27.04.1942
Efri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

9. mál, eftirlit með ungmennum o.fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég heyrði því miður aðeins niðurlagið af ræðu hv. 11. landsk., en þóttist skilja, að hann vildi fá mig til að segja eitthvað um þetta mál. Ég sé, að hv. n. leggur til, að frv. sé samþ. eins og hún hefur gengið frá því. — Við 2. umr. lét ég nokkur orð falla um málið, og lét í ljós skoðun mína á breyt. þeim, er gerðar tíma verið af hv. n. við frv., og jafnframt gat ég þess, til hvers þær leiddu. Ég sé, að í nál. er ekki talin ástæða til að ganga lengra en svo að setja takmarkið við 18 ár, og enn fremur er bent á, hvort eigi væri rétt að breyta l. um sjálfræði manna, en þrátt fyrir þetta hefur n. þó ekki getað fallizt á að gera breyt. á sjálfræði eins og lá fyrir í frv. Til álíta kom að breyta l. um þetta atriði almennt, en við nánari athugun þótti eðlilegra að hafa ákvæði um þetta í þessum l., því að gert er ráð fyrir, að þessi l. verði við lýði aðeins skamman tíma, svo að hér yrði því aðeins um bráðabirgðaákvæði að ræða. Jafnframt er og vitað mál, ef gerðar eru ráðstafanir til að afstýra því, að margt fólk fari forgörðum, og ef svo á að hætta við þessar ráðstafanir að meira eða minna leyti, þá eru l. gagnslaus með öllu, og þessu fólki er varpað aftur út í sömu eymdina.

Ég vil benda þeim mönnum, sem vilja litlar aðgerðir í málinu, á það, að þeir menn, sem andvígastir voru í fyrra nokkrum aðgerðum, og ýmsir, er skrifuðu í blöðin um þetta á síðasta ári, þeir eru nú búnir að reka sig á, hvernig ástandið er í þessum efnum, og skrifa nú og tala gagnstætt því, sem þeir gerðu.

Í frv., eins og það kom frá ríkisstj., er farið eins skammt og mögulegt var. Í raun og veru þurftu þessar ráðstafanir að vera gerðar miklu fyrr, og ástandið er þannig, að þessi réttarskerðing, sem farið er fram á, en ekki nema lítið af því, sem þjóðfélagið þyrfti að gera til að ráða bót á slíku vandamáli sem þessu. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að ég býst við, að í kvöld verði haldinn lokaður fundur hér í Alþ. til þess að ræða ýmis vandamál, er skapazt hafa af völdum ófriðarins.

Ég vil að lokum segja það, að því meir sem menn skyggnast í málið, þá sjá þeir, að frv. það, er hér lá fyrir, gekk eins skammt og hægt var, enda var það samið með hliðsjón til þeirra manna, er skemmst vildu ganga.