24.03.1942
Neðri deild: 25. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Finnur Jónsson:

Það, sem einkennir umr, um þetta mál, er sá ofsi, sem andstæðingar þess sýna. Það er eins og eigi að pína úr þeim líftóruna með einhverjum hörðum aðferðum. Hæstv. forsrh, hefur þó látið svo um mælt, að þá skipti aldrei minna máli en nú, hvernig menn skiptast í flokka hér á þingi, vegna þess að enginn einn flokkur mundi vilja taka að sér að stjórna landinn. Þá heldur hann einnig fram, að þetta mál muni vekja ófrið. En ef þetta skiptir litlu máli, eins og hæstv. forsrh. vill vera láta, hvers vegna er hann þá að vekja ófrið út af því, að færa á kjördæmaskipunina til réttari vegar? Það virðist enda upplýst af þessum mönnum, að ef hæstv. forsrh. og hans flokkur vekur ekki ófrið um þetta mál, þá gerir enginn það. Það er þess vegna fyrst og fremst á valdi hans og hans flokks, hvort þetta mál fær að ganga fram í friði eða ekki. Það er þess vegna óþarfi að halda fram, að það sé flutt til þess að vekja ófrið í þinginu.

Hæstv. fjmrh. lét svo um mælt, að Alþfl. hefði verið ófáanlegur til að tala um nokkra breyt. á kjördæmaskipuninni á undanförnum 10 árum. Mér skilst, að nú séu 9 ár, síðan núverandi kjördæmaskipun var sett með samkomulagi allra flokka, og ég veit ekki til, að síðan hafi komið fram neinar till. um breyt. á kjördæmaskipuninni hér á þingi, fyrr en þetta frv. er lagt fram. Í þessi 9 ár hefur því aldrei reynt á það, hvort Alþfl. væri fáanlegur til þess að gera breyt. á henni. Það eru því ekki nema staðlausu stafir, sem hæstv. fjmrh. fór með og hæstv. forsrh. tók upp tvívegis, að, nokkurn tíma hefði komið í ljós, hvort flokkurinn væri fáanlegur til þess að gera nokkrar breyt. Nú hefur verið á það bent af öðrum en mér, að nú þurfi að fara að undirbúa framtíðarstjórnarskrá fyrir íslenzka lýðveldið. Jafnhliða hefur verið sagt af hv. þm. Barð., að ófært væri að taka þetta eina atriði út úr, áður en höfuðstjórnarskrárbreyt. væri samþ. Nú er það vitanlegt, að stjskr., sem lengi á að standa og vel á að vanda, þarf að vera þannig úr garði gerð, að hún sé í samræmi við almenningsviljann í landinu. Við flm. þessa frv. lítum svo á, að fyrir því sé ekki trygging, nema því aðeins, að kjördæmaskipuninni sé breytt í réttlátara horf en nú. Það sé frumskilyrðið til þess að tryggja, að væntanleg framtíðarstjórnarskrá ríkisins sé í samræmi við vilja og þarfir landsmanna. Þess vegna leggjum við til, að þessi breyt. verði gerð á stjskr. og jafnhliða því verði sett n. manna úr öllum flokkum til þess að undirbúa stjskr. íslenzka lýðveldisins. Í þessu er ekkert ósamræmi, heldur þvert á móti viðurkenning á þeirri grundvallarreglu, að það sé lýðræðið, sem á að ríkja og ráða hér á landi.

Það hefur verið farið ýmsum óstillingarorðum um þetta frv. M.a. kallaði hv. þm.. Barð. þetta hégómlegar og vitlausar till., samhliða því, sem hann sagði, að þær væru lítilfjörlegar. Ég lít svo á, að sá, sem lætur sér slík orð um munn fara, að hann telji lýðræðisskipulagið hégóma og vitleysu, hann hafi ekkert með það að gera að sitja hér á þingi. Þeir, sem viðurkenna ekki, að lýðræðið eigi að njóta sín eins mikið og unnt er, eiga ekki að sitja á lýðræðissamkomu. Þeir eiga að sitja einhvers staðar annars staðar.

Hv. 1. þm. Rang. talaði hér af ákaflega miklum geðofsa í gær og sagði m.a., að þetta frv. væri síngirni og sérhagsmunir á hæsta stigi. Með því gefur hann þá líka þá yfirlýsingu, að lýðræðisskipulagið og almennur kosningarréttur sé fyrst og fremst til þess að efla singirni og sérhagsmuni. Hann hélt því fram, að ef ætti þannig að innleiða almennan, jafnan kosningarrétt, ættu menn líka að gera kröfu til, að hver hreppur ætti sinn banka. Nú er það svo, að bönkunum á eins og öðrum stofnunum að stjórna eftir vilja kjósendanna, en það er því aðeins tryggt, að í landinu sé almennur kosningarréttur, og þannig lagaður kosningarréttur, að hver maður hafi jafnan atkvæðisrétt, hvar sem hann býr í landinu.

Þessi hv. þm. minntist líka á, að það þyrfti að vinna að ýmsum mannúðarmálum í landinu, og er ég honum sammála um það, en það er sá almenni kosningarréttur, sem fyrst og fremst tryggir, að hægt sé að vinna að almennum mannúðarmálum í landinu á þann hátt, sem meiri hl. þjóðarinnar óskar. Nú benti þessi hv. þm. á, að það væri mikill straumur úr sveitunum til kaupstaðanna, svo að það væri að eyðileggja sveitirnar, og nú ætti að taka kosningaréttinn af sveitunum. Þetta er mesti misskilningur. Með þessu frv. er ekki verið að taka neinn kosningarrétt af sveitunum. Það á að halda þeirri gömlu kjördæmaskipun, sem hér hefur verið um nokkuð langan aldur, en það eru gerðar nokkrar breyt. á henni í samræmi við þá fólksflutninga, sem orðið hafa í landinu. Það hefur verið mikið talað um ófrið í þessu sambandi. Það hefur verið talað um, að nauðsynlegt væri að halda friði í landinu. Ég verð að álíta, að bezta tryggingin fyrir því, að friður haldist í landinu, sé sú, að landinu sé stjórnað í samræmi við vilja meiri hl. kjósendanna.

Hv. 1. þm. Rang. vill bera brigður á, að þetta frv. nái tilgangi sínum, því að það væri hugsanlegt, að þm. kæmist að í kjördæmi, þó að hann hefði ekki nema rúman fjórða hluta af atkvæðamagni í tvímenningskjördæmi. Þetta er vitanlega alveg rétt, en þar er ekki nema hálfsögð sagan, því að eftir núverandi kosningafyrirkomulagi eru ýmsir fræðilegir möguleikar til, sem geta litið óálitlega út. Ef fjórir flokkar hafa menn í kjöri í tvímenningskjördæmi og hafa nokkuð jafna atkvæðatölu, þá þarf ekki nema rúmlega 1/4 hluta kjósenda til að koma þar að tveimur þm. Við skulum hugsa okkur, að í tvímenningskjördæmi væru átta flokkar, sem hefðu menn í kjöri. Þá er sá fræðilegi möguleiki til, að ekki þurfi nema rúmlega 1/8 atkv. til þess að koma þar að tveimur þm. Af þessu má sjá, að það er rangt hjá hv. þm., að hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum geti veitt möguleika fyrir einhverju ranglæti, sem ekki sé fyrir hendi nú. Það eru sömu fræðilegu möguleikarnir til, að menn geti náð kosningu með minni hl. atkv., en sá er þó munurinn, að með frv. yrði þó alltaf annar þm. með nokkrum meiri hluta.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að svo stöddu. Ég hef reynt að haga máli mínu þannig, að það kynnti á engan hátt undir þann geðofsa og vanstillingu, sem hefur komið fram hjá andstæðingum þessa máls. Ég hef hagað orðum mínum, svo, af því að ég er sammála hæstv. forsrh., að nauðsynlegt sé að halda sem mestum friði í landinu, og vildi ég þá samtímis mega ítreka þá beiðni mína til hans — og hans flokksmanna, að þeir séu ekki að vekja úlfúð að ástæðulausu, en reyni að skilja það, sem er nauðsynlegra að skilja á ófriðartímum meira en nokkru sinni endranær, að fyrsta skilyrðið til þess, að friður haldist í landinu, er, að því sé stjórnað með réttlæti og í samræmi við vilja kjósendanna, og vilji þeir vinna að friði í landinu, eiga þeir að ganga með okkur og samþ. þetta frv., en ekki beita sér gegn því með slíkum fólskurökum og ofsa, sem þeir hafa gert sig seka um.