20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Gísli Sveinsson:

Það er eðlilegt, að svo mikilsvarðandi mál sem breyt. á stjskr. landsins er verði langvinnt í umr. á þingi. Það mundi vera það á skaplegri tímum, og þá ekki síður nú. Ég er einn þeirra þm., sem telja, að ekki sé fráleitt að ímynda sér, að einstaka þm. og flokkur hugsi til nokkurra breyt. á stjskr. eins og nú er komið. Það er ekki svo að skilja, að utanaðkomandi ástand sé svo, að auðveldara sé að fást við stór mál, heldur er það svo, að við höfum orðið varir við það, þm. og allur landslýður, að ríkisstj. hefur boðað upplausn á því ástandi friðarins, sem ráðh. hafa lagt áherzlu á, að ætti að haldast, þrátt fyrir einhverjar væringar í ríkisstjórninni.

Ég býst ekki við, að neinum þm. né flokki hefði komið til hugar að koma fram með frv. sem þetta, — sem að vísu fer ekki sérlega langt, — ef staðið hefði við það, sem samþ. var á síðasta reglulegu þ. og almenningur vildi sætta sig við, eins og á stóð, sem sé frestun alþingiskosninga, en nú kemur í ljós, að jafnvel þm. hafa ekki skilið það öðruvísi en svo, að nú yrði kosið almennum kosningum á komanda vori. Þegar svo er, hneykslast ég ekki á því, þó að fram komi breyt., sem eru þannig vaxnar, að upplagðast er, að komi fram fyrir kosningar.

Ég er ekki hrifinn af frestun alþingiskosninga og tel fyrir mitt leyti ekkert óeðlilegt, þó að fram færu kosningar nú, en það verður að vera eitthvað heilt í því. Ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvort hann ætlast til, ef kosningar fara fram, að engin mál verði upp tekin, sem verði kosið um, nema ástandið. Það er komið svo, að menn verða að fara að átta sig á því, hvort á að kjósa eða ekki, og þeir, sem ætla að brjótast til kosninga, verða að fara að koma með sínar ályktanir, sem rifta ályktuninni frá síðasta þingi. Sú ályktun var gerð eingöngu í framhaldi af rökfærslu, sem greind er í upphafi málsins og hljóðar svo: „Vegna þess að Ísland hefur verið hernumið af öðrum aðila styrjaldarinnar og lýst á hernaðarsvæði af hinum og vegna þess ástands, sem af þeim sökum hefur þegar skapazt í landinu, og fullkominnar óvissu um það, sem í vændum kann að vera, telur Alþingi, að almennar kosningar geti ekki að svo komnu farið fram með eðlilegum hætti eða í samræmi við tilgang stjórnarskrárinnar og anda lýðræðisins.

Alþingi ákveður því, að almennum kosningum til Alþingis skuli frestað fyrst um sinn, þar til ástæður breytast þannig, að fært þyki að láta kosningar fara fram, þó ekki lengur en 4 ár, og framlengist núverandi kjörtímabil í samræmi við það.“

Það er ljóst, að sú ályktun, sem hrindir þessu, verður að byggjast á því, að það ástand, sem er undirstaðan þar, sé ekki lengur fyrir hendi. Nú sé komið annað ástand, sem auðveldi það að hafa kosningar. Ég bíð þess, að sú ályktun komi fram og að ég megi sjá, hver rök verði fyrir henni færð á Alþingi Íslendinga.

Ég get þessa til þess að andæfa því, að það sé óeðlilegt, að fram komi breyt. á stjórnskipunarl. landsins, sem nauðsynlegt sé, að komi til álita kjósenda.

Hitt er annað mál, hvernig eigi að fara með slík atriði, sem þm. vilja koma á framfæri. T.d. er sá tími, sem við nú lifum á, varhugaverður til stórbreyt. í þessu efni. Það er og rétt, sem fram hefur komið, að þegar við gengjum inn á þá braut að breyta stjórnarskránni, væri eðlilegast, að stjórnskipunarl. væru öll tekin upp. Hitt er líka rétt, að staða landsins er þegar ákvörðuð, og liggur ekki á eitt árið frekar en annað að hrófla við því. Íslendingar hafa tekið öll ráð og allt vald í eigin hendur. Aðeins er eftir að ganga að formi til frá sjálfum ákvæðum stjórnskipunarl. í samræmi við það. Ég hygg, að þm. geti rólegir beðið þess, að við fullnægjum því, sem eftir er. En ef Alþ. vildi beina því til ríkisstj., að hún bæri fram frv. til stjórnskipunarl., yrði ekkert við því sagt. Ég tel, að sjálfstæðismálið sé ekki lengur mál neins einstak þm. eða flokks og að enginn stjórnmálaflokkur geti framar öðrum helgað sér fullveldismálið. Allur þingheimur er þar á einu máli.

Þá kemur að því, sem hér liggur fyrir, hvort beri að gera nokkrar breyt. á stjórnskipunarl. landsins, þó að ekki sé knýjandi ástæða til að endurskoða þau að fullu, en frv. það, sem fyrir liggur, áhrærir aðeins eina gr. stjórnarskrárinnar, sem sé þá, sem deilt hefur verið um árum saman. 6. gr. stjórnarskrárinnar var auðvitað ætlað að vera í anda lýðræðisins, en var takmörkuð, eins og eðlilegt var á þeim tíma, við að láta ekki höfðatöluregluna vera einráða og taka tillit til hinna einstöku kjördæma. Það mun deila um það, hvort eitthvert annað skipulag fullnægir út í æsar anda lýðræðisins, þannig að öllum kjósendum, hvar sem er á landinu, fyndist þeir hafa sama rétt. Alltaf hlýtur eitthvað að hindra, að algert jafnrétti náist eftir hagfræðilegum reglum. Það má því um það deila, hvort takmörkunin sé nú orðin úrelt og óhafandi. Ég vil taka það fram, að ég og margir fleiri teljum, að þessi takmörkun eigi enn við vegna staðhátta og meðferðar mála í þessu landi. Kjördæmin íslenzku eru ekki til orðin af neinni tilviljun, og er misskilningur að ætla, að þeim hafi verið kúgað upp á Íslendinga af erlendu valdi. Þetta fyrirkomulag er rótfast frá byrjun stjórnskipunar þessa lands og hefur haldizt ótrúlega vel. Það sýnir, að það hentar oss bezt.

Þá kemur mergurinn málsins og það, sem flestir eru sammála um, að breyta engu í þeirri höfuðskipan, sem gerð var 1933. Kjördæmin halda sér, en fyrirkomulagið um sjálft kjörið er með öðrum hætti en áður til þess að fullkomna lýðræðishugsjónina. Hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum eiga fullan rétt á sér. Þess vegna tel ég, að örðugt verði, jafnvel fyrir þm., sem eru andstæðir því að rifta kjördæmaskipuninni, að greiða atkv. undir öllum kringumstæðum á móti slíkum breyt. innan einstakra kjördæma. Hitt er annað mál, hvort menn vilja samtímis taka upp aðrar breyt., svo sem fjölgun þm. í kaupstöðum og í Rvík. Það er álitamál, sem menn verða að taka afstöðu til eftir beztu getu.

Ég er samþ. því, að sérstök stjskrn. verði skipuð í málið, og tel æskilegt, að slíkar n. verði skipaðar í báðum d., og í Ed., áður en málið kemur til d., svo að úr verð ein samvinnunefnd.