13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Það er aðeins út af þessu síðasta í ræðu hv. þm. V.- Ísf., að ég ætla að segja fáein orð, af því að það sýnir ljóst þann málaflutning, sem hann notar hér. Ég átti alls ekki sæti á Alþ. 1933, þegar þessi breyt. var gerð, og sýnir það, hvað hv. þm. er vandur að virðingu sinni, að hann skuli grípa til þess ráðs að skrökva þessu upp, og er það þó í full samræmi við röksemdafærslur þeirra manna, sem að þessu frv. standa. Annaðhvort er um bein ósannindi að ræða hjá þessum mönnum eða þá að málafærsla þeirra er alveg út í loftið. Þá sagði hv. þm., að það kæmi ekki kosningunum við, þó að tveir menn væru drepnir. Ég sagði það í ræðu minni áðan og vil endurtaka það, að það er óforsvaranlegt af hv. þm. V.-Ísf. að tala gáleysislega um það, að fólk er drepið í kringum okkur á vegunum. Það eru daglegir viðburðir, að ráðizt er á fólk og því misþyrmt. En hv. þm. V.- Ísf. finnst nú, að allt sé í lagi. Menn megi leika sér og gera hvað, sem þeim sýnist á þessum tímum. Það sé ekkert við það að athuga. Þannig er málaflutningur þessa hv. þingmanns.