25.02.1942
Efri deild: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

9. mál, eftirlit með ungmennum o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Það er aðeins stutt athugasemd.

Hæstv. forsrh. minntist á uppeldisráðstafanir í Rússlandi, en fór þar ekki með rétt mál. Þar er ungu fólki veitt tækifæri til framhaldsmenntunar og til þess að njóta hollra skemmtana, en lögregluvaldi er ekki beitt í því skyni að bæta siðferðið.

Það er allt annað mál, þó að kvislingar séu skotnir í Rússlandi, það er ekki gert til þess að bæta siðferðið, heldur aðeins í varnarskyni. Það er sama sjálfsvörnin og á sér stað, þegar rússneskir hermenn skjóta á þá heri, er ráðast á rússneska grund. Þetta hlýtur hæstv. forsrh. að skilja.

Það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er það virðingarleysi, sem ríkisstjórnin sýnir Alþingi. Frv. um vegabréf er þar algert aukaatriði, enn fremur það, er ég gat um í fyrri ræðu minni, að hæstv. forsrh. hefði ekki verið viðstaddur í gær, til þess að skýra fyrir þingmönnum nauðsyn þess að setja slík lög, það nefndi ég aðeins sem tákn framangreinds virðingarleysis.

Það virðist svo sem ríkisstjórninni hafi alveg sézt yfir ákvæði stjórnarskrárinnar um útgáfu brbl., því að segja má, að hún hafi enga heimild haft til útgáfu alls þorra af þeim ógrynnum brbl., sem raun ber vitni. Hæstv. forsrh. sagði, að álits nokkurra ónefndra þm. hefði verið leitað um málið á síðasta þingi, en ekki unnizt tími til þess að afgreiða það, og var því frestað þangað til þm. voru komnir heim. Þá eru gefin út brbl., og er þing kemur samkv. næst, er þm. sagt að samþykkja þau.

Nú vil ég spyrja: Er þetta þingræði? Það er farið til einhverra þm., þeir spurðir ráða, en aldrei komið til þingsins. Næst þegar þing kemur saman er búið að setja lögin og farið að framkvæma þau.

Það hefði þó varla verið ofverk haustþingsins að ræða þetta mál, ekki lá nú svo mikið eftir það, nema þá kannske lögin um fornritaútgáfuna, — en það hefði nú sennilega mátt sleppa þeim alveg að skaðlausu.