22.05.1942
Efri deild: 65. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

136. mál, tollskrá o.fl.

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Þetta mál kemur hér á elleftu stundu, en málið er þannig vaxið, að það þyrfti að vissu leyti nokkurrar skýringar við.

Ég skal reyna í eins fáum dráttum og hægt er að lýsa fyrir hv. þd., hvað hér er farið fram á og hver rök liggja að því, að frv. er borið fram. Fyrir hv. Alþ. hafa legið nú 3 frv. um breyt. á tollskránni. Það frv., sem hér er um að ræða, er flutt af fjhn. Nd. eftir beiðni fjmrh. En jafnframt hefur komið fram frv. frá hv. 2. landsk. og 10. landsk. um breyt. á tollskránni. Fjhn. fékk frv., sem hér er til umr., til meðferðar í gær, en hafði áður fengið hin frv. til athugunar. Ég vil taka það strax fram, að eitt frv., það sem iðnn. Nd. flutti, var um breyt. á tollaákvæðum um vélar til iðnaðar. En þetta frv. er nákvæmlega shlj. ákvæði, sem stendur í því frv., sem nú er til umr., sem Nd. samþ. líka. Það hefur því atvikazt þannig, að Nd. hefur samþ. tvö frv., sem eru um nákvæmlega sama efni og nákvæmlega eins í orðalagi. Mér finnst þetta ákaflega óvanaleg og óviðfelldin vinnubrögð, og getur slíkt ekki bent á annað en að málið hafi ekki fengið næga athugun í þeirri d. Það mun sjaldgæft, að frá sömu d. komi á sama þingi og svo að segja á sama tíma til hinnar d. tvö frv., sem eru nákvæmlega shlj. að efni og orðalagi. Vitanlega er ekki svo að skilja, að þetta geri neitt til viðvíkjandi gildi l., það er aldrei góð vísa of oft kveðin, skulum við segja, en ég vil átelja það, að hér virðist ekki hafa verið vandað til athugunar á þessu máli eins og skyldi.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er borið fram, er sú, að í fyrsta lagi hefur komið í ljós við framkvæmd tollskrárinnar á s.l. ári, að ýmis ákvæði hennar eru þannig vaxin, að þau þurfa lagfæringar við. Sérstaklega er það, að ýmsar vörutegundir, sem ekki eru tilgreindar sérstaklega á tollskránni, en falla undir áður ótaldar vörur, eru tollaðar svo hátt, en aðrar vörur, sem notaðar eru í sama tilgangi, eru tollaðar miklu lægra, og á þetta sérstaklega við um víssar iðnaðarvörur.

Önnur ástæða til þess, að frv. er borið fram, er sú, að rn. hafa borizt kvartanir hingað og þangað að af landinu um nauðsyn á því an breyta ýmsum tollaákvæðum í lögunum.

Og loks er þriðja ástæðan, sem gerir það að verkum, að þetta frv. þarf að ganga fram í einhverri mynd á þessu þingi, að ríkisstj. hefur nú í síðasta mánuði gert þá samninga við ríkisstj. Stóra-Bretlands, að fresta skuli framkvæmd þess tollsamnings, sem gerður var árið 1933 milli Íslands og Stóra-Bretlands og hefur verið í gildi til þessa. En til þess að þetta samkomulag geti orðið í framkvæmd, er þörf á því, til þess að ekki leiði af verulega verðhækkun á ýmsum vörum, að breyta tollaákvæðum þeim, sem nú gilda í tollskránni. Og með þetta fyrir augum hafa verið sett inn í þetta frv. ákvæði um lækkun á tolli á ýmsum nauðsynjavörum, einkanlega vefnaðarvöru.

Þetta eru nú ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er borið fram. Á hinn bóginn sé ég ekki ástæðu til þess, — sérstaklega vegna þess, að svo fáir eru í d. —, að rekja í einstökum dráttum þær breyt., sem farið er fram á, en aðeins geta þess, að þær miða yfirleitt allar til lækkunar. Það er aðeins eitt ákvæði um hækkun, að verðtollur af fernisolíu hækki úr 8% í 10%. Er að sökum þess, að réttara þykir að tolla efnið í fernisolíuna jafnhátt og olíuna sjálfa. En eins og við vitum, er fernisolía búin til í landinu, aðeins efnið flutt inn.

Að lokum er farið fram á, að þær breyt., sem kunna að verða gerðar á tollskránni, komi til framkvæmda um leið og hver vörutegund, sen til landsins kemur eftir þennan tíma, verður tekin til tollskoðunar. Þetta þótti nauðsynlegt, vegna þess að í tollskránni var aðeins miðað við það, þegar tollskráin sjálf gekk í gildi.

Ég skal taka fram, að n. hefur gert brtt. viðvíkjandi járnplötum. Bárujárn hefur verið tollfrjálst hingað til, en svo eru aðrar járnplötur, sem notaðar eru í líkum tilgangi, ýmist til bygginga eða til iðnaðar, en tollast með 8%. Þannig er einnig um möskvanet, sem notað er utan á hús og sementshúðað. Þetta teljum við svo skylt, að rétt sé að fella niður verðtoll af öllum þessum tegundum, enda mun hafa v erið hér um misgáning að ræða.

Það er bráðnauðsynlegt, að þetta frv. verði samþ. á þessu þingi, vegna þessa samnings, sem gerður hefur verið um frestun á framkvæmd viðskiptasamningsins frá 1933. Og ef málið ætlaði nú að stranda á því, að þessar brtt. yrð samþ., vil ég leggja til, að þær yrðu teknar aftur. En ef hæstv. forseti getur upplýst það, að þetta frv. geti gengið gegnum 2. og 3. umr. í kvöld og þannig komizt til Nd. á morgun, þá hefur forseti Nd. lofað að taka málið á dagskrá á morgun, þannig að það geti hlotið fullnaðarafgreiðslu.