21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég ætla ekki að gera ræðu hv. þm. S.-Þ. að umræðuefni. Annar ráðh. mun gera það. Það er aðeins eitt atriði í henni, sem ég ætla að víkja að. Hann færði það í tal, að framkoma Sjálfstfl. gæti gefið til kynna, að veila væri í afstöðu hans til sjálfstæðismálsins. Það, sem Sjálfstfl. hefur lagt til, er, að skipuð verði n. til að gera þær breyt., sem þurfa að verða á stjórnskipunarl. landsins, til þess að hægt sé að fullnægja till., sem Alþ. hefur gert í sambandi við sjálfstæðismálið, svo að Alþ. í sumar gefist tækifæri til að ganga endanlega frá málinu. En hv. þm. S.-Þ. gerir ráð fyrir, að ekki sé kleift að ganga frá því nema á mörgum árum. Ef nokkuð skilur á milli hans og okkar, er það það, að við vonum, að sú rannsókn þurfi ekki að taka eins langan tíma og hann gerir ráð fyrir.

Hv. þm. lagði mikla áherzlu á, að það væri illa til valið, að enn stæði í stjórnskipunarl. landsins, að konungur færi með æðsta vald þjóðarinnar, en virðist samt ætla að sætta sig við, að þetta standi þar enn í mörg ár.

Hv. þm. talaði um það hrákasmiði, sem breyt. 1933 hafi verið, en segir þó, að hún hafi tryggt landinu ríkisstj., sem hafi farið farsællega með völdin. Það er ekki mitt að svara fyrir hv. þm. V.-Ísf., en ef breyt. hans hefur verið svo mikið hrákasmíði, hvaða glæpur er þá að hrófla við henni núna? Eins og hv. þm. S: Þ. trúir því, að til sé æðra réttlæti yfir okkar dægurþrasi, er ég sannfærður um hið sama og geng því ótrauður fram. Það er ljóst, að það mál, sem við berum fram, felur í sér annað og meira réttlæti en sú skipun, sem við eigum við að búa. Ég treysti því, að gæfa þjóðarinnar verði sú, að þeir, sem berjast fyrir þessari réttarbót, sigri.