21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég ætlaði aðeins að benda hv. talsmanni Alþfl. (SÁÓ) á það, að hann telur sig hafa heyrt það, að einhverjir framsóknarmenn hafi, þegar núgildandi stjskr. var samþ., verið fylgjandi hlutfallskosningum. Hann hefur ekki gögn fyrir því. En ég vil biðja hann að taka sér til athugunar og hugleiðingar þann ósigur, sem hv. þm. V.- Ísf. beið í Nd., þegar hann hélt fram þessu sam,a, en gat ekki sannað það.

Ég vil enn fremur benda þessum hv. þm. á það, að það getur vel verið, að einhverjir af þeim mönnum, sem brugðust Framsfl. um það leyti, er hv. talsmaður Alþfl. var að tala um, hafi verið með einhverjar slíkar bollaleggingar. En ég vil spyrja hv. þm. Alþfl., sem hér talaði, um það, hvort hann telur það bindandi fyrir sig eða flokk sinn, hvað Héðinn Valdimarsson kann að hafa sagt eða gert, eftir að hann var kominn á það stíg að vera orðinn andstæðingur Alþfl. Og til frekari sönnunar því, hvað við framsóknarmenn áttum við að etja af þeim mönnum, sem voru að skilja við flokkinn þá, vil ég taka það fram, að Tryggvi heitinn Þórhallsson ætlaðist til þess, að 8 þm. væru kjörnir fyrir Rvík, en uppbótarþingsætin væru höfð færri. En þeir, sem voru að yfirgefa flokkinn, og þar á meðal Ásgeir Ásgeirsson, hv. þm. V.-Ísf., óttuðust, að með því að þm. yrðu svo margir í Rvík, þá fengi Framsfl. þar einn þm. kjörinn. Þess vegna felldi hann (ÁÁ) það, að Reykjavíkurþm. yrði fjölgað um þetta, og gerði það í þeim tilgangi að drepa flokkinn.

Ég vona því, að hv. 2. landsk. (SÁÓ) skilji það, að ég skoða mig ekki bundinn við það, sem einhverjir svikarar Framsfl. kunna að hafa sagt eða gert árið 1933.