23.03.1942
Neðri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er tiltölulega fátt, sem ég þarf að svara, en mér þykir þó rétt að minnast örfáum orðum á nokkur atriði, sem fram hafa komið.

Hv. 5. þm. Reykv. hefur fundið að því, að ég skuli hafa lýst yfir, að kosningar færu fram í sumar. Ég hef sem forsrh. lýst yfir, að svo kunni að vera, en það hefur litið verið um það rætt í stj. og engin samþ. verið gerð um það, en ég hef lýst þessu yfir, þar sem ég talaði um málið af hálfu míns flokks, því að eins og málum er nú komið, verður naumast hjá því komizt, að kosningar fari fram. Get ég komið nánar inn á það atriði í sambandi við ræðu hv. þm. a.-Húnv. Hann talaði um, að þessir 38 þm. bæru ábyrgð á kosningafrestuninni og ég bæri mesta ábyrgð á henni vegna þess, hvaða stöðu ég gegndi, þar sem ég ætti að sjá um kosningarnar. Ég mun fúslega taka á mig þá ábyrgð, sem því var samfara að fresta kosningunum. Ég þori hiklaust að fullyrða, að þegar um það verður dæmt, bæði nú og sérstaklega síðar, þá verður ábyrgðin vel bærileg fyrir þá, sem fresta vildu kosningunum vegna alþjóðarnauðsynjar. Það var tvímælalaust, að það átti að fresta kosningunum síðasta vor, og það átti líka að fresta bæjarstjórnarkosningunum nú, þangað til séð er fram úr því mikla myrkri, sem nú grúfir yfir þessu landi. En skömmin, sem yfir þessu hvílir, er af því, að við vorum ekki menn til að halda okkur við það, sem við höfðum ætlað okkur að framkvæma í þessu máli. Ég get gjarnan tekið á mig, að ég eigi engu síður en aðrir, og kannske meira en aðrir, sök á því, að ekki var gengið skriflega frá þessum samningum, nægilega og greinilega, eins og það var orðað í samtölum, að ef þm. félli frá, þá fengi hans flokkur að bjóða fram mótsóknarlaust. Ég ætla ekki að fara inn á, hvernig það fór. Það hefur verið nægilega mikið rætt. En það mun sýna sig, að vansæmdin er sú, að við vorum ekki færir um að standa við þá samninga, sem við gerðum og ætluðum að framkvæma. Það, að ég álít, að kosningar eigi að fara fram nú, er vegna þess, að það er nægilega mikið af þeirri tegund manna í landinu, sem er eins og hv. þm. A.-Húnv., sem af einskærri „spekúlation“, þegar þjóðinni ríður mest á, neitar að greiða atkv., sem aðrir þm., skorast ekki undan að gera. Það er vegna þessarar tegundar manna, að kosningar verða nú að fara fram, þó að þær ættu ekki að gera það. Við getum komið í einu og öðru fram með hóp manna, sem við álítum nauðsynlegt, en ef við rekum okkur á, að ómögulegt er að framkvæma það með þessum hóp, þá er ekki um annað að gera en að hætta við framkvæmdina, hversu nauðsynleg sem hún kann að vera, og með þeim hóp manna, sem nú situr á Alþ., er þetta ekki framkvæmanlegt, hversu nauðsynlegt sem það er. (HG: Það veitir ekki af að skipta um). Já, það er áreiðanlegt, að ekki veitir af að skipta um þá suma. Þegar byrjað er af þm. flokkanna á stöðugum undirróðri, í blöðum og meðal þjóðarinnar á fundum og í einkasamtölum, um, að stj. þori ekki að ganga út í kosningar, af því að hún sé hrædd um að tapa, þá er ekki hægt að fresta kosningum, vegna þess að af því stafar meiri ófriður og hætta en af því að fara út í kosningar. Ég vil segja það í sambandi við þau ummæli, sem féllu hér hjá hv. þm. A.- Húnv. um framkomu mína sem ráðh. gagnvart þeim flokki, sem ég hef unnið með, og gagnvart þeim flokki, sem ég vinn með, að ég mun ekki taka upp umr, hér á þingi um það mál, en ég býst við, að ef farið er gegnum áróðurinn við bæjarstjórnarkosningarnar, — en þetta sýnir aðeins, hvað menn geta verið einstaklega blindir í sjálfs síns sök, — þar sem minn áróður á að vera illvígastur, þá býst ég við, að menn kæmust að annarri niðurstöðu en hv. þm. A.- Húnv. Það er vitað mál, að fylgi Framsfl. varð ekki meira en raun varð á, vegna samstillts undirróðurs, svo að ég noti ekki einhver önnur orð, fyrir það, að hann hafi staðið of vel í ístaðinu fyrir bændur um sölu afurða í þessum bæ. Og svo hefur hv. þm. A.-Húnv. brjóstheilindi til þess að vera hróðugur og kankvís yfir, að Framsfl. skuli hafa tapað, og þó er hann fulltrúi fyrir bændakjördæmi og þykist bera hag bænda fyrir brjósti. Það, sem ég gerði, var, að ég talaði einu sinni í útvarp og gaf út ávarp. Framsfl. kippir sér ekki upp við það, þó að hann tapi 300 atkvæðum einu sinni síðan 1934, þar sem hann hefur unnið flestar eða allar kosningar, sem farið hafa fram síðan, nema þessar einu kosningar í Rvík, svo að hann getur séð af þessum atkv. í bráðina. Bæjarstjórnarkosningarnar úti um land sýndu okkur það, sem við getum verið ánægðir með, og við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur um, hvernig hlutirnir standa hjá okkur við kosningar þar. Og án þess að ég fari nánar út í það, þá ætti þessi hv. þm. og hans flokkur sízt að láta svona, þó að Framsfl. tapaði þessum 300 atkv. í Rvík, ef hann lítur yfir úrslit kosninganna í sínum, eigin flokki.

Alveg sama hugarfar kemur fram hjá þessum hv. þm., þegar hann er að tala um, að ég hafi farið að „setja mig á odd“, eins og hann orðaði það, fyrir minn flokk fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Honum þykir undarlegt, að Hermann Jónasson skyldi fara að skrifa í blöð og tala í útvarp, þegar leit út fyrir, að flokkur hans mundi fara illa út úr kosningunum. Hann hefði átt að vera hinn hyggni maður að skrifa ekki og tala ekki. En mín vinnubrögð hafa ekki verið þannig. En það er sama hneigðin hjá þessum hv. þm., að spara sitt eigið skinn, sem kom fram hjá honun í kosningafrestunarmálinu.

Ég ætla ekki að segja meira að svo stöddu við hann, en geri það ef til vill síðar. Hann er sá maður í þessari d. og á Alþ., sem ég af öllum þm., sem hér sitja, vildi sízt hafa sem stuðningsmann fyrir mig og stj. Þessi orð eru fullkomlega meint.

Ég ætta ekki að ræða sérstaklega efnishlið þessa frv., sem hér liggur fyrir, en ég vil þó lenda á, áður em umr. fara lengra um þetta mál, og undirstrika það, sem hér hefur komið fram, að þetta frv. er eingöngu miðað við það ástand og þá afstöðu, sem flokkarnir hafa nú í þessu landi og í kjördæmunum. Á það má benda, hvernig færi, ef Framsfl. tapaði meiri hl. í tvímenningskjördæmunum og hefði aðeins fulltrúa í einmenningskjördæmunum og hefði fengið samtals 8–10 þm. kosna annars staðar en í þessum 6 tvímenningskjördæmum. Vilja hv. þm. líta á frv. og sjá, hvernig útkoman verður þá? Þá fær flokkurinn 6 þm. kjörna í þessum kjördæmun með ranglæti eftir þeim „réttlætisreglum“, sem þessir menn eru að prédika. Ef hann fengi 10 þm. kjörna og 10 þús. atkv. og ætti ekki að fá meira, þá fær hann samt 6 þm. að auki. Og svo er annað, sem ætti að sannfæra menn um, að það er ómögulegt að innleiða hlutfallskosningar nema hafa þær alls staðar, að ef stofnaður væri sérstakur flokkur, segjum að hann væri látinn heita Sameiningarflokkur sjálfstæðra bænda, og hann væri í þessum tvímenningskjördæmum, hvernig halda menn, að niðurstaðan yrði þá? Hann fengi þessa þm., og jafnaðarmenn fengju sömu samkeppnina við sjálfstæðismenn eftir sem áður. Ég vil benda sjálfstæðismönnum á, hvað það er, sem þeim er boðið upp á. Þeim er boðið upp á, að stofnaður verði þannig sérstakur flokkur. Hann fær 6 þm. með örfáum atkv., og svo situr Sjálfstfl. með atkvæðamagnið og keppir við Alþfl. um uppbótarsætin eftir sem áður.

En aðalatriðið í þessu máli er þó það, að með þessu hlutfallskosningafyrirkomulagi er verið að innleiða þá reglu í stjórnarskipun okkar, sem er dauði hennar, og við vitum, að sú byrjun, sem hér var á því gerð með uppbótarþm., hefur stórkostlega skemmt vinnubrögðin hér á þingi, og það hefur sannarlega verið athugað í löndunum, hvað þessi hlutfallskosning felur í sér og færir með sér. Það er eins og haft var eftir einum stjórnmálamanni um hlutfallskosningarnar í seinni tíð, að sem betur fer, sé krabbameinið ekki 100% visst með að drepa menn, en hlutfallskosningafyrirkomulagið í lýðræðislöndum sé svo að segja 104% visst með að drepa hvert lýðræði. Sannleikurinn er sá, að það eru hlutfallskosningarnar, sem hafa innleitt ógrynni smáflokka í löndunum og á þingunum og hafa drepið lýðræðið í löndunum. Það er þetta, sem er verið að stefna að hér.

Það, sem á að gera í þessu máli, — og ég lýsi yfir því, að ég tala þar ekki af hálfu míns flokks, og lýsi ekki yfir því á þessu stigi fyrir hans hönd, — er, að í þessu landi á að hafa færri þm., en hafa allt einmenningskjördæmi. Það er það, sem við eigum að taka upp í okkar stjórnarskipun. Í Englandi og Bandaríkjunum eru minnihlutafl. ekki eins sterkt „representeraðir“ eins og með hlutfallskosningum, en þó alltaf nægilega til þess, að þeir geti séð fyrir og varið sinn málstað með málflutningi svo sterkt, að það borgar sig ekki fyrir meirihlutaflokk að sýna minnihlutaflokki órétt, því að það leiddi til þess, að meiri hluti tapaði sínu meirihlutavaldi. Þetta er það fullkomna „kontrol“, sem er haldið uppi af lýðræðinu í Englandi og Bandaríkjunum. Þar, sem hlutfallskosningar hafa verið teknar upp, í Þýzkalandi, í Frakklandi og víðar, hefur alls staðar farið á sömu leið. Þingin voru óstarfhæf. Einræðisflokkar hafa komizt inn í þingsalina, sungið sína söngva, meðan þm. töluðu, sett allt á ringulreið og tekizt að lokum með skrumauglýsingum og yfirboðum að ná völdum í löndunum.

Ef við ætlum að vernda okkar stjórnskipun, þá er þetta frv. áreiðanlega ekki líklegt til þess, auk þess sem það er þannig úr garði gert, að ég álít, að það komi alls ekki til mála, að Alþ. samþ. það, vegna þess að það getur aukið óréttinn, sen flm. frv. þykjast vera að berjast gegn. Stefnan í þessu máli á að vera sú, að það á að afnema uppbótarsætin, en hafa einmenningskjördæmi í landinu. Á þeim grundvelli er hægt að tala um hlutföll milli bæja og sveita.