24.03.1942
Neðri deild: 25. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. þm. A.Húnv. er nú búinn að tala 10 sinnum um þetta myndasafn, sem hann hafi í fórum sínum, en það kemur aldrei neitt fram úr þessu myndasafni. Að vísu reyndi hann einu sinni að draga fram mynd, en ég man ekki betur en hæstv. viðskmrh. hafi klínt þessari mynd svo mekilega bæði á bak og rass þessa hv. þm., að hann hafi ekki losnað við hana enn þá, því að svo eftirminnilegri minnkun hefur enginn þm. orðið fyrir hér á Alþ. sem hann í það skipti. En þetta var, þegar hann var að ræða um fjárl. og landsreikningana, en hann er yfirskoðunarmaður landsreikninganna á Alþ. Það er a.m.k. fínt að vera það fyrir kjósendur í Austur-Húnavatnssýslu. — Ég skora nú á hv. þm. að koma með eitthvað úr þessu myndasafni sínu hér fram. Annars vil ég taka það fram, að ég vil ekki eiga orðastað við hann, nema ég sé til neyddur að svara árásum. Það fer vel á því, að við erum báðir ánægðir, hann yfir því að vera laus við að styðja ríkisstj. og ég yfir því að vera laus við hann sem stuðningsmann.

En viðvíkjandi málinu sjálfu vil ég segja það, að ég vil ekki, að þessi fundur gangi langt inn á það að ræða einstök atriði þessa máls, vegna þess hve áliðið er fundartímans, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég hef sagt áður. Ég hef minnzt á það, að þessir tímar eru of alvarlegir til þess að leiða inn á Alþ. jafnmikið deilumál og þetta er, og ég hef varað Alþ. við því að gera það. Í öðru lagi leiðir þetta af sér tvennar harðvítugar kosningar, og ekki er hægt að sjá, hvort lokið yrði neinum verulegum störfum, sem aðkallandi eru fyrir stjórn og þing, fyrr en eftir að þær kosningar hafa farið fram. Í þriðja lagi álít ég óviðeigandi að samþ. breyt. á stjskr. konungsríkisins Íslands. Að því er frv. snertir, stefnir það að því að koma á auknum hlutfallskosningum og ég mun berjast gegn þeim, eftir því sem mér er unnt. Ég tel, að breyt. þær, sem gerðar voru með uppbótarsætunum, hafi nægilega leitt í ljós, að vinnubrögð þingsins hafa versnað. Yfirleitt vil ég með öllu mótmæla því, að innleiddar verði hlutfallskosningar meir en orðið er. Það mundi leiða af sér fjölgun litlu flokkanna í landinu, leiða af sér yfirboð eftir yfirboð um þm. í tvímenningskjördæmum, skrumauglýsingar og skrumflokka hér á Alþ. Það mundi leiða af sér aukinn vanda og aukið erfiði með stjórnarmyndanir, tíð stjórnarskipti og að lokum skapa upplausn í þingræði okkar og ekkert annað, eins og það hefur gert í stóru löndunum og hér hefur verið minnzt á. Ég er sannfærður um það, að í svona litlu landi, landi kunningsskaparins, mundu auknar hlutfallskosningar verða útfararsálmur þingræðisins. Þetta óska ég, að komi skýrt fram í umr. um þetta mál.

Ég hef lýst yfir því, að Framsfl. er reiðubúinn til þess, að endurskoðuð verði stjórnskipun ríkisins og undirbúin. Við viljum leggja áherzlu á það, með því að skipta öllu landinu niður í einmenningskjördæmi, en Rvík í fleiri kjördæmi, og í því sambandi mætti endurskoða hlutfallið milli sveita og kaupstaða. Það er ekki að ástæðulausu, að England, sem berst nú fyrir lýðræðinu, hefur haldið þessu skipulagi, en forðazt hlutfallskosningaskipulag. Hvernig stendur á því, að jafnaðarmannafl. í Bretlandi —, sem hafði við seinustu kosningar 5–6 millj. atkv. (en íhaldsflokkurinn 8 millj.) hefur ekki nema á milli 54 og 60 þm., en íhaldsflokkur inn, sem hefur ekki nema 2–3 millj. fleiri atkv., hefur 280–290 þm.? Hvernig stendur á því fyrirkomulagi? Hvernig stendur á því, að mestu lýðræðisþjóðir heimsins una við þetta skipulag, en forðast hlutfallskosningar? Það er vitanlega vegna þess, að sporin í Þýzkalandi, á Spáni, Ítalíu og Frakklandi hræða. Í þessum löndum komu upp 30–40 flokkar, sem voru ábyrgðarlausir, og hundruð stjórnarskipta á örfáum árum eins og í Frakklandi fyrir fall þess, — kosningar eftir kosningar, einmitt vegna litlu flokkanna. Ég sagði í byrjun máls míns, að ég ætlaði að drepa lauslega á nokkur atriði í sambandi við þetta mál. Ég vil sérstaklega benda á það atriði, að þetta mál er bersýnilega vel til þess fallið að eyðileggja meira eða minna öll störf hér á Alþ., og harma ég það mjög, að skattafrv. skali ekki enn vera komið fram hér í þinginu. Það eru fjölda mörg mál, viðvíkjandi samningum út á við, sem varða sölu á afurðum okkar, siglingar og fleiri stórmál, sem Alþ. þarf að ráða fram úr, en er auðsætt að tefjast mikið, ef þetta mál á að vera hér til umr. dag eftir dag. Ég skora því á hv. þd. að taka afstöðu til þessa máls og ráða því til lykta sem allra fyrst. Þessu máli verður að hraða. Fjölda mörg vandamál biða úrlausnar þingsins. N. sú, er fær þetta mál til athugunar, verður að hraða afgreiðslu þess, því að eftir afgreiðslu þessa frv. fara störf þingsins. Ég vil því benda hv. flm. þessa frv. á, sem sjálfsagt hafa talað við aðra þingflokka um fylgi þessu máli til handa, að þeir verða að hraða þessu máli, ef öll störf innan þings og utan eiga ekki að eyðileggjast. Ef Alþ. telur það aðalnauðsynjamál þingsins að afgreiða þetta frv., verða þeir, sem að því standa, að taka einnig forustuna í öðrum málum. Ég beini því þeirri áskorun til Alþ., að það hraði afgreiðslu þessa máls. Mér telst svo til, að ef allir þm. taka til máls í þessu máli, standi umr. í 1–2 mánuði. Ég vona, að þessi áskorun mín sé svo greinileg, að þingflokkarnir geri sér það ljóst, hvernig hún er meint, og vænti ég þess, að hún verði tekin til greina.