22.05.1942
Neðri deild: 65. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

144. mál, Eyri við Ingólfsfjörð

Gísli Guðmundsson:

Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 504 með fyrirvara og vil hér með gera grein fyrir minni afstöðu.

Því hefur verið haldið fram, að sala á þessu landi sé skilyrði þess, að þessi verksmiðja geti orðið byggð. Ég verð hins vegar að álíta hagkvæmt, af ástæðum, sem ekki þarf að fara nánar út í, að síldarverksmiðja verði reist á þessum stað. Og má segja, að það væri slæmt verk að koma í veg fyrir, að það gæti orðið, og ætti það opinbera ekki að koma í veg fyrir það. Þess vegna hef ég fyrir mitt leyti ekki viljað mæla gegn því, að þessi heimild yrði veitt. En ég vildi taka það fram við þessa umr., að ég hef ekki af þeim upplýsingum, sem fyrir hafa legið, sannfærzt um það, að þessi sala sé nauðsynleg til þess, að þessi síldarverksmiðja geti orðið reist á á þessum stað, heldur álit ég, að því mætti koma fyrir með öðrum hætti, með leigu á landinu, þ.e.a.s. með því að tryggja þeim mönnum land, sem vilja reisa verksmiðjuna. Það hefur verið ákaflega lítill tími til þess að athuga þetta mál, og því hefur ekki verið hægt að athuga þetta nákvæmlega. En ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., sem væntanlega fær þessa heimild með frv., að hún verði ekki notuð, — og greiði ég atkv. með frv. með því fororði —, nema það sé nauðsynlegt til þess, að verksmiðjan geti orðið reist.