13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Steingrímur Steinþórsson:

Þeir, sem aðallega hafa leitt saman hesta sína hér, eru hv. frsm. minni hl. og hv. frsm. meiri hl., og ég vil ekki blanda mér inn í það einvígi, sem þar hefur átt sér stað, hvað helzt af því, að fulltrúi Framsfl. hefur fyllilega svarað fyrir sig og þarf engrar hjálpar við. Þegar um svo stórt mál er að ræða, virðist mér ekki undarlegt, þó að margir hv. þm. létu til sín heyra um það. En það undrar mig, hversu fáir hafa tekið hér til máls úr þeim flokkum, sem fylgja þessu stjskrfrv. Ég get ekki skilið það öðruvísi en vond samvizka þeirra, sem að frv. standa, geri það að verkum, að þeir kinoki sér við að mæla með frv. Mér var kennt, þegar ég var ungur, að virða stjskr. ríkisins, og mér var síðar kennt í skóla, að væru breytingar gerðar á stjskr. eins ríkis, þyrfti að gera það með svo mikilli vandvirkni og undirbúningi sem hæfði stjórnskipunarl. landsins, sem þingmenn vinna eið að. Mér var kennt að líta á stjskr. ríkisins svipuðum augum og trúfræðingar kenna okkur að líta á hin 10 boðorð, sem trúfræðin byggist á. Þannig hefur mér verið kennt, og þannig hefur stjskr. verið í minni meðvitund. Hvernig er svo undirbúningurinn að þessu frv.? Það er vitað, að allt frá 1931 hafa verið bornar fram kröfur af Sjálfstfl. og Alþfl. um gagngerðar breyt. á kjördæmaskipuninni. Það mun hafa verið krafa Alþfl. fyrir kosningarnar 1931, að landið yrði gert að einu kjördæmi, og sennilega hefur Sjálfstfl. þá viljað hafa nokkuð stór kjördæmi með hlutfallskosningum. En sá lærdómur, sem flokkar þessir fengu af kosningunum 1931, gerði það að verkum, að þeir sáu sér þann kost vænstan að hverfa frá þessari leið í bráðina. Þess vegna undrar mig ekkert á því, að hv. frsm. meiri hl. tali um seigluna í gömlu kjördæmaskipuninni. Þær kosningar sýndu, hvað þjóðin var mótfallin þessum till. Alþfl. og Sjálfstfl. Þá gat hvorugum þessara flokka dottið það snjallræði í hug að hafa hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum, sennilega af því að þá munu æðimörg þingsæti tvímenningskjördæmunum hafa tilheyrt Sjálfstfl. Sú breyt., sem þá var gerð á kjördæmaskipuninni, með því að taka upp uppbótarþingsæti og jafna þannig milli flokka, hún átti að hindra það, að farið yrði að hrófla við hinni fornu kjördæmaskipun. Nú hefur Alþfl. verið í stjórn með Framsfl. frá 1934, og hann hefur aldrei hreyft þessu mikla máli, og hann hefur getað setið í stjórn allan þennan tíma með flokki, sem hindrar, að „allt lýðræði og þingræði geti ríkt í landinu“, eftir því sem hv. frsm. meiri hl. komst að orði. Það má vera merkileg réttlætiskennd hjá Alþfl. að geta unað við slíka rangsleitni, sem hann telur, að átt hafi sér stað í þessum efnum.

Þetta stjskrfrv. hefur ekki fengið nokkurn undirbúning, og till. er kastað fram, án þess að Alþfl. detti í hug, að þær fái afgreiðslu á þinginu. Alþfl. og Sjálfstfl. hafa ögrað hvor öðrum í þessum málum með því að gera breyt. á kjördæmaskipuninni. S.l. haust kom Sjálfstfl. með till., sem gengu svo nærri till. Alþfl., að það hlaut að eyðileggja hann í augum flokksmanna sinna. Til þess að borga í sömu mynt kemur Alþfl. með till., sem eiga að vera svo nærri því, sem Sjálfstfl. berst fyrir, að hann getur ekki annað gert en ganga að till. Alþfl. um breyt. á kjördæmaskipuninni. Svo auðvirðilegur er undirbúningurinn að frv. og tilgangurinn með samþ. þess. Meira ábyrgðarleysi, þegar um er að ræða breyt. á stjskr. ríkisins, er ekki hægt að hugsa sér. Það liggur í augum uppi, að Sjálfstfl. er ginnkeyptur fyrir því að fá teknar upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum nú, af því að hann er annars vonlaus um að vinna þar nokkurt sæti. Ef hann hefði nokkra von um það, þá væri ástæðulaust að vera með þessar breyt. út af fyrir sig. Þetta er því viðurkenning á því, að flokkurinn hefur ekki möguleika til að rétta hlut sinn. Að þessu leyti getur Framsfl. vel unað við þá viðurkenningu, að hann muni njóta mests trausts í tvímenningskjördæmunum og Sjálfstfl. geti aðeins með því að nota brögð fengið þar nokkur sæti. Hv. frsm. meiri hl. hélt því. fram, að Framsfl. vildi engar breyt. gera og hann væri á móti öllum breyt. á kjördæmaskipuninni. Þetta er hið mesta öfugmæli. Framsfl. hefur borið fram þáltill. um, að mþn. endurskoði stjskr. og taki þetta mál líka til athugunar. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég gæti fylgt nokkrum breyt. á kjördæmaskipuninni, t.d. að tvímenningskjördæmunum yrði skipt í einmenningskjördæmi, sem er að mörgu leyti eðlilegast. Framsfl. mundi án efa gangast inn á slíka breyt., hvenær sem hún væri gerð, þó að hann hins vegar álíti, að frv. þetta sé svo ómerkilegt og fljótfærnislegt, að alls ekki sé sæmandi að afgreiða það sem lög. Þess vegna tel ég mjög hæpið að bera fram brtt. við það, og þyrfti að gerbreyta því, ef frv. ætti að hæfa stjskr. ríkisins.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þessar breyt. væru fram bornar til þess að varðveita gömlu kjördæmin. Mér þykir hinum gömlu samherjum úr stjskrn., hv. 5. þm. Reykv. og honum, bera hér svo mjög í milli um þetta atriði. Það er alveg nýtt viðhorf hjá Alþfl,, ef hann fer að hafa áhuga fyrir að varðveita gömlu kjördæmin, og það er algerlega í mótsögn við hans fyrri stefnu, sem var í þá átt, að landið yrði eitt kjördæmi. Ég tek ummæli hv. frsm. meiri hl. svo, að hann sé ekki eins hreinskilinn og hv. 5. þm. Reykv. og hafi af þeim sökum ekki skýrt málið frá sjónarmiðum síns flokks. Hv. 5. þm. Reykv. skýrði málið í samræmi við yfirlýstan vilja hans flokks, en hv. frsm. meiri hl. hafði sennilega ekkert umboð frá Alþfl. til að lýsa yfir því hér á Alþ., að hann vildi vernda gömlu kjördæmin, en sé svo. er mjög skipt um frá því, sem áður var.

Nú er ár liðið fá þeim merkilega þingfundi, þegar rætt var um frestun almennra þingkosninga. Ég ætla hér ekki að rifja það upp, enda fór mest af þeim umr. fram fyrir luktum dyrum. En það virðist margt hafa breytzt síðan og ekkert eins mikið og skoðanir ýmissa hv. þm. Ég minnist þess, að hæstv. fyrrv. félmrh. (StJSt) lýsti með mjög fjálglegum orðum, hvað væri hlutverk Alþ., meðan kosningafrestunin stæði yfir. Hann lýsti yfir því, að á meðan friðsamleg kjördæmaskipun kann að standa, sýndist rétt að gera engar stórar breyt. í íslenzkri löggjöf, ef hægt væri að komast hjá því, vegna þess ástands, sem nú ríkir. Þetta er formaður Alþfl., og nú vildi ég spyrja hv. þm. V.-Ísf., hvort hann vilji ómerkja þessi ummæli og telja þau markleysu eina. Ég man líka, að fulltrúar Sjálfstfl. létu orð falla á svipaðan hátt, og ég vil einnig beina þeim urðum til þeirra, hvort þeir telja þau ummæli sín ómagaorð ein, eða hvort þeir telji breyt. á stjskr. landsins lítilfjörlegt mál. Annaðhvort hafa þeir mælt af óheilindum í fyrra eða þeir ætla ð standa við það, sem þeir þá sögðu, og knýja ekki fram mál eins og þetta. Allir þm. viðurkenna með sjálfum sér, að eina rétta afgreiðslan í þessu máli er að samþ. till. Framsfl. um skipun mþn. í því. Þeir vita vel, að allt annað er til minnkunar og getur ekki orðið öðruvísi en Alþ. til stórskammar. Ég verð að segja, að þó að ég hafi aldrei talið mig með þeim postulum, sem hæst gala um sjálfstæðísmálið og sambandsslitin, þá lít ég svo á, að það sé óviðunandi og vansæmandi fyrir Alþ. að afgreiða þau mál nú, eins og afstaða okkar er til Danmerkur. Mig undrar það, að menn, sem hafa talið sig standa framarlega í sjálfstæðisbaráttunni undanfarið, skuli geta gert svo lítið úr sér að ætla að afgreiða breyt. á stjórnskipunarl. landsins án þess að taka þetta til meðferðar. Það er hinn dæmalausi undirbúningur að þessu frv., sem gerir það að verkum, að það hlýtur að verða vansæmandi fyrir Alþ. afgr. frv. Ég veit, að ekki þýðir að tala mikið um þetta, því að örlög málsins eru þegar ráðin. Hitt er annað mál, að það er eðlilegt, þó að mikið sé um það talað, og ég vænti þess, að fleiri taki til máls af þeim, sem að frv. standa, til þess að lýsa afstöðu sinni til þess. Ég hefði t.d. óskað mjög eftir því, að hæstv. ráðh. Sjálfstfl., sem raunar eiga að mynda nýja stjórn vegna þessa máls, létu eitthvað til sín heyra við þessa umr. Mér skildist það á ræðu hæstv. fjmrh., að hann teldi, að frv. ætti ekki að ná fram að ganga á þessu þingi. Undirbúningurinn væri þannig, að ekki ætti að afgreiða málið, eins og sakir stæðu. Ég hefði álítið það vel til fallið, að hæstv. fjmrh. léti þingið vita, hvort hann hefði skipt um skoðun, frá því að 1. umr. fór fram, og hvort hann ætli að greiða atkv. móti frv. og með hinni rökstuddu dagskrá Framsfl. Mér mundi finnast hið síðarnefnda vera rökrétt afleiðing af þeirri afstöðu til málsins, sem hæstv. ráðh. lýsti yfir við 1. umr.

Ég gat ekki látið hjá líða að láta mínar skoðanir koma fram í þessu efni, þó einkum um undirbúning málsins og afstöðu þingsins til að gera út um það nú.