13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. frsm. minni hl. kvaðst hafa leitað í áliti meiri hl. að röksemdum fyrir því, að það þyrfti nú að taka upp þetta mál, og kvaðst ekki hafa fundið aðra röksemd heldur en þá einu, að meiri hl. væri sammála um það að jafna atkvæðisrétt manna í landinu. Það er nú svo, að meiri hl. finnst þetta vera ærin röksemd fyrir því að taka mál þetta upp. Í hverju lýðræðisþjóðfélagi á það tvennt að vera tryggt, að það sé meiri hl., sem ræður, og að réttur minni hl. sé um leið tryggður, svo sem vera ber. Og það er ekkert fyrirkomulag, sem tryggir þetta eins vel og hlutfallskosningar og uppbótarþingsæti. Og það er þess vegna, sem þessar aðferðir hafa verið teknar upp í flestum lýðræðislöndum. Ég skal ekki segja, hvort hv. 1. þm. Rang. telur þessar röksemdir vera nógar. En það gæti verið, að einhver samvinnumaður áliti það vera töluvert atriði, að menn hefðu jafnan atkvæðisrétt, þótt ekki væri nema í samvinnufélagsskap. Og það gæti verið, að einhver guðsmaður hefði haldið því fram, að mannssálirnar séu nokkuð réttháar í hlutum, sem varða kannske eins miklu og þetta mál um kosningar og tvímenningskjördæmi.

Þá vildi hv. 1. þm. Rang. halda því fram, að það væru felldar niður hjá meiri hl. stjskrn. till. um tvö sérstök kjördæmi, vegna þess að meiri hl. hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að nettógróðinn af því að taka upp þessi tvö nýju kjördæmi væri ekki nægilega mikill. En nú er það svo, að minni hl. n. telur sig í áliti sínu sýna fram á það, að það væri ranglátt að taka upp þessi kjördæmi. Jafnframt kemst minni hl. að þeirri niðurstöðu, að Framsfl. mundi græða á þessu ranglæti. Það er þar þannig í öðru orðinu fárast um þessar till., sem voru teknar aftur, en í hinu orðinu er kvartað um það, að þær séu ekki látnar standa óbreyttar. Þetta er nokkuð líkt og hitt, sem hv. frsm. minni hl. er alltaf að áfellast mig fyrir. Hann kennir mér um það; að ekki séu fleiri þm. fyrir Rvík nú heldur en 6, og ástæðan til þess, að hann vill hafa fleiri þm. en 6 fyrir Rvík, er sú, að þá mundi Framsfl. kannske hafa eitt þingsæti hér í Rvík.

Hv. 1. þm. Rang. telur, að mér hafi verið falið það 1933 að koma því til vegar, að a.m.k. 7 þm. yrðu ákveðnir handa Rvík, en mér hafi ekki tekizt þetta. Ég vil minna þennan hv. þm. á það. að þegar verið er að jafna atkvæðisréttinn og þegar verið er að jafna það misrétti, sem er á milli flokkanna, þá getur sá flokkur, sem fæst hefur atkvæði á hvern þm., ekki búizt við því, að sérstaklega verði stofnað nýtt kjördæmi eða þingsæti hans vegna. Þegar um það er að ræða að jafna atkvæðisréttinn, þá verður að nota þau meðul, sem jafna réttinn en ójafna hann ekki. En ég sé ekki annað en þeir, sem kvarta mest yfir því, að ekki voru ákveðnir 7 þm. fyrir Rvík árið 1933, ættu að gera sig sæmilega ánægða með, að nú er lagt til að hafa 8 þm. fyrir Rvík. Þarna kemur fram það sama og áður, að í öðru orðinu er sagt, að Rvík hafi ekki nógu marga þm., en í hinu orðinu, að hún hafi of marga þm.

Í sambandi við þetta benti svo hv. 1. þm. Rang. á Oslo til samanburðar og sagði, að í bæ eins og Oslo væru ekki nema 7 þm. og 300000 íbúar. Og svo hneykslaðist hann á okkar till. um það, að Rvík hefði 8 þm. Hvað ættu að vera margir þm. fyrir Árnessýslu eða Rangárvallasýslu í samræmi við Oslo? Ekki nema lítið brot úr þm. Til þess að bera þetta saman, verður maður að taka hlutfallstölur. Í Oslo er 1/10 hluti Norðmanna. og Oslo hefur 1/20 hluta þingmannanna. En í Rvík býr 1/3 hluti Íslendinga — í þeim höfuðstað, og eftir sama hlutfalli og gildir í Oslo um tölu þm., þá ætti Rvík að hafa 1/6 hluta þm. á Alþ. Og samkvæmt okkar till. þá eiga þm. Reykv. að vera 8, en það er um hað bil nákvæmlega 1/6 hluti af þingmannatölunni, sem ert er ráð fyrir. Þessi fyrirmynd, sem var sett okkur fyrir hugskotssjónir af hv. 1. þm. Rang., fellur þannig algerlega saman við okkar till. Og þegar hv. 1. þm. Rang. talar um það, að í Noregi sé svo rammbyggilega gengið frá þessum málum, að ekki megi nema viss hluti þm. þar vera frá hinum stærri kaupstöðum, þá gleymir hann því, að til skamms tíma var talið, að kaupstaðirnir þar hefðu grætt á ákvæðunum um hlutfallskosningar. Það voru kvartanir um það þar í sveitunum, að kaupstaðirnir hefðu fleiri fulltrúa hlutfallslega heldur en sveitirnar samkv. þessu grundvallarákvæði. Ég vil nú ekki á neinn hátt segja, að þetta ákvæði sé til eftirbreytni. En ef vitnað er í kosningafyrirkomulagið hjá Norðmönnum, þá er rétt að geta þess, hvernig það hefur verkað, þar sem þetta fyrirkomulag hefur gilt.

Þá sagði hv. 1. þm. Rang., að tilgangurinn með þessu frv. væri sá að neyða kjósendur, sem ekki vilja líta við ákveðnum flokkum, til að fylgja þeim samt. Við skulum nú líta á kjördæmi eins og hans kjördæmi, Rangárvallasýslu. Þar munu um síðustu kosningar hafa verið um 940 framsóknarkjósendur, en af andstöðuflokkum Framsfl., aðallega sjálfstæðismönnum, munu hafa verið þar um 900 kjósendur. Það munar ekki mörgum hundraðshlutum þarna. Og að álíta réttlætið í kjördæma- og kosningafyrirkomulagi vera fólgið í því, að þessir 940 menn ráði 2 þm., en hinir ráði engu um val þm., heldur séu strikaðir út og það sagt um þá, að þeir séu aðeins taglhnýtingar kaupstaðanna og ekki annað, það finnst mér ekki fullkomin viðurkenning á því, að sveitamenn séu alltaf sveitamenn, þó að þeir séu ekki undir öllum kringumstæðum framsóknarmenn.

Við getum tekið annað dæmi, sem er Árnessýsla. Þar hygg ég, að kosið hafi við síðustu kosningar um 1280 framsóknarmenn, en með andstöðuflokkum Framsóknarfl. kusu þar um 1180. Það munar ekki öllu, þó að þar muni 100 atkv. í svona stóru tvímenningskjördæmi. Í Suður-Múlasýslu hafa andstöðuflokkar Framsóknarfl. fleiri atkv. heldur en þeir framsóknarkjósendur, sem ráða báðum þingsætunum fyrir það kjördæmi. Og ef við lítum á Eyjafjarðarsýslu, þá eru þar yfir 2000 kjósendur, sem kjósa önnur þingmannaefni heldur en Framsfl. bauð fram, en kringum 1600 kjósendur, sem kjósa framsóknarfulltrúana og fá báða þm., kjördæmisins kosna. Í Norður-Múlasýslu er hlutfallið eitthvað á þá leið, að 700 framsóknarmenn ráða þar 2 þingsætum, en um 580 kjósendur af öðrum flokkum ráða engum þm. Og ef maður leggur öll þessi tvímenningskjördæmi saman, þá verður það mjög áþekkt um kjósendafjölda Framsfl. annars vegar og hinna flokkanna allra samanlagt — hins vegar, en munurinn er sá eini, að framsóknarmenn hafa fengið alla þm. þessara kjördæma kjörna og hinir flokkarnir engan.

Þetta er það mikla réttlæti, sem hv. 1. þm. Rang. vill ekki slaka til á í einu eða neinu, og það stóra réttlæti, og sé gengið á móti því, þá segir hann, að kippt sé fótunum undan þjóðfélaginu, allt komið í upplausn, friðurinn rofinn, sjálfstæði, tunga, þjóðerni og ég veit ekki hvað og hvað, allt á ferð og flugi.

Ef það skyldi koma til, að Framsfl. fengi færri þm. kosna í tvímenningskjördæmunum en einhver hinna flokkanna, þá eru uppbótarþingsætin trygging fyrir hann. Ef Framsfl. skyldi fá fleiri kjósendur á þm. en aðrir, þá eru uppbótarsætin hans bezta trygging. Ég efast ekki um, ð ef Framsfl. hefði orðið fyrir barðinu á þessu réttlæti, mundi hafa látið hærra í fulltrúum hans en jafnvel hefur látið í flm. þessa frv., eins og það er fram borið. Samt er sagt, að með þessu eigi að gera tvímenningskjördæmin áhrifalaus, að það eigi að koma Þorbirni rindli þar að við hliðina á þeim ágætu framsóknarmönnum. En þótt hlutfallskosning sé viðhöfð í tvímenningskjördæmum, þá fær Framsfl. fleiri atkv. á hvern þm. utan kaupstaða en Sjálfstfl., og hver er það þá, sem á að heita Rindill? Sá, sem hefur 1000 atkv. bak við sig, eða hinn, sem hefur ekkí nema 700 atkv. bak við sig?

Það er einföld röksemd í þessu máli, og hún er sú, sen ég gat um í upphafi, en hv. 1. þm. Rang. vill illa sætta sig við, að þegnarnir eigi að hafa jafnan rétt án tillits til, hversu högum er háttað eða hvar þeir búa. Þetta er svo einfalt mál, að óþarft er að halda um það langa ræðu, enda vilja ræðurnar hjá andstæðingum þessa máls mest ganga út á að tala um aðra hluti eins og það, að nú séu tímarnir slæmir, og bera mér alvarlega á brýn, að ég hafi sagt, að nú séu góðir tímar. Hv. frsm. minni hl. segir, að nú séu ómögulegir tímar til að kjósa. Þetta minnir mig á ræður frá 1933. Ég býst við, að hv. 1. þm. Rang. haldi fram, að þá hafi verið sæmilega rólegir tímar til að kjósa um svona mál. Þá voru haldnar stórar ræður, a.m.k. af form. Framsfl., að þegar stæði á eins og þá, að þjóðin væri að berjast fyrir lífi sínu, þá væru ekki tímar til að koma með deilumál eins og stjórnarskrármálið. Þetta er sama sagan, sem við höfum heyrt svo oft áður.

Ég hef aldrei sagt, að það séu sérstaklega góðir tímar núna, heldur hef ég sagt, að við skyldum ekki vera að vorkenna okkur meira en öðrum þjóðum. Ýmsar þjóðir væru verr settar og í meiri hættu, en létu þó fara fram kosningar. Þessi tilraun, að þyrla upp moldryki út af ástandinu, en reyna að komast fram hjá máli, sem þeim er erfitt, er óviðunandi. Ef tímar eru til að kjósa um mál eins og það, hvort skuli binda kaup og laun allra stétta landsins, meðan gróði annarra er óbundinn, þá er ekki síður tími til að kjósa um, hvort hlutur og réttur þegnanna skuli vera jafn.

Hv. frsm. talaði fjálglega um, að við værum herteknir af tveimur stórþjóðum. Manni skildist á þessum hv. þm., að hans stj. eigi í baráttu við heri þessara stórþjóða, sem megi ekki trufla fyrir utan þá baráttu, sem hann var í við nazista og kommúnista, Heródes og Pílatus, hunda og ketti og fleira, sem hann nefndi í sinni stóru ræðu. Ég get trúað, að í þessari stóru baráttu megi varla bæta svona frv. ofan á. En okkur hinum finnst við alls ekki vera í baráttu við heri tveggja stórþjóða. Fyrst og fremst er okkur ljóst, að annar er að mestu farinn, en hinn er hér í samkomulagi við Íslendinga. Við lítum sumir svo á, að landið væri ekki eins öruggt á þessum tímum, ef hér væri ekki slíkur verndarher. Við teljum slíkt ekki aukna hættu, heldur aukna tryggingu gegn því, sem annars mundi vera. Mér virðist, að þessir þm., sem eru svona óttaslegnir, séu öruggari um sjálfa sig en kjósendur sina, því að þeir treysta sjálfum sér til að sitja á þingi og gefa út l., en kjósendunum treysta þeir ekki til að láta fara fram skikkanlegar, skipulegar og friðsamar kosningar, þar sem meiri hl. þm. verður aftur í framboði. Flokkurinn, sem hér er hræddur, hræðist aðalatriðið. Hann hræðist það tjón, sem hann hefur af kosningunum, svo að þessi hætta við kosningar er ekki annað en ótti við sjálfan sig. Ég vil gefa hv. 1. þm. Rang. það ráð, að fyrst hann lítur svo geysilega alvarlega á þessa tíma, að skrúfa betur niður í sjálfum sér, og þá fær hann friðsamlegar kosningar, enda ætti það betur við að flytja mál sitt ekki eins ófriðsamlega og hann gerir.

Hann talaði í þessu sambandi um blygðunarlausa flokksverzlun í sambandi við mál, sem svo er ástatt um, að nokkrir flokkar gera með sér samlag, án þess að fari fram nokkur verzlun í sambandi við það. Það er bara styrkur þess máls, sem sameinar þá um fylgi við það. Honum finnst þetta kannske ljótt orð, — verzlun, — og ég vil heldur ekki nota það orð, nema að svo miklu leyti sem samkomulag og samvinna er verzlun. Ég kalla þetta samvinnu, þegar nokkrir flokkar taka sig saman um að hrinda í framkvæmd, að réttur þegnanna verði jafn. Ég vil halda fram, að samvinnuandi og samvinnusnið hafi oft komið fram þannig hér á þingi, að framsóknarmenn hafa viljað rífa niður það, sem þeir hafa kallað sérréttindi annarra. Ég hef oft verið áhorfandi eða þátttakandi með þeim í slíkri baráttu, en ég hef aldrei séð neinn hér á þingi verja sérréttindi sín jafnhatrammlega og þeir gera í þessu máli.

Hv. 1. þm. Rang. reyndi að hreyta til mín persónulegum ónotum í sambandi við afskipti mína af þessu máli. Ég hirði ekki að svara því, og ég hef ekki oftar skipt um fylgi við flokka heldur en hann, þó að ég hafi áður verið framsóknarmaður, en hann kommúnisti, að því er talið er. Frá upphafi lét ég þess getið í Framsfl. að þetta mál væri mál vinstri flokkanna og þeir skyldu ekki sverta sig á að vera á móti því máli, sem hefði það mikinn kraft, að það hlyti að sigra, og svo skylt öllum viðfangsefnum þeirra. Ég vil ekki segja, að það, sem gert var árið 1933, hafi mistekizt, vegna þess að þær tvennar kosningar, sem verið hafa á þessu tímabili, hafa verið stórum bærilegri vegna uppbótarsætanna. Þar fyrir hefur sýnt sig, að það þarf að gera betur, og hér er stigið spor áfram í sömu átt. Ef svo skyldi fara, að framsóknarmenn fengju ekki alla þm. í tvímenningskjördæmunum, þá verður jöfnuðurinn meiri og gæti orðið fullur, án þess að nota þyrfti öll uppbótarsætin.

Hér er um að ræða samkomulag allra flokka nema Framsfl. Og þó að Framsfl. geti bent á menn, sem eru með ágreiningsatriði, þá er það jafnrétti, sem hér er um að ræða, samkomulag milli allra flokka.

Ég er ekki að afsaka það, sem ég sagði, að gömlu kjördæmin væru lífseig, því að það eru þau. Ég hef alltaf staðið á þeim grundvelli, að maður eigi að varðveita sem mest af því gamla, sem til er með þjóðinni, en gera endurbætur, sem jafna misrétti. Í því frv., sem sú stj., sem ég var í, lagði fram árið 1933, var þessu fylgt, og í þessu frv. er sömu reglum fylgt. Sá eini grundvöllur, sem Framsókn hefur lagt í þessu máli, er sá, sem lagður var af fulltrúum framsóknarmanna í kjördæman. árið 1932. Þá sögðust þeir vilja fylgja þeim breyt. á kosningafyrirkomulaginu, sem gengi ekki á rétt gömlu kjördæmanna, heldur bætti úr til jafnaðar með öðrum ráðum en þeim að afnema gömlu kjördæmin. Þetta er sú eina meginregla, sem fram hefur komið af hálfu framsóknarmanna, en hún hefur aldrei verið framkvæmd, en aðra meginreglu er ekki hægt að hafa fyrir þá, sem vilja varðveita gömlu kjördæmin.

Ég sé svo ekki ástæðu til að svara öllu fleira, en mér þótti eftirtektarvert hjá hv. 1. þm. Rang., hvað hann var illorður í sinni ræðu án tilefnis, en ég get virt honum það til vorkunnar, að því leyti sem málstaðurinn er illur og erfitt er að verja hann.