23.03.1942
Neðri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Jón Pálmason:

Ég geri ráð fyrir því, að fáum hafi dottið í hug, þegar stjskrbreyt. var afgr. 1933, að sú lausn, sem þá fékkst, yrði láttu standa lengi. Af þeirri reynslu, sem síðan hefur fengizt, verð ég að segja það, að mig furðar á þeirri þolinmæði, sem sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn hafa sýnt í þessu máli, og að þeir skuli ekki fyrr hafa borið fram frv., er gengi í þá átt að auka jafnrétti kjósendanna. Ég vil svo lýsa ánægju minni á þeirri stefnubreyt., sem orðað hefur hjá Alþfl., frá því sem áður var, og tel ég það góðs vita. Aðalatriði frv. er fyrir mér ákvæðin. um hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, og eins og tekið er fram í grg. og í framsögu, nægir sú breyting ein næstum því til að jafna atkvæðatölu flokkanna. — Ég held, að þessi umsögn grg. hafi við rök að styðjast. — Hins vegar er það hrein fjarstæða að halda því fram, eins og hér hefur verið gert, að hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum rýri vald sveitanna, og það er líka hreinasti misskilningur, að baráttan í þessu máli standi um vald bæja annars vegar og sveita hins vegar. Og óneitanlega skýtur skökku við allt tal þeirra framsóknarmanna hér um ranglæti hlutfallskosninganna, að þeir sjálfir hafa komið á hlutfallskosningu á fulltrúum til búnaðarþings. — Eins og úrslit síðustu kosninga sýna, þá getur það farið svo, að þeir fái minnstan réttinn, sem eru í minni hluta úti í sveitakjördæmunum. En þessi lög eru sett til þess að koma í veg fyrir það misrétti, af því að eins og útkoman varð í síðustu kosningum, eins og hún getur. orðið aftur, hvort sem þær fara á sama veg eða annan, þá er augljós, að þeir menn í landinu, sem eru í minni hluta í dreifbýlinu úti um sveitakjördæmin, hafa minnstan rétt. Og það kom í ljós eftir síðustu kosningar, að þeir, sem fylgdu Sjálfstfl. í dreifbýlinu, höfðu miklu minni rétt en hinir, sem í kaupstöðum búa. Þess vegna er víst, að þessi breyt., að koma á hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum, yrði til þess að tryggja jafnari rétt flokksins í dreifbýlinu heldur en nú er. En hún yrði ekki til þess að rýra á nokkurn hátt þau réttindi, sem sveitirnar hafa í hlutfalli við kaupstaðina. Ég vil taka það fram, að mér þykir undarlegt, að framsóknarmenn, sem eru búnir að berjast fyrir því að fá komið á hlutfallskosningu til búnaðarþings, skuli telja það rangindi, að farið er fram á, að sömu reglu sé fylgt í nokkrum kjördæmum, þegar um alþingiskosningar er að ræða. Þar eru þessir menn búnir að koma sjálfum sér og sínum málstað í þá snöru, sem ég hygg, að þeir eigi erfitt með að komast úr.

Ég skal svo minnast á önnur atriði þessa frv., og verð ég þá að segja, að þar tel ég meiri vafa á ferðum. Ég álít, að eina og nú standa sakir, sé engin þörf á að fjölga þm. Ég tel, að í raun o veru sé ekki verjandi að. taka upp sum þeirra nýju kjördæma, sem lagt er til í þessu frv., og á ég þar við Akranes og Norðfjörð.

Um síðustu kosningar voru í Borgarfjarðasýslu, að meðtöldu Akranesi, 1751 maður á kjörskrá, en í Gullbringu- og Kjósarsýslu voru 2800 menn á kjörskrá. Af þessu er augljóst, að ef Borgarfjarðarsýsla, sem er miklu minna kjördæmi, ætti að fá 2 þm., þá er það aðeins til að auka misræmið, sem ekki kemur til mála að fallast á. Hvað Suður-Múlasýslu viðvíkur, en hún hefur um 200 fleiri á kjörskrá heldur en Gullbringu- og Kjósarsýsla, vil ég segja það, að ef bæta. ætti þar við 3. þm., þá er það til að auka ranglætið, en ekki minnka. Um Siglufjörð vil ég aftur á móti segja, að þar stendur öðruvísi á, af því að það kjördæmi er með allra fjölmennustu kjördæmum á landinu. En eins og nú standa sakir, þarf það ekki að kvarta, af því að nú eru 5 menn á þingi af þeim, sem í framboði voru í Eyjafjarðarsýslu síðast. Viðvíkjandi Rvík er það að segja, að ég álít, að það mundi ekki raska útkomunni að neinu leyti, þótt þm. í Reykjavík yrði fjölgað upp í 9 og ákveðið yrði, að uppbótarsætum fækkaði um 3 og ekkert uppbótarsæti í Reykjavík kæmi til greina. Varðandi það atriði, sem er 3. meginatriðið, að breyta aðferðinni við úthlutun uppbótarsæta þannig, að þar ráði listi í stað þess, að frambjóðendur komi inn eftir fyrirfram ákveðnu kerfi, vil ég segja það, að ég tel, að sú breyt. sé ekki til bóta. Og það er vegna þess, að það er mjög undir hælinn lagt, hvernig þeirri röðun á listana er hagað, og eins hins, að það er á valdi flokksstjórnanna í hverjum flokki, hverjir koma þar til greina. En samkv. því fyrirkomulagi, sem nú er, fer þetta að nokkru leyti eftir fylgi og eftir því, hvernig kosning fór, hvaða menn koma inn sem uppbótarmenn fyrir hvern flokk. Að þessu athuguðu finnst mér, að ekki ber í svo mikið á milli þeirrar skoðunar, sem ég er á í þessu máti, að þess vegna ættu að vera sérstök vandkvæði á, að um það gæti orðið samkomulag, ef sterk viðleitni í þá átt, að fá þetta frv. afgreitt á þessu þingi, vær í á annað borð fyrir hendi.

Að öðru leyti vil ég segja það, að mér finnst að þau rök, sem fram hafa komið gegn því, að breyta skuli stjskr., að því er þetta snertir nú, séu frekar veigalítil. En þau ganga aðallega út á það, að það sé slíkt ástand núna, að ekki sé ástæða. til að fara að rífast um slíkt mál sem þetta. Í því sambandi hlýt ég að víkja að nokkrum atriðum, sem fram hafa komið frá hæstv. fosrh., af því að það er hann, sem hefur verið aðalforsvarsmaður þessa máls. Hann hrærði saman við þetta í ræðu sinni umræðum um kosningafrestunina s.l. vor, kosningarnar næstu og bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík, og auk þess komst hann inn á að tala um það, hvort byggja ætti upp þjóðfélag okkar á einstaklingsframtaki eða ríkisrekstri. Ég skal nú ekki fara mikið út í að ræða þessi mál, en ég hef sérstaka ástæðu til þess að fara fáeinum orðum um sum þessara atriða, og þó fyrst og fremst kosningafrestunina s.l. vor. Ég tel að það hafi verið einhver óheppilegasta og ógæfulegasta ráðstöfun, sem framkvæmd hefur verið á síðari tímum, og reynslan hefur orðið nokkur og mun verða meiri. Og hver er það sem ber ábyrgðina á þessari kosningafrestun? Það má segja, að það séu þeir 38 þm. sem að lokum greiddu atkv. með þeirri till. Ég var nú þeirrar skoðunar, að stj. hefði ekki heimild til að leggja slíkt mál fyrir Alþ. En ábyrgðina ber fyrst og fremst hæstv. forsrh., af því að undir hann heyra okkar stjórnskipunarl. og kosningal. Það er því frá mínu sjónarmiði embættisskylda hans að koma í veg fyrir, að slík ráðstöfun sé gerð, en í stað þess beitti hann sér fyrir henni. Ég álít, að til hennar sé að rekja flest þau slys, sem gerzt hafa á stjórnskipun okkar. Og það síðasta, sem gerzt hefur, er, að hæstv. ráðh. auglýsir það í útvarpi, að miðstj. flokks hans hafi samþ. það einróma, að nú skuli kosningar fara fram í vor. Ég geri ráð fyrir, að ekki þurfi um það að efast, þar sem um er að ræða annan stærsta flokkinn á Alþ., sem hefur samþ. það. En eins og hv. þm. V.-Sk. veik að, þá er það nokkurn veginn augljóst mál, að til þess að úr því geti orðið, þarf að afnema þá samþykkt, sem Alþ. gerði í vor. Og mér er það ljóst, að eina brúin, sem var í þessu máli, hékk á þeim þræði, að það væri svo mikil árásarhætta, að ekki þætti þess vegna fært að láta þær fara fram. En nú hefur þessi hætta ekki minnkað, heldur þvert á móti aukizt. Samþykkt Framsfl. er því í svipuðum stíl og Egilsstaðasamþykktin forna, þegar það var samþ. á fundi framsóknarmanna, að skuldir ríkisins hefðu ekki aukizt, þegar þær höfðu hækkað um 10 til 20 millj. króna.

Út af því, að hæstv. ráðh. var hér að draga afstöðu sína til bæjarstjórnarkosninganna í Rvík inn í þessar umræður, þykir mér rétt að víkja ofurlítið að framkomu hans að vissu leyti.

Þegar hæstv. ráðh. tók við forustu í þeirri ríkisstj., sem nú situr, var honum til þess treyst að gera sem minnst af því að auka á flokkadrætti í landinu. Það var því meiri skylda, sem lögð var á herðar hans, en nokkurs annars. Þá skyldu rækti fyrirrennari hans, hv. þm. V.-Ísf., þannig, að hann sneiddi mjög hjá flokkadeilum. Og ef til vill er það fyrir það, að hann hefur lent í því að verða utanflokka og síðan gengið í annan flokk, sem að sjálfsögðu má deila um, hvort orðið hefur honum til sóma eða ekki. En hæstv. forsrh. hefur rækt þessa skyldu þannig, að hann hefur ferðazt út um landið beinlínis til þess að vinna gegn samstarfsmönnum sínum og fyrrverandi stuðningsmönnum. Og hann hefur hvað eftir annað haldið áróðursræður, þar sem enginn var til andsvara. Hann hefur blátt áfram beitt sér á oddinn til þess að viðhalda flokkadráttum. Til dæmis um það er, að hann birtir ávarp í útvarpi til þjóðarinnar, sem er eitt af því furðulegasta, sem ég hef séð. Þetta ávarp var ekki nein deila á þá menn í þinginu, sem taldir eru stjórnarandstæðingar. Nei, það var allt ádeila á þá, sem kallaðir voru samstarfsmenn. Hvað hefur svo hæstv. ráðh upp úr því að setja sjálfan sig á oddinn í þessum kosningum? Hann hafði það upp úr því, að þeir, sem stóðu á lista hans flokks, fengu rúmlega 5% traust hjá kjósendum í bænum, og tæplega 95% vantraust. Ég held, að það hefði verið betra af honum að láta það vera að setja sjálfan sig á oddinn í þessari kosningabaráttu. En með þessu vildi ég gefa honum kost á að ausa meiri hrósyrðum yfir sjálfan sig en hann gerði í ræðu sinni hér um daginn.

Að síðustu vil ég taka fram, þegar verið er að tala um það sem óhæfu að breyta kosningafyrirkomulaginu í landinu, eins og nú standa sakir, að það er þá ekki síður furðulegt, að nú skuli framsóknarmenn hafa á orði, að kosningar verði látnar fara fram í vor, því ert ofan í þeirra fyrir samþykktir. Ég sé ekkert undarlegt — við það, þó að umræður fari fram um þá breyt. á stjskr. eins og önnur mál. Þess vegna er það, að ef kosningar eiga að fara fram í vor, þá hlýtur þetta mál að fylgja með í þeim bardaga. Og ég held, að það sé misskilningur, að það verði til að rýra traust okkar, hvort ákveðið verður í stjskr. okkar, að kosning í 6 kjördæmum skuli vera hlutbundin eða óhlutbundin. En ég tel æskilegast, að engin önnur breyting verði gerð.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál. Ég held, að það, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, snerti ekki mikið mína skoðun. Hann beindi sínum orðum aðallega að Alþfl. í sambandi við þetta mál, og ég ætla ekki að skipta mér af deilum á milli þeirra gömlu félaga.