13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 2. þm. Skagf. lét í ljós þá skoðun, að Alþfl. hefði ekki borið þetta frv. fram í fullri alvöru. Það má merkilegt vera, þegar frv. fær það góðar undirtektir, sem raun er á, ef það er ekki borið fram í fullri alvöru. Það var sannarlega ásetningur Alþfl. að bera ekki annað fram í þessu máli frekar en öðrum en það, sem flokkurinn væri ánægður með, að yrði samþ., ef þeir möguleikar sköpuðust. En það var annað, sem flokkurinn sá ekki fyrir, að mundi verða, það, að ráðh. mundu lýsa yfir því, að ef ætti að jafna atkvæðisrétt í landinu með þessum hætti, mundu þeir ekki gegna lengur stjórnarstörfum. Og þegar ástandið er líka jafnalvarlegt og því hefur verið lýst hér, þá finnst manni það nokkur ábyrgðarhluti af ráðh. að skorast undan að gegna stjórnarstörfum. En þegar það er nú orðið, þá er að taka því, og þeim vanda, sem ber að höndum, honum verður reynt að ljúka af þeirri stj., sem tekur við, og af þeim, sem veita henni hlutleysi þann tíma, sem þetta mál stendur yfir. Sami þm. las upp ummæli formanns Alþfl., Stefáns Jóh. Stefánssonar, frá í fyrra, er hann var félmrh. En þau ummæli féllu í þá átt, að þjóðstj. og þingfrestunin hefðu byggzt á því, að ekki yrðu tekin upp stærri deilumál, sem væru óviðkomandi núverandi ástandi. Þessi yfirlýsing, sem upp var lesin, byggist á kosningafrestuninni og þjóðstj., meðan sú stj. hélzt, en gengur að sjálfsögðu úr gildi, þegar ráðh. Alþfl. var vísað úr ríkisstj. um áramótin og enn frekar gengur úr gildi, þegar Framsfl. lýsir yfir kosningum nokkru eftir áramótin. Því þarf ekki meir að svara.

Þá beindi hv. þm. Barð. til mín nokkrum orðum. Hann heldur fram, að það þurfi þrennar kosningar til að koma fram kjördæmamálinu og síðar sjálfstæðismálinu. Ég hef mér til gamans borið þetta undir einn af helztu lögfræðingum landsins, sem skipar stöðu, sem veitir honum kannske góða aðstöðu til að segja um slíkt, og fengið staðfest, að þetta er á algerðum misskilningi byggt. Þegar búið er að samþ. þetta stjskrfrv. á næsta þingi, má flytja samstundis frv. um stjskrbreyt., því að umboð þm. samkv. brtt. fellur ekki niður fyrr en þá næsta kjördegi eftir það þing. Þarna er enginn árekstur og ekkert í stjskr., sem segir, að ekki megi nota næstu kosningar á eftir til nýrrar stjskrbreyt.

Þá lagði hv. þm. nokkra áherzlu á, að með þessu frv. væri verið að efla vald flokksstj. Vald þeirra er ekki eflt frá því, sem nú er, nema síður sé. Flokksstj. hafa nú áhrif á landslista, og það hafa þær áfram, en frambjóðendur í kjördæmum verða eins háðir kjördæmunum sjálfum eftir sem áður, hvort sem er hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum eða ekki. Og þessi grýla um flokksstj. í Rvík lendir alveg eins á flokksstj. Framsfl., sem að mestu er skipuð Reykvíkingum og á sæti hér í Rvík. Skal ég þó ekki fordæma ,stj. Framsfl., en sá flokkur hefur fast skipulag í miðstj. í Rvík rétt eins og aðrir flokkar.

Ég minntist á það, að þm. Reykv. hefðu ekki verið ágengir í kröfum sínum, í sambandi við það, að talin var eftir þingmannafjölgun fyrir bæinn. Ég skal ekki fara nánar út í það, en get endurtekið, að þm. Reykv. hafa ekki þreytt þingið með kröfum sínum. Og það, að háskóli var byggður í Rvík, eða annað slíkt, er ekki hægt að segja, að sé sérstaklega með tilliti til þarfa Reykjavíkur eða að létta Reykvíkingum einhverjar byrðar.

Þá beindi hv. þm. því til mín, að ég talaði með nokkurri léttúð um hið alvarlega ástand. Ekki get ég fallizt á það. En hinu höfum við aldrei haldið fram, að við beinum neinum lof tárásum frá landinu eða tryggjum samgöngur við önnur lönd með því að gera þessa breyt. Það eru þvert á móti andstæðingar þessa frv., sem hafa haldið því fram, að hættur þessar væru svo ríkar, að það sé ómögulegt að gera breyt. sem þessa. Og þá er eðlilegt, að við spyrjum, á hvern hátt landið er í minni hættu af ófriðarástandinu, ef atkvæðisrétturinn er ójafn. Ég tel heldur betra að mæta hverju, sem ber að höndum, ef atkvæðisréttur er jafn meðal þegna þjóðfélagsins. Svona stjskrbreyt. mundi því búa í haginn fyrir að mæta þeim vanda, sem að höndum kann að bera. Ég er því mótfallinn að dreifa út rykskýjum og gera menn hræddari en þeir þurfa að vera. Stríðið getur orðið langt, og ég held, að mikið sé undir því komið að halda fullum sönsum og afgreiða okkar mál, jafnóðum og þau kalla að. Það verða fleiri vandamál en þetta, sem heimta, að við kveikjum ekki meiri ótta en ástandið gefur tilefni til. Við erum ekki hættar settir en aðrir. Og þó að hv. 1. þm. Rang. hafi verið stöðvaður í sínum bíl og ekki komizt leiðar sinnar, þá hygg ég, að það mótlæti geti ekki á nokkurn hátt jafnazt við kjör frændþjóða okkar og að menn geti komizt til kosninga á kjördegi.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meir, en undirstrika það, að það er ávallt bezt að mæta hverjum vanda á þann hátt, að þeir séu sem jafnastir, sem eiga að taka á sig vandann og þau óþægindi, sem framtíðin kann að bera í skauti sínu.