25.02.1942
Efri deild: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

9. mál, eftirlit með ungmennum o.fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það var dálítið einkennilegt að heyra það af munni hv. 1. Iandsk., þó að ég ætli ekki að fara að mótmæla þeirri setningu, að siðgæði og menning verði aldrei sköpuð með lögregluaðgerðum. Hvergi mun þó vera nær því en í því ríki, Rússlandi, sem hann vegsamar, þar sem sú stefna er ráðandi, er hann telur sig berjast fyrir, að reynt sé að skapa með lögregluaðgerðum þann móral, sem ríkisvaldið telur, að ráðandi eigi að vera. (BrB: Þess vegna er það víst, að Rússarnir eru svona mórallausir! ) Nú, er það? Það má t.d. minna á hreinsanirnar svo kölluðu þar í landi, þeir höfðu þar svo gott yfirlit um þá, sem voru á móti kerfinu (um slíkt er reyndar ekki að ræða hér), að þeir voru allir teknir svo að segja fyrstu dagana og skotnir, svo að ekki þyrfti að óttast svo kallaða kvislinga. Hefur hvergi verið gengið eins langt í því og þar að berja menn til hlýðni og ekki bara í því að berja menn, heldur jafnvel þurrka einstaklingana út.

En hitt er rétt, að of lítið hefur verið gert að því hér á landi að veita unglingum kost á holum og góðum skemmtunum. Og auðvitað er ekki hægt að skapa uppeldi og móral með kerfi eins og því, sem hér er um að ræða. En þetta tvennt verður þó að fylgjast að. Það þarf að ala æskulýðinn upp, en jafnframt þarf að hirða þá einstaklinga, sem hljóta alltaf að fara forgörðum, og hjálpa þeim til að komast aftur á réttar brautir.

Það, sem veldur því, að ég tek hér til máls, er það, að ég hef verið sakaður um að hafa gefið út brbl. að nauðsynjalausu og að hafa ekki verið hér viðstaddur í gær til að mæla fyrir brbl., sem lögð voru fram. Ég hélt ekki, að þörf væri að beina til mín þessari síðar nefndu ásökun, því að ég hef vanalega fylgt eftir þeim málum, er ég hef borið fram, og ég hef þegar gert grein fyrir ástæðunni til þess, að ég kom ekki í gær. Það voru mistök. Annars er leitt að þurfa að taka þátt í umr. sem þessum, þar sem ríkisstj. er sökuð um hvers konar ósóma fyrir að gefa út þessi brbl., eins og hún væri að fremja eitthvert afbrot, og það þótt hver maður viti, hver tilgangurinn er með brbl. og til hvers verið er að taka upp þessi vegabréf. Það er vitanlegt, að ekki er hægt að framfylgja tilgangi l. nema því aðeins, að hver einstaklingur hafi vegabréf í vasanum, sem sýni, hver hann er og á hvaða aldri. Hvernig á lögreglan að geta haft sæmilegt eftirlit með skemmtistöðum t.d. án slíkra vegabréfa? Það er auðskilið, að miklum óþægindum er létt af lögreglunni og einstaklingunum sjálfum, ef hver maður hefur slíkt bréf á sér. Og mér finnst varla orð á því gerandi, þótt gripið sé til slíkra ráðstafana á ófriðartímum. Hér er svo sem engan veginn verið að hefta frelsi ungmennanna. Og hver ósköp eru það, þó að menn séu skyldaðir til að láta taka af sér mynd, sem kostar, að ég held. tvær krónur og veitir þeim sjálfum ýmis þægindi, og verði svo að taka við vegabréfi á lögreglustöðinni ókeypis. (SÁÓ: Það kostar engin mynd minna en fimm krónur.) Það getur verið, en mér finnst samt ástæðulaust að vera að gera veður út af þessu, eins og gert hefur verið hér í blöðunum, því að vitanlegt er það, að lögreglan getur ekki á nokkurn hátt misnotað þessi vegabréf.

Svo er annað atriði, sem allir hv. þm. vita og engum er launungarmál, en við höfum ekki kunnað við að skrifa um í blöðin, þó að við hefðum á þann hátt getað hnekkt þessum rógi. Við vitum, að styrjaldaraðilarnir leggja nú mikla áherzlu á baráttuna um hafið. Við heyrum um hækkun á farmgjöldum af þeim ástæðum, árásir á Færeyjar o.s.frv. Við vitum, að hér fara fram hjá fjölmargar skipalestir á leið til Rússlands og komst jafnvel inn á íslenzkar hafnir. Enginn veit, hvort við sleppum við loftárásir. Þar geta hafizt hvenær sem er. Þegar svo er ástatt, er það siður annars staðar, að hver einstaklingur er látinn hafa vegabréf, svo að hægt sé að vita, hver hann er, ef hann tætur líf sitt eða eitthvað annað kemur fyrir hann, er gerir hann ófæran um að segja til sin. Það má líka búast við því, ef til árása kemur, að menn flýi héðan úr bænum, og ef til þess kemur, þá er einnig gott, að menn hafi slík gögn fram að leggja. Þetta viljum við vera lausir við að tala um opinberlega, en það er þó ein meginásæðan til þess, að vegabréfin eru gefin út. Hættan er talin mest um þessar mundir, það sem eftir er þessa mánaðar, í næsta mánuði og fram í aprílmánuð, því að þá er orðið nægilega bjart og stillur hæfilega miklar til þess, að hægt sé að fljúga hingað, en svo er talið, að hættan minnki, þegar lengra líður, því að þá er orðið of bjart til árása, þar sem hér er mikið af varnarflugvélum. Þetta höfum við ekki viljað draga mjög fram, til þess að vekja ekki óþarfa hræðslu meðal almennings, þó að reynt hafi verið á hinn bóginn að gefa mönnum til kynna á hóflegan hátt, hver hætta kynni að vera á ferðum. Þetta er önnur meginástæðan til þessara brbl., sem svo mjög hefur verið fjargviðrazt út af í blöðum, þó að stj. hafi gefið þau út í samráði við þá menn, er gerst ættu að vita um þessa hættu.

En viðvíkjandi hinum brbl. hef ég skýrt frá því, að til eru bréf, sem farið hafa á milli ráðuneytanna og sýna, að þegar þau voru gefin út, var búið að ákveða að taka sóttvarnarhúsið í Reykjavík til áðurnefndra afnota. En þá skrifaði borgarstjórinn stjórnarráðinu og krafðist hússins til handa húsnæðislausu fólki í bænum. Dómsmrh. mótmælti því, að orðið yrði við þeim tilmælum, en þó varð það úr, mest fyrir atbeina fjmrh., að húsið var tekið til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum, enda var þess talin brýn þörf. Þess vegna stöðvaðist þessi starfsemi. Líka varð dráttur á því, að húsið, sem við keyptum á Kleppjárnsreykjum, yrði laust á tilsettum tíma.

Um það, að fyrirlitning á þm. komi fram í útgáfu þessara brbl., er það að segja, að uppkast að frv. var lagt fyrir fulltrúa þriggja þingflokka á 'síðasta þingi, og höfðu þeir ýmislegt við það að athuga, en uppkastinu var breytt til samræmis við óskir þeirra, meðal annars í þá átt að láta skólan. og barnaverndarn. hafa sem mesta um þessi mál að fjalla, en láta ekki dómstólana koma til, fyrr en allt um þrýtur. Hér er það ekki stj., sem er að fyrirskipa þm., heldur þm., sem fyrirskipa stj.

Þó að ég vilji ræða sem minnst um ástandsmálin, get ég sagt það, að svo fjarri fer því, að skýrslur lögreglunnar séu ýktar, að ástaldið er í raun og veru miklu verra en fram kemur í þessum skýrslum. Ég hef áður sagt það í blaði því, sem að mér stendur, að skýrslurnar væru réttar, og ég veit, að ástandið hefur versnað síðan. Ástandið er svo, að ekki er hægt að tala um það, og er bezt, að sem minnst sé um það talað.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. sagði, vil ég geta þess, að ætlunin er að skipa hér siðferðislögreglu svipaða þeirri, sem er í mörgum bæjum erlendis. Yrðu í henni aðallega konur, en því miður er erfitt að finna konur, sem hæfar séu til þessa starfa og um leið fúsar til að taka hann að sér. Ég get upplýst það, að í London er íslenzk kona, sel starfað hefur að þess konar málum í mörg ár í sambandi við Þjóðabandalagið, og er hún orðin mjög þekkt, en eins og kunnugt er, tíðkast það mjög, þar sem prostitution er áberandi (við höfum verið lausir við hana að miklu leyti þar til nú), að hið opinbera grípi þar í taumana. Hefur nú verið leitað til þessarar konu og hún beðin að taka að sér þessi störf hér á landi, en hún hefur ekki séð sér það fært vegna anna. En ætlunin er að fá þrjár konur til þessarar starfsemi innan lögreglunnar.

Viðvíkjandi því, hvort koma eigi upp hæli handa þeim stúlkum, sem verst eru komnar, get ég sagt það, að ég tel þess fulla þörf. Þær konur, sem athugað hafa þetta, segja, að hér í bæ sé fjöldi af hálfheimilislausum eða algerlega heimilislausum stúlkum, sem eiga þess engan kost að rétta við. nema þeim sé hjálpað til þess. Ég veit það frá fólki, seni áhuga hefur haft á að hjálpa slíkum stúlkum, að þær segja sem svo: Hvað eigum við að gera? Við fáum hvergi atvinnu, eigum engin heimili, og allir vita, að við erum á þessari braut. Ég veit dæmi þess, að slíkum stúlkum hefur verið útvegað heimili og atvinna, og þær hafa snúið alveg við. Þessi ráð á að reyna fyrst, en ef þau duga ekki, þá er ætlazt til, að stúlkurnar verði settar á sérstök heimili, þar sem þær geta notið kennslu og uppeldis, sem geri þeim fært að snúa aftur til sæmilegs lífs. Þeir, sem hafa kynnt sér hvíta þrælasölu erlendis, vita, að mikill hundraðshluti af þessum ungmennum vill gjarnan snúa við, en getur það ekki hjálparlaust. Það er ekki til neins að talda, að hér verði bót á ráðin nema með nokkuð ströngu aðhaldi, sem vekur nokkurn ótta hjá því fólki, er leggja vildi út á þessa braut. En sízt vil ég beita mér gegn því, að Reykjavík og aðrir bæir leggi nokkuð af mörkum til að sjá ungu fólki fyrir betra uppeldi en hingað til hefur tíðkazt. Mikið af þessum yfirsjónum stafar af því, að fyrir þessu hefur ekki verið séð sent skyldi. En þvílíkar aðgerðir og strangt aðhald verða að haldast í hendur.