24.03.1942
Neðri deild: 25. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Bergur Jónsson:

Þau vinnubrögð hafa oft og eðlilega verið gagnrýnd, að Alþ. skuli láta sér sæma að gera smábreyt. á lögum á fárra ára fresti í stað þess að skapa löggjöfinni aukna festu og hreyfa ekki við meiri háttar l., nema þegar þau hafa verið tekin til gagngerrar endurskoðunar í heild. En sérstaklega er það höfuðnauðsyn um sjálfa stjskr., grundvöll stjórnskipulagsins. Kákbreytingar á þeim grundvelli eins og þær, sem nú eru bornar fram, virðast sprottnar af miklu meira alvöruleysi en svo, að alþm. sæmi.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talar um það sem lítilvægan hlut að breyta stjórnskipunarlögum landsins. Það má að vísu teljast hégómaatriði nú. hvort þessi flokkur eða hinn fær 1–2 þingsætum meira en áður. En þá höfum við líka annað brýnna að starfa á þessum hættutímum en breyta. til þess kjördæmaskipuninni með öllum þeim átökum, sem því fylgja. Er okkur ekki brýna að athuga, hvernig komið verði í veg fyrir dýrtíðaraukninguna? Skapast .ekki nóg vandamál við — það, að landið er hernumið af tveim styrjaldar-stórveldum og yfir því vofir innrás frá hinu þriðja? Sjálft landið er í hættu. Innflutningur til landsins hlýtur að minnka og getur stöðvazt. Ég gæti haldið lengi áfram að telja svo stór mál, að hvert þeirra um sig væri næg ástæða til að leggja ekki í deilumál sem þetta, beina ekki hugum landsmanna að þessu og burt frá því, sem' þjóðinni er nauðsynlegast, svo að hún geti átt einhverja framtíð fyrir höndum. Fyrir hégómlegar breyt. á að stefna í þennan voða, og það er ótrúlegt og furðulegt tímanna tákn, að þeir, sem að þessum till. standa, skuli vera fyrrv. forsrh. og fyrrv. atvmrh., báðir fyrrv. forsetar Sþ., auk tveggja annarra heiðursmanna og hv. þm., sem með þeim eru.

Viðvíkjandi þeim aðalatriðum tveim, sem í frv. felast, þarf ekki miklar umr. Fjölgun þm. um 5 getur ekkert bætt úr vinnubrögðum Alþ. Ég hélt, að þar, sem til þeirra þekkja, mundu telja, að þm. hefði fremur verið fjölgað um of. Hitt álít ég ekkert stórmál í sjálfu sér, hvernig eigi að raða niður þingsætum í einstökum atriðum, hvort vera skuli t.d. 6 eða 8 þm. fyrir Reykjavík. Slíkt er athugandi á sinum tíma, þótt Reykjavík hafi e.t.v. næga fulltrúa á þingi, þegar litið er á, hve margir þm. eru hér búsettir og hver áhrif hún hefur á þingið, sem þar er háð. Þá eru ráðgerð þrjú þingsæti handa kaupstöðum landsins. Ég held það væri nær að leggja niður fámennasta kjördæmið, Seyðisfjörð, og sameina það N.-Múlasýslu. Grg. telur þetta nauðsyn, til þess að gætt verði hagsmuna útvegsins á Alþ. Hvaða þm. vill gefa sig fram, sem ekki telur sig eiga að gæta hagsmuna þessa annars aðalatvinnuvegar landsmanna? — Ég, vona enginn. Hvaða rök eru þetta þá í grg.? Ef skipta þyrfti eftir atvinnuvegum, væri meira vit í að skipta Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvennt, þar sem verstöðvar eins og Keflavík, Sandgerði og Grindavík hefðu mestan kjósendafjöldann í öðru kjördæminu, en hitt yrði fyrst og fremst landbúnaðarhérað.

Eina stórfellda breyt. í frv. er að taka upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. Þegar kjördæmaskipunarnefndin starfaði hér i árunum, kynnti hún sér kosningafyrirkomulag í tvímenningskjördæmum í öllum löndum, sem til náðist, og komst að raun um, að hlutfallskosning er þar hvergi nokkurs staðar viðhöfð. Menn vilja kannske ekki taka mín orð gild, því að ég sé framsóknarmaður, en þá verða þeir að trúa hv. 1. þm. Reykv., sem hefur lýst réttilega yfir því, að hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum kæmi alls ekki til greina. Segjum t.d., að 5 flokkar, eins og hér eru nú, hefðu allir svipað fylgi í tvímenningskjördæmi. Tveir þeirra fengju svo fulltrúa sina kjörna með 201 atkv. hvorn, hinir 3 fengju aðeins 200 atkv. hver og engan fulltrúa. Þá væru nálega 3/5 kjósendanna án fulltrúa, en minni hlutinn, fengi báða kjördæmisþingmennina. Sú samsvörun atkvæðumagns og þingsætatölu, sem á að vera tilgangur og helzta réttlæting þessa frv., næst þá ekki betur en þetta ! Hvað er hégómamál, ef ekki vanhugsaðar kákbreytingar sem þessi á sjálfum stjórnskipunarl., meðan stórmál líðandi stundar eru vanrækt?

Það er rétt, að stjórnskipunarl. gera, eins og þau eru, ráð fyrir, að reynt sé að láta sem fyllst samræmi verða milli atkvæðamagns og þingmannatölu flokkanna. En sú regla er þannig löguð,— að hún er í raun og veru alls ekki réttur grundvöllur. Það er fjöldi kjósenda í landinu, sem vill alls ekki láta binda sig við pólitíska flokka. Það kemur m.a. fram í ,því, að í tvímenningskjördæmum kjósa margir sinn manninn úr hvorum flokki, svo að oft hefur komið fyrir, að þm. tvímenningskjördæmis hafa verið úr sínum flokknum hvor. Það er ekkert vit að binda kjördæmaskipun við svo hverful og lítt afmörkuð félög sem flokkarnir geta verið. Að loknum hverjum kosningum er alvanalegt, að flokkar riðlist eða menn gangi úr þeim og í aðra, og engin leið að hindra það. Þegar flokksforinginn, MacDonald, gekk í þjóðstjórnina ensku um árið með nokkurn hluta af Labour party í fylgd með sér, varð meiri hluti þess flokks áfram í stjórnarandstöðu, og ætti hv. þm. Seyðf. að reka minni til þess. Næg dæmi hafa einnig gerzt hér á landi. Árið 1908 fékk Sjálfstfl. yfirgnæfandi meiri hluta í kosningum, n 1911 var orðið jafntefli við Heimastjfl. Á stríðsárunum skiptist Sjálfstfl. í „þversum“-menn og „langsum“, og ætti hæstv. fjmrh. að muna það, því að hann var víst í síðarnefnda flokksbrotinu. Þá má minna á, að Framsfl. skiptist 1933, þegar úr honum gengu Tryggvi Þórhallsson, Jón úr Dal, Halldór Stefánsson, Hannes Jónsson, Ásgeir Ásgeirsson o.fl., og mætti hv. þm. V.-Ísf. vel muna það. Árið 1934 kom Magnús Torfason á þing sem uppbótarmaður fyrir Bændafl., en hirti ekki um að telja sig til þess flokks, er á þingið kom. Þá var gerð hríð að honum til að reyna að hrekja hann af þingi fyrir slíka uppreisn gegn flokkseignarréttinum, en aðrir aðilar hindruðu það og tryggðu, að þm., sem þannig er kjörinn, fái eins og aðrir notið sannfæringarfrelsis stjskr. Þá varð ljóst, hve hæpin nýjung þessi skipun uppbótarsætanna var. Alþfl. hefur einnig klofnað. Héðinn Valdimarsson var sá þm. hans, sem kosinn var með langhæstum atkvæðafjölda 1937, en ekki leið löng stund, unz hann klauf sig og menn, er honum fylgdu, úr flokknum og fór í nýjan flokk með kommúnistum. Og svo leið eitthvað á annað ár, þá var hann farinn úr þeim flokki. Þannig má lengi telja. Það nær engri átt, að svo völt félög sem flokkarnir séu gerð aðalundirstaða kjördæmaskipunarl.

Það er ekki nóg að sjá um, að sem minnst misræmi sé milli atkvæðamagns flokkanna og tölu þm. þeirra. Ekki ríður minna á að taka tillit til aðstöðu manna til að neyta þingræðislegra mannréttinda sinna og þá sérstaklega til þess að nota kosningarrétt sinn. Það má bera saman kjörsókn í sveitum og í kaupstöðum, þar sem smalað er á bílum og dauðvona sjúklingar eða jafnvel geðbilaðir menn eru sóttir í sjúkrahúsin með svo frægum árangri stundum, að t.d. árið 1937 át einn sjúklingur bæði blýantinn og kjörseðilinn !, og veit ég ekki fyrir víst, hvaða flokkur átti þann kjósanda, en hann tekur þetta e.t.v. til sín. — því landi, sem lengst var gengið í víkkun og svonefndri jöfnun kosningarréttar, Þýzkalandi, varð afleiðingin mjög slæm og átti mikinn þátt í að steypa þar þingræðinu.

Hv. 5. þm. Reykv. (SK) þótti kjördæmaskipun okkar ekki í hávegum hafandi, því að hún væri dönsk. Veit þm., hve mikið í löggjöf okkar allri er í raun réttri danskt að uppruna? Þannig er t.d. hegningarlöggjöfin og mikill þorri annarrar helztu borgaralegrar löggjafar okkar, og veit ég vel, að þm. hefur margt af því í hávegum. Og stjórnarskráin ! Var það ekki löggjöf Danakonungs 1874, „frelsisskrá í föðurhendi“? Alþing hið forna var íslenzkt að vísu, en með núverandi skipun var það endurreist af dönskum kóngi fyrir öld síðan, og kjör til þess getur ekki annað en farið fram að okkur nauðugum viljugum á um grundvelli, sen þingræði okkar var þá á reist. Það er einkennilegt, ef sjálfstæðisflokksmenn gera það nú að höfuðsök kjördæmaskipunarinnar, að hún sé dönsk að ætt. Flokksformaður þeirra, hæstv. atvmrh. (ÓTh), er danskur í aðra ætt. Hinn ráðherra flokksins ber dansla nafn, og þó að hann sé kannske íslenzkari, ferst sjálfstæðismönnum svona tal ákaflega illa.

Mér finnst, að það sé alveg óverjandi að fara út í það nú að taka svona eina gr. út úr stjskr. og breyta henni eins og hér er farið fram á. Hitt er annað, að ef menn vil ja fara út í almenna endurskoðun á stjskr., þá er ekkert á móti því að taka þetta með.