18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Ottesen:

Mér þykir leiðinlegt að geta ekki tekið mjög hátíðlega þau ummæli, sem hv. 2. þm. Skagf. lét falla um mig, — það mikla hrós. um gáfur mínar og hæfni til að starfa að þjóðfélaginu, — sökum þess, hve hann var æstur og óðamála, svo að hann, að því er virtist, vissi ógerla, hvað hann sagði. Það kom mjög berlega fram í ræðu hans, að hann fór algerlega villur vegar í því, sem hann sagði, að ég hefði haldið fram í minni ræðu. Hann sagði, að ég hefði lýst mig andvígan afgreiðslu þessa máls á þessu þingi. Þarna er hlutunum svo snúið við sem hægt er. Ég sagðist vera á móti því, að horfið væri frá kosningafrestuninni, eins og nú hefur verið gert. Og mér þætti gott, ef Framsfl. hefði átt í honum eins góðan stuðningsmann eins og sjálfstfl. á í mér til að standa við þær samþykktir, sem á sínum tíma voru gerðar um þetta. En ég sagði, að úr því að farið væri út í kosningar á annað borð, þá væri eðlilegast, að þetta mál lægi fyrir í sambandi við önnur mál, sem kosningar kynnu að snúast um. Hv. þm. hefur í því æðiskasti, sem greip hann, alveg snúið því við, sem ég sagði um þetta atriði.

Hv. þm. hneykslaðist á till. minni og að mér skyldi finnast réttlátt að taka upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. Það, sem mest getur hneykslað hann í sambandi við mína till., er sú skoðun mín, að lagfæra þurfi ranglæti það, sem fram hefur komið í kosningatilhöguninni, og að það skuli gert með þessum hætti. Það er undarlegt, að þetta hneykslanlega kosningafyrirkomulag skuli vera einmitt lagt til grundvallar fyrir kosningu til búnaðarþings, einmitt sama fyrirkomulagið og hér er um að ræða. Ég veit, að hv. þm. ber mikla virðingu fyrir Alþ. og honum er umhugað um þá stofnun, en hann ætti líka að bera virðingu fyrir búnaðarþinginu, þeirri stofnun, sem fer með málefni Búnaðarfélags Íslands, sem hefur valið hann sem trúnaðarmann með því að gera hann að búnaðarmálastjóra. Ef þetta kosningafyrirkomulag er eins hneykslanlegt og hann segir, hvers vegna beitti Framsfl. sér þá fyrir því á sínum tíma og þar með þessi háttv. þm., að þessi kosningatilhögun yrði upp tekin við kosningar til búnaðarþings? Ég vildi skjóta þessu hér inn í, í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um mína till., og er bæði hollt og gott fyrir þennan hv. þm. að hugleiða þetta.

Það er venja á Alþ.,þm. gera grein fyrir sínu atkv. og hvaða skilning þeir hafa lagt í það, sem þeir greiða atkv. um. Það má segja, að eins og málið stendur nú, má lita á mína brtt. á svipaðan hátt. Í henni felst grg. fyrir því, hver mín afstaða er til þessa atriðis í málinu, en þar með er engan veginn sagt, að þetta málsatriði þurfi að vera þess valdandi, að ég snúist g,egn málinu í heild eða þeim ákvæðum þess, sem eru miklu þýðingarmeiri eða meginkjarni málsins.

Í öðru lagi sagði hv. þm., að með þessu frv. og brtt. minni við það væri verið að rýra áhrif dreifbýlisins svo mjög, og jafnvel þurrka út öll þeirra áhrif. Mér þykir undarlegt, ef bændur, sem eru í minnihlutaflokki í tvímenningskjödæmunum, séu ekki eins góðir sveitamenn og ekki eins líklegir til að standa fyrir málefnum sveitanna eins og þeir, sem af tilviljun í það skiptið eru þar í meirihlutaaðstöðu. Það er eins og þessir menn séu réttlausir, ef þeir eru í minni hl. í tvímenningskjördæmunum, og að þeir séu slíkir undirmálsmenn, að þeir megi ekki njóta réttar til beinna áhrifa í kosningaúrslitum samkvæmt viðurkenndum lýðræðisreglum — og að einskis góðs megi af þeim vænta í þjóðfélaginu. Ég get ekki annað en tekið þykkjuna upp fyrir þessa menn, hvort sem þeir eru í Sjálfstfl. eða Framsfl., og ég mótmæli því, að þeir kjósendur, sem þessi ummæli eru látin falla um, verðskuldi slíka fyrirlitningu, sem í þessu fellt. Þeim er jafnvel trúandi til að vinna gagn sinni stétt og landinu í heild eins og hinum. Ég mótmæli eindregið þessu gálausa gaspri, um leið og ég staðhæfi, að með auknu áhrifavaldi Sjálfstfl. á Alþ. sé betur séð fyrir hagsmunum sveitanna heldur en nú er gert.