsyn þeirra l., sem lágu fyrir d. í gær, en ég hygg, að erfiðara verði að færa fram gild rök fyrir þeim l., em liggja hér fyrir nú, og í rauninni mörgum öðrum.

Mér hefði þótt æskilegt að fá að vita, hvaða nauðsyn hefur borið til að gefa út þessi brbl. þennan stutta tíma síðan síðasta þingi lauk. Hæstv. ráðh. upplýsti, að skiptar skoðanir hefðu verið milli flokka um frv., sem legið hefði fyrir, áður en þing kom saman í haust, og þess vegna hefði frv. ekki komið fram. En fyrst skiptar skoðanir voru um það, skils mér, að það hefði verið hlutverk þingsins að ræða það. Nei, hin leiðin var farin. Frv. var ekki lagt fyrir þingið, en þennan stutta tíma, sem leið milli þinga, voru ónefndar konur og menn látin taka að sér það starf, sem Alþingi ber, og svo gaf stj. þetta út sem brbl., tók þannig alveg að nauðsynjalausu löggjafarvaldið af Alþ. og virti stjórnarskrána að vettugi. Nú fer allmikill hluti þingsins í að samþ. öll þessi brbl. Þm. standa augliti til auglitis við staðreyndirnar, l., sem búið er að gefa út og farið er að framkvæma, og þeir líta yfirleitt svo á, að þeir eigi ekki annars kost en að samþ. þessi l. og beygja sig undir staðreyndirnar, samþ. það, sem stj. hefur gert og er farin að framkvæma. Ástandið er þannig á Alþ., að stuðningsflokkar stj. álíta skyldu sína að snúast ekki móti því, sem stj. hefur gert í því efni, enda mundi það kosta stj. svo mikla erfiðleika, ef brbl. féllu, að ekki væru miklar líkur til, að hún gæti haldið áfram að fara með völd. Með þessu verður þinghaldið hreinn skrípaleikur, a.m.k. sá hluti þess, sem fer í að fást við öll slík brbl., og er rétt eins og með slíku sé verið markvisst að vinna að því að brjóta niður virðingu þingsins.

Þessi l. líta fljótt á lítið ósköp sakleysislega út, og sjálfsagt eru þau miklu saklausari en frv. það, sem legið hefur fyrir, áður en þing kom saman í haust, eftir því sem ég hef heyrt og mér skildist á ræðu hæstv. forsrh. Ég viðurkenni, að undir vissum kringumstæðum getur verið ástæða að grípa til ráðstafana svipaðra sumum þeim, sem gert er ráð fyrir í þessum l. Samt sem áður er það svo, að þótt nú sé talað um „ástand“, þá hefur oft áður verið engu minni nauðsyn til viturlegra ráðstafana vegna unglinga, sem leiðast á glapstigu, heldur en nú. Skýrslur lögreglunnar leiða í ljós, að afbrot unglinga eru stórum minni nú, eftir að atvinnuleysið hvarf. Þetta sannar ekki annað en að það stjórnarfar og þjóðskipulag, sem atvinnuleysinu veldur, á fyrst og fremst sökina. Nú mun það vera hið svonefnda „ástand“, sem er tilefni þessara l., og unglingarnir, sem fyrst og fremst er átt við, eru fyrst og fremst stúlkur, og er ætlazt til, að lögreglan hafi eftirlit með framferði þeirra til 20 ára aldurs. Því er ekki að leyna, að almennt mun álitið, að það ástand sé í landinu, að nauðsyn sé til að gera eitthvað. En því er ekki heldur að leyna, að eftir þeirri reynslu og þeim dæmum, sem við höfum af réttarfarinu í þessu landi, þá munu menn ekki við neinu góðu búast úr þeirri átt. Það verður ekki af skafið, að í nafni lögreglunnar, í rauninni ranglega í nafni hennar allrar, hafa verið gefnar skýrslur, sem eru hneykslanlegar, sannanlega fullar af ýkjum og rangfærslum. Lítur út fyrir, að einhverjir menn hafi verið hafðir til þess að snuðra um einkalíf manna og árangurinn m.a. orðið sá, að skikkanlegar og heiðarlegar stúlkur, sem hafa verið trúlofaðar útlendingum og jafnvel giftar þeim, hafa verið settar í flokk með vændiskonum og lauslætisdrósum. Slík framkoma er ekki til að efla siðgæði, heldur er hún versta siðleysi.

Eins og réttarfarið er nú í þessu landi, þá óttast ég, að þessum l. verði misbeitt, og það er hægt að misbeita þeim á svívirðilegasta hátt. Í landi, þar sem fávitar og geðveikt fólk er látið vera í fangelsi með afbrotamönnum, þar býst maður ekki við neinu góðu. Með þessum l. er veitt vald til að dæma fólk, sem ekkert refsivert hefur aðhafzt, í allt að 3 ára þvingunarvist. Það heitir ekki refsivist, en það mun verði litið á það sem refsingu. Ég skal ekki leyna því, að mér hrýs hugur við slíku valdi í höndum ríkisstjórnar, sem hefur þá sögu, sem þessi hefur.

Ég held því, að nauðsyn hafi verið mest til allt annarra hluta en þessarar lagaútgáfu. Ef hæstv. stjórn hefði látið sér mjög annt um unglinga þessa lands, hefði hún fyrir löngu séð þeim fyrir tækifæri til framhaldsskólanáms, komið upp menningarstöðvum fyrir æskulýðinn í Reykjavík og veitt unglingunum aðgang að hollum skemmtunum, t.d. með því að koma upp kvikmyndahúsum, þar sem sýndar væru kvikmyndir, sem hefðu menningarlegt gildi.

Það, sem æskulýðurinn þarf á að halda, er þetta. En siðgæði og menning verða aldrei sköpuð með lögregluaðgerðum. Það eru allt aðrir hlutir, sem til þess þarf.