20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Kristjánsson:

Það ber náttúrlega að taka þakksamlega öllum tilraunum, sem gerðar eru til þess að lagfæra stjórnskipunarl. þau er við Íslendingar eigum nú við að búa. Ég hef því beðið þess með nokkurri eftirvæntingu, að horfið yrði að því ráði að semja ný heildarstjórnskipunarl. fyrir íslenzka ríkið í samræmi við þá stöðu, sem Ísland hefur nú hlotið meðal ríkja heimsins. En það er kunnugt, að stjórnskipunarl. okkar eru ekki í neinu. samræmi, a.m.k. er svo um fyrri hluta stjskr., við þá stjórnskipun, sem við höfum í framkvæmd.

Við höfum verið í sambandi við Danmörku, eins og kunnugt er, um mikilsvarðandi mál. Danmörk hefur farið með utanríkismál okkar og að verulegu leyti lögreglumál á Íslandi, þar sem landhelgisgæzlan hefur að verulegu leyti verið í höndum Danmerkur. Bæði löndin hafa haft sama konung. Allt þetta hefur nú hrunið. Og eins og nú er komið, er kominn sá tími, sem við höfum rétt til að segja þessu sambandi upp. En 2 ár eru nú liðin síðan Danmörk hætti að geta uppfyllt þann samning, sem samband landanna byggðist á, og við höfum þegar lýst yfir, að samningurinn sé úr gildi fallinn. En það undarlega, a.m.k. frá mínu sjónarmiði, er, að Alþ. Íslendinga hefur ekki getað fallizt á að viðurkenna þá staðreynd, að við erum losanir úr þessum tengslum við Danmörku. Það hefur ekki viljað viðurkenna þessa staðreynd til fullnustu með því að byggja upp ný stjórnskipunarl. í samræmi við þá stöðu, sem Ísland nú hefur.

Við höfum meira að segja ekki vaknað við, þegar stórveldi þau, sem við getum nú haft samband við, Bretland og Bandaríkin, hafa bæði lýst yfir því, að þau mundu viðurkenna fullveldi Íslands sem sjálfstæðs ríkis, og jafnvel hvatt okkur til þess með því að óska eftir, að sér yrðu sendir sendiherrar. Við höfum ekki vaknað við þetta. Og enn sitjum við með stjskr., sem miðar allt við konung, og byggjum enn þá fullum fetum á sambandinu við Danmörku.

Margir líta svo á, að þetta sé lítilfjörlegur hlutur, það geri okkur ekkert til. En ég er á allt annarri skoðun. Ég álít það blátt áfram hættulegt að sitja í þessu sambandi, að viðurkenna ekki staðreyndina og byggja upp stjórnskipun með stjórnskipunarl. alveg í samræmi við það, sem raunverulega er, að við erum óháð ríki. Ég tel það hættulegt vegna þess, að það má með nokkrum rétti benda á, þegar fram líða stundir, að Íslendingar hafi alls ekki sýnt neinn vilja í því að vera óháðir öðrum ríkjum. Þeir hafa átt kost á því, en sáu ekki ástæðu til að sinna því. Og hvernig verður þetta tómlæti skilið? Verður það ekki skilið þannig, að Íslendingar hafi ekki treyst sér til að ákveða hjá sér slíka stjórnskipun og verið að bíða eftir því, að einhver stór og voldug veldi legðu yfir sig sína verndarvængi. Ég held, að þó að slíkur skilningur yrði lagður í hik Íslendinga, þá yrði það rangur skilningur. Ég hygg, að sú eðlilega orsök, sem tómlætinu veldur, stafi af því, að þjóð, sem búin er að vera háð öðrum ríkjum um margar aldir og oft hefur verið hart leikin á ýmsan hátt, sé farin að sætta sig við hlutskipti sitt. Og þess vegna brestur hana kjark til að taka rétt sinn, þegar hann liggur fyrir fótum hennar. Þetta minnir á það, þegar hestur, sem búinn er að ganga lengi í hafti, hoppar lengi, eftir að búið er að taka af honum haftið. Íslendingar vilja hoppa enn þá, þrátt fyrir að þeir voru víssulega orðnir illa sárir.

Um þetta geri ég nú ráð fyrir, að ekki þýði að deila í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, til breyt. á stjskr. Ég geri ráð fyrir því, að það sé vonlaust mál, þó að einhver vildi bera fram hér á Alþ, gerbreytingu á stjórnskipunarl., að ljúka því á þessu þingi. En áreiðanlegt er, að það verður ekki látið liggja lengi í þagnargíldi. Eðlilegast væri, að ríkisstj. bæri fram frv. um ný stjórnskipunarl. Ríkisstj. á að vera oddviti fyrir þjóðinni. Hún á að vera á verði, ekki sízt í svona málum.

Hæstv. forsrh. talaði talsvert um það í gær, að þeir tímar, sem nú stæðu yfir, væru ekki þess háttar, að álitlegt væri að hefja deilur um mál eins og þetta. Það er líklegt, að í þessu liggi það, að ríkisstj. mundi ekki geta orðið sammála um að bera fram frv. til nýrra stjórnskipunarl. Og það sýnir miklu betur en nokkuð annað, hversu veika forstöðu við höfum fyrir okkar málum, þar sem ríkisstj. er, að hún mundi sennilega ekki geta orðið sammála um það að ryðja okkur braut og gera hreint fyrir okkar dyrum í því máli, sem er mesta mál þjóðarinnar, en þ.e. að öðlast stjórnskipunarl., sem eru í samræmi við vöxt þessarar þjóðar, eðli hennar og lunderni. Friður er að sjálfsögðu góður. En friður um órétt og vanrækslu er ekki góður: Friður er þess vegna stundum hættulegur, og ég fullyrði, að í þessu máli sé friðurinn háskalegur, og það sé sýnt og sannað, að forstaða íslenzka ríkisins sé sérlega veik og óhagsýn, fyrst hún getur ekki tekið skörulega forustu í þessu máli.

Ef Íslendingar bera nú gæfu til þess að öðlast ný stjórnskipunarl., þá ber þeim fyrst og fremst að gæta þess að tryggja með þeim frelsi og jafnrétti fólksins. En á það skortir mjög samkv. þeim stjórnskipunarl., sem við nú búum við. Og það er alveg víst, að Íslendingar munu þola allra manna verst ófrelsi og misrétti hver af öðrum. Nú sýnist mér, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé spor í þá átt að auka jafnréttið milli þegna þjóðfélagsins. Og þó að frv. gangi miklu skemmra en ég hefði óskað, þá mun ég hiklaust fylgja því sem spori í rétta átt Það, sem ég á við, þegar ég tala um spor í rétta átt, er, að með þessu frv. er gert ráð fyrir að bæta nokkuð úr því mikla misrétti, sem er um kosningarrétt Íslendinga til Alþ. Það þarf ekki að rifja það upp, af því að öllum mönnum er það vel kunnugt, að kjördæmaskipun landsins veldur því, að á sumum stöðum á landinu hafa kjósendur ekki meira. en 1/6 hluta kosningarréttar miðað við aðra. Þetta misrétti er alveg óviðunandi, og það er ákaflega mikil skammsýni, ef menn ætla að standa lengur gegn umbótum í þessu efni. Það er miklu betra að segja til í tíma við þann. sem sækir rétt sinn, heldur en að bíða þess, að hann verði tekinn með mikilli hörku.

Það er mikið talað um það í sambandi við þetta mál, að okkur sé það mikil nauðsyn að varðveita hina gömlu kjördæmaskipun í landinu. Ég veit nú ekki, hvaðan þessi mikla tryggð til þessarar kjördæmaskipunar er eiginlega komin. Hún hefur komizt á fyrir tilstilli erlends valds. Hún er gamall arfur frá okkar undirokunartímabili. Ég veit ekki, hvort það er það sem veldur þessari ást á kjördæmaskipuninni. En hitt er víst, að ef menn skilja, á hverju lýðræðið á að byggja, þá hljóta menn að viðurkenna, að það byggist á almennum kosningarétti borgaranna. Það byggist ekki á því, að holt og hæðir úti um allt hafi þennan rétt, heldur fólkið, sem landið byggir. En ef menn eru haldnir þeim firrum, að það séu holt og hæðir, en ekki mannfólkið, þá þarf sá hugsunarháttur vissulega að breytast. Það g!eta orðið svo miklir fólksflutningar í landinu, að heil kjördæmi leggist gersamlega í eyði, en aðrir staðir byggist aftur upp. Það getur vel skeð hér á landi, að staður, sem byggður hefur verið upp fyrir 200–300 árum, leggist í eyði, en annar jafnstór eða stærri rísi upp. Væri þá mikil sanngirni í því, að eyðistaðurinn héldi réttinum til þess að vera kjördæmi og senda fulltrúa á löggjafarþing, en nýi staðurinn yrði svo að segja réttlaus í þessum sökum? Ég hygg, að enginn mundi svara þessu játandi. Ég hef einhvers staðar lesið það eða séð, að í Englandi hafi það átt sér stað alllengi, að kjördæmi var úti á sjó, og menn hafi orðið að fara á bátum til að kjósa. Þetta er ein bezt menntaða þjóð heimsins, sem hefur látið sér þetta sæma. En það er nú einu sinni svo, að allir hafa sína galla, og jafnvel menntuðustu þjóðir geta haldið við ósiðum af fastheldni eða tómlæti.

Við Íslendingar, sem erum að rísa upp úr undirokun undir aðra þjóð, bláfátækt og lítilli menningu, eigum að reyna að átta okkur á þeim tímum, sem við lifum á, og sníða stakk okkar umfram allt eftir vexti nútímans.

Ég hef nokkuð hugsað um þetta mál og látið skoðun mína í ljós í blaðagreinum nokkrum sinnum og hef auðvitað komizt að þeirri niðurstöðu, að það ætti að vera fólkið, sem hefði kosningarréttinn og að kosningarrétturinn ætti að vera sem allra jafnastur: Ég sé ekki, að þetta geti orðið með öðru fremur en því, að landinu sé skipt á ný niður í kjördæmi, og að landsfólkið fái sem jafnastan kosningarétt. Ég hef lagt til, að landinu verði skipt í 6 kjördæmi, og það er trúa mín, að að því verði horfið að hafa hlutfallskosningu í öllum kjördæmum. Eftir þeirri till. mundi þm. sennilega frekar fækka. Ef kosnir væru 40 þm. hlutbundinni kosningu, þá þyrfti ekki nema fá sæti til uppbótar fyrir landsmálaflokkana. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir hins vegar ráð fyrir, að kjördæmunum verði fjölgað, og er það, út af fyrir sig, frá mínu sjónarmiði, galli á því. Sá kostur er þó, að mínu áliti, meira virði, að með þessu er kosningarrétturinn meira jafnaður á milli fólksins sjálfs og landsmálaflokkanna, og ég er ekki viss um, að með því mundi þm. fjölga, því að við þessa breyt. mundi að sjálfsögðu minnka þörfin fyrir uppbótarþm.

Ég vil í þessu sambandi benda á eina, hættu, sem ég tel vofa yfir þessu þjóðfélagi, ef ekki verður horfið að því ráði að breyta stjórnskipunarl. landsins verulega, sérstaklega kjördæmaskipuninni. En sú hætta liggur í því, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að með öllum þessum smákjördæmum, sem nú er kosið í, hefur skapazt óeðlilegt. kapphlaup á milli flokkanna, um þessi kjördæmi. Og svo mikið er þetta kapphlaup, að kjördæmunum er beinlínis haldið með því að krafla saman sem mestum fjárhæðum frá ríkinu eða úr ríkissjóði þeim til handa. Ég er sannfærður um, að ,þetta kapphlaup er komið út á þá braut, að það fer að nálgast það að vera óheiðarlegt. Það stappar vissulega nærri því að misnota almannafé, þegar ríkissjóður er látinn borga svo og svo mikil fríðindi til kjördæmis, til þess að hægt sé að segja, að þm. hafi staðið sig vel. En í annan stað hlýtur það að vera fjárhag landsins afvaxið, ef atkv. í kjördæmum eiga að verulegu leyti að fást með fjárframlögum úr ríkissjóði, þegar við höfum þennan mikla fjölda þingmanna.

Í annan stað hlýtur það að verða ofvaxið ríkissjóði að gjalda þess, ef kjörfylgi þm. á að fást með dugnaði þm. í að ná fé úr ríkissjóði kjördæmunum til handa. Þegar við höfum á þann hátt mikinn fjölda kjördæma og „duglegra“ þm., sem kallað er, þá getur þetta farið að velta. á hundruðum þúsunda eða jafnvel millj. kr. til hvers kjördæmis. Við verðum því að hvika frá þessu ráði. Það er lífsnauðsyn. Þó að við veltum okkur nú í fé, þá koma þeir tímar, að ríkissjóður stenzt ekki slíkt uppboð, sem á þinginu mundi þá líklega fara fram um kjördæmin.

Það fóru engar umr. hér fram í gær um þetta mál nema framsöguræða flm. fyrir frv. tig svo það, sem hæstv. forsrh. lagði til málsins, sem var frekar á móti frv. Að sönnu talaði hæstv. forsrh. hógværlega, en það varð ekki misskilið, að hann lagði á móti því, að við stjskr. yrði rótað. Hann sagði, að í raun og veru ætti að vera lítill munur á flokkum, þegar svona háskatímar eru yfirvofandi. Það er rétt, að slíkur háski, sem yfir okkur vofir, hefði átt að framkalla þá ábyrgðartilfinningu hjá hv. þm. og ríkisstj., að flokkaerjur hefðu verið lagðar til hliðar. En ég vil spyrja háttv. þingmenn og hæstv. ráðherra um það, hvort hægt sé að sjá, að flokkssjónarmið hafi lotið í lægra haldi fyrir ábyrgðartilfinningu einu sinni í ríkisstj. sjálfri. A.m.k. fannst mér ekki skrif hæstv. forsrh. í sambandi við bæjarstjórnarkosningarnar sýna, að hann væri ráðinn í að láta flokkssjónarmiðin lúta í lægra haldi fyrir hinni sameiginlegu nauðsyn i málefnum landsins. Og ég held, að það hafi verið vegna flokkssjónarmiða, þegar ráðh. Alþfl. veik úr ríkisstj. Ég held, að það hafi verið svo og sé, að í ríkisstj. hafi aðeins verið samið vopnahlé, og svo held ég, að það sé á hæstv. Alþ. Og því hefur verið lýst yfir af Framsfl., að hann sé eindregið með því að ganga til kosninga í vor eða sumar. Skal ég ekki lasta það. En ætlar sá flokkur að ganga til kosninganna sem friðarflokkur og leggja flokkssjónarmiðin á hilluna og láta eingöngu ráða hin sjónarmiðin, nauðsyn ríkisins á samheldni og samstarfi allra ábyrgra þjóðfélagsþegna? Ég leyfi mér að efast um, að þetta verði raunin á, sem ég siðar nefndi. Og ef við getum gengið til kosninga með þeim venjulegu kosningadeildum, sem verið hafa hjá okkur, og með þeim ráðum, sem höfð hafa verið til kjörfylgis við kosningar, þá skil ég ekki í því, að það spillti nokkru, þó að barizt væri um stjórnskipunarmálið. Ef við leggjum út í deilur á annað borð, þá hygg ég það skynsamlegra og skemmtilegra, að barizt væri um eitthvað, sem einhvers væri vert, en ekki hagsmuna mál flokka. eins og hefur verið að verulegu leyti gert hér í kosningaorustum.

Ég skal endurtaka það, að ég mun fúslega greiða atkv. með þessu frv., sem hér liggur fyrir. En ég vil taka það líka skýrt og ákveðið fram, að með því vil ég alls ekki slá af kröfum um það, að stjskr. landsins verði öll endurskoðuð og byggð upp alveg ný stjórnarl. fyrir Ísland. Og ég vil í því sambandi enn koma að því, að það er alveg óviðeigandi og óforsvaranlegt, að við séum alltaf að undirstrika það og bera það í eyru þjóðarinnar, að við séum ekki frjálst og fullvalda land. Það er ákaflega leiðinlegt að sjá það í blöðum og heyra það á mannfundum, að alltaf er verið að tala um, að við megum ekki róta okkur og gera ráðstafanir um okkar eigin mál, vegna þess að við séu hernumin þjóð. Það er verið að reyna að koma þeim ósannindum inn hjá fólkinu, að við séum í raun og veru stríðsfangar. Það er vitað, að við vorum hernumdir af Bretum. Það er líka vitað, að því fylgdi sú yfirlýsing, að þeir skyldu ekki hlutast til um okkar innanlandsmál (ég skal ekki segja, hvernig það hefur verið efnt). Það er vitað, að við höfum fengið með frjálsum samningum vernd annars ríkis, sem þá var ekki stríðsaðili. Jafnframt gekk Bretaveldi inn á það að aflétta sínu hernámi. Það er því röng túlkun, að við séum ekki frjáls þjóð, heldur hernumin. Þetta er skapsýking frá okkar gamla undirokunartíma, þessi tilfinning að treysta sér ekki til að tala um, að við séum frjálsir, heldur telja sjálfum sér og öðrum trú um, að við séum — og líklega eigum að vera — undir aðra gefnir.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta meira. Ég vil taka undir þá ósk hæstv. forsrh., að það verði skipuð n. í þetta mál, og hefði þá verið æskilegt, að sú n. væri skipuð öllum þingflokkum, en ef það má ekki verða, — ef friðarhugurinn er ekki meiri innan þings, heldur flokkssjónarmiðin svo rík, að menn vilji neyta aflsmunar við flokka, sem ekki geta fengið mann í n. við venjulegar hlutfallskosningar, þá vil ég leggja til, að n. verði þó skipuð 7 mönum. En eðlilegast fyndist mér, að allir flokkar ættu fulltrúa i stjskrn., því að þetta mál verðskuldar gaumgæfilegustu athugun, og að önnur sjónarmið en fólksins sjálfs verði látin víkja.