18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég á ákaflega bágt með (SvbH: Hv. þm. á bágt !) að átta mig á rökum hv. 1. þm. Rang. Ég hef bent honum á, að þótt tvímenningskjördæmin fái uppbótarsæti á minni hl., þá eru þeir í raun og veru ekki uppbótarþm. fyrir þau atkv., heldur fyrir atkv. úr öðrum kjördæmum.

Það hneykslar hann mjög, að það skuli geta komið fyrir, að minni hl. geti fengið tvo þm., en meiri hl. einn, hvað oft sem honum er best á, að það hneyksli meira, þegar meiri hl. þjóðarinnar fær á Alþ. einn mann, en minni hl. tvo, en hann vill ekki heldur taka undir það. Það er eins og hann standi í sífelldum hreppsnefndar- og sýslunefndarkosningum, en gleymi að hugleiða þjóðina, sem hann er þó alltaf að tala um að skjóta málunum til. Hún má undir engum kringumstæðum njóta jafnréttis. Hann segir, að þjóðin sé einnig þeir menn úti á landinu, sem njóta nú sérréttinda vegna þessa misréttis, en ég get ekki kallað það þjóð. Það er einn flakkur.

Ég hika alls ekki við að segja, að þeir flokkar, sem standa að þessu máli, hafi hagsmuna að gæta í sambandi við þessa réttlætiskröfu, en það er svona, að þeir, sem hafa hagsmuna að gæta, eru líklegastir til að flytja sjálfir sitt réttlætismál, þó að til séu undantekningar, því að ég þekki dæmi til þess hér á þingi, að menn hafi fylgt réttlætismálum, þó að þeir hafi sjálfir engra hagsmuna haft þar að gæta. Ef hv. 1. þm. Rang, hefði snúizt til fylgis við þetta mál, hefði ég gefið honum þetta hól, en því er ekki að fagna í þetta skipti.

Það er vitanlega rétt, sem hv. þm. segir, að það verða breyt. milli flokka frá einum kosningum til annarra. Hver hefur nokkurntíma borið brigður á það? Svo bætir hann við, að hér sé verið að búa til fyrirkomulag, þar sem flokkar geti fengið þm., þó að þeir hafi ekki ljósendur. Það er erfitt að svara slíkri fjarstæðu. Hér er lagt til, að flokkar fái þm. eingöngu, ef þeir hafa kjósendur, og ef breyt. verða milli flokka, sem alltaf verður, þá er þessum reglum þannig fyrir komið, að þeir flokkar, sem atkvæðaaukninguna fá, fá fleiri þm. Hér er ekki verið að reyna að tryggja það, að Sjálfstfl. eða Alþfl. fái svo og svo marga þm. Ekkert slíkt er á ferðinni, heldur aðeins það, að þeir, sem atkv. fá, fái þm. Hitt er fjarstæða, að hér sé verið að seilast eftir, að flokkar fái þm., þó að þeir hafi ekki kjósendur. En þessir þm. geta aldrei slitið sig frá hugsuninni um litla hluta af landinu. Þeir geta aldrei hugsað sér landið sem eina heild, og samt er alltaf verið að tala um, að skjóta máli sínu til þjóðarinnar. Mér finnst réttara að orða það svo, að skjóta eigi málunum undir kjósendur í Rangárvallasýslu.

Hv. 1. þm. S.-M. spurðist fyrir um, af hverju Akranes og Norðfjörður hefðu verið niður felld sem sérstök kjördæmi. Ég var því fylgjandi, að þau yrðu tekin upp, en eins og ég sagði rétt frá, vildu sumir hv. þm. draga úr þingmannafjöldanum. Hv. þm. spurði, hvers vegna Seyðisfjörður væri ekki felldur niður. Ég get sagt hv. þm., að þá hefði þurft að gera ýmsar breyt. og fella niður ýmis önnur kjördæmi, svo sem Norður-Múlasýslu, Austur-Skaftafellssýslu o.s.frv. Við það hefði verið höggvið svo stórt skarð í framsóknar-kjördæmin, að mönnum fannst ekki rétt að gera þær breyt. Þetta er alltaf sama sagan: Það er beðið um allt annað í þessu máli heldur en hægt er að fá. Hv. þm. réðst á málið frá öllum hliðum, án tillits til þess, hvort rökin rekast á og sprengja hvort annað. Þá vildi hv. þm. gera mikið úr því, að ég talaði um hlutfallslegt réttlæti, þ.e.a.s., þegar 1 þús. kjósendur fá einn þm., 2 þús. tvo þm., 3 þús. þrjá þm. o.s.frv. Hann spurði mig, hvort það hefði verið athugað, hvaða afleiðingar það hefði, ef farið yrði að afnema alveg gömlu kjördæmin. Mér þykir hann fara nokkuð langt í að útlista þessa reglu, en vitanlega er það hlutfallslegt réttlæti, að tala þm. fari eftir íbúafjölda, og á þann hátt er tryggt, að áhrif Alþ. verði í samræmi við óskir kjósenda. Og í öllum lýðræðislöndum er það einmitt þetta, sem er undirstöðuatriðið. Það er einstaklingurinn, sem hefur réttinn, og það hefur verið viðurkennt allt frá tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar, að þessi réttur sé heilög mannréttindi. Þegar verið er að tala um, að stjskr. sé of heilög til þess að breyta gömlum rangindum, sem þar eru, þá virðist mér hún muni verða því heilagri, því réttlátari og betri sem hún er. Þessar breyt. eru a.m.k. ekki hættulegar fyrir virðingu hennar sem stjskr. Ég hygg nú, að þeir hv. þm., sem talað hafa móti þessu frv., finni það glöggt, að þeirra rök ná skammt. Enda sagði hv. 1. þm. Rang., þegar ég spurði um réttlátar till., sem væru betri heldur en þessar, að hann hefði öðrum málum að sinna. Vitanlega hafa þeir engin svör við slíkri spurningu, þó að þeim finnist engin þörf að leiðrétta það misrétti, sem þeir hafa sjálfir hagnað af.