19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og kunnugt er, var stjórnarskránni síðast breytt árið 1933. En með þeirri breyt. var viðurkennd sú meginregla, að þingflokkarnir ættu að hafa þingsæti í sem fyllsta samræmi við atkvæðamagn við kosningar. Þetta var stórt spor, sem þarna var stigið, að viðurkenna þessa meginreglu. Þegar þessi regla var viðurkennd, urðu menn samt að þola vissa frávikningu frá henni. En ég hygg, að til lengdar verði ekki þolaðar miklar frávikningar frá þessari reglu. Tilgangurinn með breyt., sem gerð var 1933 í þessu, hefur ekki náðst að fullu. Það kom strax fram við kosningarnar 1934, að það þurfti miklu fleiri uppbótarþingsæti til þess að skapa fullan jöfnuð á milli flokka heldur en ákveðið er í stjskr. Og við kosningarnar 1937 kom fram enn meiri munur í þessu efni heldur en við kosningarnar næstu á undan. Við kosningarnar 1937 munaði við kjördæmakjör svo miklu, að flestir þingflokkar fengu þrefalda eða fjórfalda atkvæðatölu á þingmann, miðað við flokkinn, sem fæst hafði atkvæði á þm. En þegar búið var að úthluta uppbótarþingsætum, var munurinn minni, en munaði þó helmingi á atkv. á hvern þm. milli þess flokks, sem fæst atkv. hafði á þm., og hinna fjögurra þingflokka. Það er ekki óeðlilegt, að oftar en einu sinni þurfi að breyta l. til þess að ná tilgangi þeim að gera samræmið sem mest milli atkvæða á þm. og þingsæta hvers flokks. Fjölgun fólks í landinu og tilflutningur til sjóþorpa og kaupstaða er svo mikill, að það er ekki undarlegt, þó að það þurfi að breyta reglum um kjördæmaskipun oftar en einu sinni. Með breyt. á stjskr. 1933 er þessi meginregla viðurkennd sem regla, er eigi að gilda. Og ég hygg, að sú regla hafi a.m.k. verið teoretiskt rétt, að þingmannatala flokka ætti að vera í sem bezta samræmi við atkvæðamagn við kosningar.

Þegar svona misrétti kemur fram, er ekki nema um tvær leiðir að ræða til þess að bæta úr því. Önnur er sú að fjölga uppbótarþingsætum. Hin er að auka hlutfallskosningar. Miðað við kosningarnar 1934, mundu uppbótarþingsætin þurfa að vera 26 eða 28, til þess að fullkominn jöfnuður næðist. En miðað við kosningarnar 1937, hefði tala uppbótarþingsæta þurft að vera 38, til þess að fullkominn jöfnuður hefði náðst. En það munu flestir sammála um það að þessi þingmannafjöldi sé óþarflega mikill. En af því leiðir þá það, að það var farið inn á þá leið í þessu frv. að auka hlutfallskosningar í kjördæmunum til þess að skapa þann jöfnuð, sem ég hef talað um. Hér í þessu frv. er stungið upp á því, að það séu viðhafðar hlutfallskosningar í þeim kjördæmum, sem kjósa fleiri en einn þm. Og það mun láta nærri, að ef þessi regla hefði gilt við síðustu kosningar, þá hefði þingmannafjöldi orðið hlutfallslegur við atkvæðamagn hvers flokks. Hitt skal ég játa, að þessi breyt. tryggir það ekki, að þessum tilgangi verði náð. Þess vegna m.a. hafa flm. þessa frv. lagt til, að þm. verði fjölgað í kaupstöðunum. Við leggjum til, að þm. verði fjölgað um 2 í Reykjavík og um 3 alls í öðrum kaupstöðum, með því að tekin verði upp ný kjördæmi, sem sé Akranes, Siglufjörður og Norðfjörður. 2 þessi nýju kjördæmi yrðu sæmilega stór; en þriðja kjördæmið yrði nokkuð lítið. Þó er það ekki lítilsverðara heldur en sum smærri kjördæmin eftir núverandi kjördæmaskipun. Og ef hlutfallskosningar aukast, t.d. eins og hér er gert ráð fyrir, —þá eru hér tvenns konar tryggingar fyrir því, að meiri hl. ráði meir en áður við kosningaúrslit og þar með á þingi, og eins hitt, að minni hl. fái aðstöðu til að gera sig gildandi. En þetta hvort tveggja þarf að tryggja í lýðræðislandi, bæði rétt meiri hl. og eins rétt minni hl. En það verður ekki gert með annarri reglu en þeirri, að sem réttast hlutfall eigi sér stað í úthlutun þingsæta, miðað við atkvæðafjölda.

Till. þessa frv. eru miðaðar við þróun þá, sem átt hefur sér stað í okkar landi. Við höldum okkur við að halda við hinum gömlu kjördæmum. En þó að kosningareglurnar yrðu nokkuð öðruvísi heldur en áður í tvímenningskjördæmunum, þá geymist sami réttur þessara kjördæma til fulltrúa á þingi. En þeir, sem voru á móti breyt. á kjördæmaskipuninni, síðast þegar það mál var til umr. á Alþ., voru það vegna þess, að þeir vildu láta gömlu kjördæmin halda sínum rétti til fulltrúa á þingi. En ég vil benda á, að eftir þessu frv. eru engir þm. teknir af sveitunum, því að þm. fyrir þau kjördæmi eru alveg eins sveitarþm., þó að kosningarnar séu hlutfallskosningar, rétt eins og þeir eru sveitarþm., sem kosnir eru nú án hlutfallskosninga. Okkar till., sem varða skiptingu atkv. milli kaupstaða og sveita, eru till. um viðbótarþm. í Reykjavík og í öðrum kaupstöðum. Og því verður ekki haldið fram, að við förum þarna of langt fyrir hönd kaupstaðanna, því að Reykjavík, sem hefur 1/3 hluta af íbúafjölda landsins, hefur eftir frv. 8 þm., en fær þá ekki nema lá hluta þingmanna. Það verður því ekki sagt, að hér sé of langt gengið. Og eftir okkar till. mundu Reykjavík og hinir kaupstaðirnir samtals fá um 1/4 hluta þm., en í þessum kaupstöðum öllum er um helmingur landsmanna. Þá verður því ekki sagt, að hér sé gengið á rétt sveitanna. Í kjördæmakjörinu sjálfu hafa kaupstaðirnir minni rétt en sveitirnar. En þar sem 11 uppbótarþingsæti eru til útdeilingar, þá eru góðar vonir um, að slíkt muni jafnast að kosningu lokinni.

Ég hygg, að flestir gefist upp við að fara þá leið til jöfnunar að jafna kjördæmin að mannfjölda og hafa allt einmenningskjördæmi. Auk þess er hvergi nærri víst, að með því fengist jöfnuður á milli flokka. Það verður að fara þessa leið: hlutfallskosningar og uppbótarsæti. Í raun og veru var það ákveðið 1915, þegar konungskjörið var lagt niður og landskjörið sett. að þessi leið mundi verða farin, — hlutfallskosningar til þess að auka jafnrétti í kjördæmaskipuninni og jafnrétti kjósendanna, og það var haldið áfram á þessari braut árið 1920, þegar þm. Reykv. var fjölgað í fjóra. En stærsta sporið var stigið 1933, þegar uppbótarsætin 11, voru tekin upp, því að það er grundvöllur okkar þjóðskipulags, að réttur þegnanna eigi að vera jafn. Það er svo langt, síðan kröfur komu fram um þetta, að árið 1900 skrifaði Páll Briem grein um, að það sé ekki nóg til að jafna atkvæðisréttinn, að menn hafi jafnan rétt til að kjósa einn þm., heldur verði menn líka að hafa jafnan rétt gagnvart flokknum, sem þeir fylgja, og gagnvart öðrum flokkum, og þetta, að jafna atkvæðisréttinn, má segja, að sé það gamalt í þjóðskipulaginu, að það eigi rætur sínar að rekja aftur til þess, að fjórðungaskipti og þing hér á landi voru tekin upp. Í þá daga höfðu einstakir þingmenn, sem þá voru kallaðir, en nú eru kallaðir kjósendur, rétt til að segja sig úr þingi goða, sem þeim líkaði ekki við, og í þing með goða, sem þeir vildu fylgja. Það eina, sem hér er farið fram á og var gert 1933, er það, að minni hl. á hverjum stað er leyft að segja sig í þing með flokksmönnum sínum á öðrum stöðum og mynd með því móti fulltrúa. Við Íslendingar, sem erum ekki fjölmennir, ættum að geta sætt okkur við þetta, að viðurkenna jafnan rétt hver annars, hvar sem menn búa. Það ætti að vera krafa okkar litla þjóðfélags, að þessi réttur sé jafn. Síðan verður fylgið að ráða úrslitum, en það mun í hverju „demókratisku“ þjóðfélagi fara mjög eftir málavöxtum og manndómi. En þessa lýðræðisreglu ættu allir að viðurkenna, og ættu ekki að vera deilur um það, að réttur þegnanna á að vera jafn. Og þó að einhverjar deilur rísi upp í sambandi við þetta. mál, þá eru það ekki sjúkdómseinkenni, heldur vaxtarverkir heilbrigðs þjóðfélags, sem vill ekki sætta sig við misrétti þegnanna.