20.05.1942
Neðri deild: 62. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

144. mál, Eyri við Ingólfsfjörð

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég get verið fáorður um þetta frv. Það stendur svo á, að ríkið hefur selt Eyrarhreppi landspildu í þeim tilgangi, að hreppurinn gæti komið því til leiðar, að þarna yrði reist síldarvinnslustöð. En svo reyndist við athugun landið ófullægjandi, svo að þess vegna hefur hreppurinn farið fram á, að þeir, sem ætla að reisa þessa verksmiðju, fái þarna nokkurn viðauka, svo að verksmiðjan geti orðið reist.

Málið er seint á ferðinni, en því liggur mikið á. Það er vilji hreppsins að geta öðlazt þessi fríðindi, sem hann telur sér í, að verksmiðjan komist upp. Ég hef einnig leitazt við að kynna mér, hvort þetta væri nokkurt ágreiningsmál, en ekki orðið var við annað en að allir væru því meðmæltir. Ríkið hefur áður sýnt hug sinn með því að selja hreppnum þessa landspildu. Ég hef einnig talað við þm. kjördæmisins og fleiri þm., og fullyrði ég, að enginn ágreiningur er um málið. Ég vil af þessum ástæðum fara fram á það við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða um, að málið mætti komast úr d. í dag.