22.05.1942
Efri deild: 65. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

136. mál, tollskrá o.fl.

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég vil leyfa mér að undirstrika fyrirspurn hv. frsm. og vænti þess, að hægt sé að verða við þessari ósk, vegna þess, sem hv. frsm. tók fram, að settur var 8% tollur á vöru, sem var verðtollfrjáls áður. Hefur nefnd iðnaðarmanna upplýst þetta fyrir fjhn. þessarar d. Vænti ég, að hv. dm. geti fallizt á að samþ. þessar brtt. n. og hæstv. forseti sjái sér fært að afgr. málið gegnum þessa deild.

Út af frv. sjálfu vil ég taka fram, að það er langt frá því, að ég sé ánægður með þær breyt., sem í því felast, þó að ég hins vegar vilji vera með í að samþ. þær, af því að hér er um verulega lækkun að ræða frá því, sem verða mundi, ef ákvæði 18. gr. tollal. hyrfi úr gildi. En eins og þm. sjálfsagt muna, eru þau þess efnis, að vissar tegundir vefnaðarvöru og annarra enskra vara eru í sértolli. En óánægja mín með þetta frv. er út af því, að þessi tollur á hinum ensku vörum er hækkaður að mun frá því, sem er í 18. gr. En ég hafði búizt við, að ríkisstj. gæti séð sér fært að lækka, en ekki hækka, tolla á þessum mjög nauðsynlegu vefnaðarvörum.

Eins og hv. þm. muna, flutti ég ásamt hv. 2. landsk. frv. til l. um breyt. á tollskránni, þar sem við lögðum til, að nokkrar vörur, sérstaklega byggingarvörur, skófatnaður ag lyfjavörur, væru gerðar tollfrjálsar. Þegar mál þetta kom til fjhn., var það samkomulag milli mín og þáverandi formanns n., núverandi hæstv. atvmrh. (MJ), að frv. yrði sent til tollstjóra til umsagnar. En sú umsögn hefur ekki borizt fjhn. enn þá.

Þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, var til umr. og athugunar á fundi fjhn. í gær, tók n. einnig til athugunar frv. mitt og hv. 2. landsk., ásamt öðru litlu frv., sem komið var frá Nd. og flutt af iðnn. þeirrar d. Um það frv. hefur frsm. n. þegar upplýst, að það er innifalið í þessu 136. máli, þannig að það þyrfti enga afgreiðslu hjá n. og mætti falla niður. En um frv. mitt og hv. 2. landsk. var rætt nokkuð í n., og frsm. taldi sig ekki geta fallizt á okkar till. En meðnm. okkar, hv. 1. þm. Eyf., lýsti yfir, að hann gæti fallizt á nokkuð af því, sem er í frv., en vildi þó ekki taka nánar til, hverjar till. það væru. Tjáði hann sig þess vegna ekki reiðubúinn til þess ásamt mér að gefa út álit um málið. Ég tók það því til bragðs að taka meginatriði þessa frv. upp í brtt., sem liggja hér fyrir á þskj. 501, við frv. á þskj. 408, og geta þá hv. þdm. tekið með atkv. sínu afstöðu til þeirra. Þegar það frv., sem þessar brtt. eru samdar upp úr, voru til 1. umr. í þessari d., þá skýrði ég að nokkru, hverjar breyt. í því væru. En þar sem alllangt er liðið um, þykir mér rétt að rifja þetta upp að nokkru. Fyrsta brtt. er þess efnis, að verðtollur af nýjum og þurrkuðum ávöxtum verði lækkaður úr 30 og 50%, eins og nú er, niður í 8%. Þarf ég ekki að rökræða lengi, hversu sjálfsögð sú breyt. er. Aðrar breyt. eru almennt þess efnis að gera svo að segja allt byggingarefni tollfrjálst. Ekki þarf heldur langt mál sem rök fyrir því, að þetta sé nauðsynlegt. Það hefur verið upplýst bæði hér í d. og annars staðar, að byggingarkostnaður hefur aukizt um 200–300%, og er þá auðvitað, að yrði efnið tollfrjálst, mundi draga allverulega úr þeirri verðhækkun. Ég þarf ekki að tína upp hvern lið, hv. þm. sjá, um hvað þeir fjalla, um leið og þeir athuga þessar brtt. Nú er nýbúið að samþ. hér í d. l. um dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum, og ef þm. er nokkur alvara að framfylgja þeirri stefnu að stöðva verðbólguna, hamla móti dýrtíðinni, hljóta þeir að fallast á þessar till. Vitað er, að ofan á tollana bætist álagning sú, sem milliliðir taka, og stóreykur það kostnaðinn, sem neytendur verða að greiða í auknu vöruverði.

Þriðja aðalatriði brtt. er að afnema toll af skófatnaði og efni í skó. Vitað er, að mikill þorri landsmanna verður nú að nota skó úr erlendu efni, gagnstætt því, sem var í fyrra stríði, þegar mikill hluti manna gekk á íslenzku skinni, óunnu. Verð á skóm hefur hækkað úr hófi fram, un 30–50%,. og má sjá, hvað almenning munar þar um tollinn.

Fjórða atriðið er að afnema toll af nauðsynlegustu lyfjum. Eins og ég hef getið um áður, mundi sú lækkun koma sjúkrasamlögum að gagni og einstaklingum utan kaupstaða, sem samlög eru í. En hagur samlaganna er orðinn erfiður, og þau þurfa að hækka iðgjöldin mjög, nema þessi lækkun fáist.

Fimmta aðalatriðið er að fella niður toll af vörum til vélasmiða og annarra skipaaðgerða, vörum eins og kopar, nikkeli, zinki, tini o.þ.h. Nú fara flestar skipaaðgerðir fram innan lands, og nær engri átt að tolla þær, meðan þær skilnaðgerðir, sem unnt er að fá erlendis, eru tollfrjálsar.

Loks er í II. hluta brtt. á sama þskj. lagt til að hætta að innheimta toll af farmgjöldum, eins og gert er og mikið er búið að ræða hér í d. Ákvæðið nær til allra vara í 1. gr. tollskrárinnar, og mundi því lækkunin verða almenningi til mjög mikilla hagsbóta. Það hefur komið í ljós, síðan tollskráin var samþ. hér á sínum tíma, að hún hefur gefið miklu meiri tolltekjur en nokkurn óraði fyrir. Ég hélt því þá fram, að tollur væri yfirleitt ákveðinn óþarflega hár vegna þess, að miðað væri við minnsta innflutning, sem verið hefur, en á eðlilegum tímum hlyti hann að verða miklu meiri. Það hefur sannazt. Þm., sem ætluðu ekki að hækka tolla, þótt þeir samþ. þá tollskrá, hljóta nú að geta fallizt á þessar brtt. mínar, a.m.k. í verulegum atriðum.