13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. frsm. minni hl. endaði ræðu sína á því að lýsa því gálausa hugarfari, sem lýsti sér í ræðum mínum, og sagði, að slíkt mundi ekki vinna mikið á í mínu kjördæmi.

Ég veit ekki, hvað það kemur kjördæmamálinu við, þó að tveir menn séu skotnir. Það er satt, að slíkir atburðir eru sorglegir, en að það megi ekki lagfæra kosningafyrirkomulagið fyrir því, er ekki nema fjarstæða. Hv. þm. ber höfðinu við steininn í öllum tilfellum. Ég gat um það, að afgreiðsla sjálfstæðismálsins mundi ekki kosta nema einar kosningar fyrir utan þær, sem í hönd fara, og þetta er staðreynd, og mun vera hægt að fá það staðfest af hæstarétti, ef minni hl. óskar eftir því. Ég gat líka um það, að ráðh. Alþfl. hefði verið vísað úr stj., og því mótmælti hv. þm. En sannleikurinn er, að þetta var gert með bráðabirgðál., sem út voru gefin, og með því að leyfa, ekki, að Alþfl. fengi að verja sinn málstað í útvarpinu.

Þá var hv. þm. að upplýsa, að ég hefði brugðizt í verðlagsmálum 1933 og þar af leiðandi ekki stofnað stj. með alþýðuflokksmönnum, en þá stóðu kosningar fyrir dyrum. Það er alveg rétt, að stjórnarskipti áttu ekki að fara fram fyrr en eftir kosningar. Það var álit Alþfl., og gekk hann því inn á þessa breyt. En einmitt á þinginu 1933 lét þáverandi landbrh., Þorsteinn Briem, undirbúa afurðasölumálin rækilega. Mér er sagt af einum hv. þm. flokksins, hv. 1. þm. Rang., að hann hafi einmitt á þinginu 1933 verið tilbúinn að fallast á hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum.