22.05.1942
Efri deild: 64. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Sigurjón Ólafsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að hefja máls við þessa umr., en úr því að farið er að ræða málið, eins og nú er gert, finnst mér rétt að segja nokkur orð.

Þegar málið var til 2. umr., var svo naumur tími í fundarlokin, að ekki gafst tími til að svara andmælendum frv. Hv. þm. Str. lét orð falla um, að hér væri um verzlunarsamning að ræði milli flokka innan þingsins; sem staðið hafa að þessum málum, og hann taldi það mjög óviðeigandi. Ég get lýst yfir því, að slíkt mun ekki hafa þekkzt, að samið væri um svona mál, heldur eru hv. þm. á sömu skoðun um þetta mál, og engir samningar hefðu þurft þar til. Ég vil minna hv. þm. Str. á, að það er yfirlýst af hans eigin flokksbræðrum, að verzlað hafi verið með kosningar af hans hálfu á þessum vetri. Það hefur verið látið opinberlega í ljós og staðfest, að hér í Rvík hafi atkv. verið keypt af Framsfl. fyrir það að gangast inn á sjónarmið þeirra í skattamálum. Ég tel, að verzlun hafi átt sér stað um skattamálin, en ég mun ekki ræða þetta atriði frekar.

Ég hef svarað að nokkru því, sem hann sagði, að ekki hefði verið ætlun okkar flm:, að frv. næði fram að ganga. Ég hygg, að hann hafi sannfærzt um það eftir þær útvarpsumr., sem fram hafa farið, að Alþfl. hafi borið þetta mál fram í þeirri trú, að meiri hl. Alþ. yrði því samþykkur, eins og nú hefur komið á daginn. Hv. 1. þm. N.- M. (PZ) sagði áðan, að flutningur þessa frv. væri „ósiðferðisleg aðferð hjá „umboðslausum“ mönnum. Hann telur sig víst ekki umboðslausan, þar sem hann hefur þá sérstöðu að geta leitað trausts kjósenda sinna, þegar kosningafrestunin var ákveðin. En ég heyrði það ekki dregið í efa af ríkisstj. á þeim tíma, að umboð það væri löglegt, sem Alþ. veitti þm. með frestun kosninganna. Ég heyrði ekki annað en þær ráðstafanir væru löglegar, sem ríkisstj. lagði áherzlu á, að Alþ. samþ. Ég hygg því, að þetta séu ranglátar ásakanir í garð þeirra, sem stóðu að frv. Hér er ekki verið að koma aftan að þjóðinni með þessum till., heldur eru þessar breyt. í fullu samræmi við anda stjskr., að kosningarrétturinn sé jafn fyrir hvern þegn þjóðfélagsins. Hann talaði um, að . sumir hv. þm. hefðu ekki traust sinna kjósenda bak við sig. Ég dreg ekki í efa, að hv. þm. hafi traust sinna kjósenda í sínu umdæmi. Það voru um 700 atkv., sem bak við hann stóðu, en bak við mig stóðu t.d. 4000 atkv., þó að ég næði ekki þeirri atkvæðatölu að vera kjördæmakjörinn. Ég býst við, að þær kosningar, sem nú fara í hönd, sýni, hvort þessi sami flokkur muni ekki standa á bak við þá menn, sem Alþfl, hefur í kjöri.

Hv. þm. — sagði einnig, að þetta frv. yrði til þess að auka flokksvaldið. Ég skal viðurkenna, að þessi hv. þm. gerir oft tilraun til að brjótast úr þeim flokksviðjum, sem um hann eru. En stjórnmál okkar síðustu árin hafa gengið í þá átt, að flokkar, sem eiga sameiginlegar hugsjónir, bindast samtökum um stórmálin. Ég sé ekkert athugavert. við það, þó að flokksvaldið. hafi eitthvað að segja. Hitt er hreinasta fjarstæða, að halda því fram, að það komi annarlegir menn úr kjördæmum landsins, þótt þeir verði kosnir sem minnihlutamenn úr tvímenningskjördæmunum. Það hefur margsinnis verið staðfest hér af þeim mönnum, sem bezt þekkja til, að sjálfsagt komi menn úr byggðunum sjálfum, menn, sem þekkja allar aðstæður betur en þm., þótt kunnugir séu menn, sem búa á þeim stöðum, sem kosið er á. Ég býst við, að það sé rétt, sem hér hefur verið haldið fram, að með þessu sé verið að auka byggðavaldið, að það sé verið að auka vald sveitanna, sem verið er að gera grýlu úr, að eigi að skerða, hér á hv. Alþ. Um það atriði, hvort það sé sérstaklega æskilegt og hyggilegt að auka sérstaklega byggðavaldið, skal ég ekki segja hér, en ég býst við, að byggðavaldið verði sterkara eftir en áður. Þessi ástæða er því ákaflega léttvæg til þess að vera á móti lögunum. Hitt er rétt, að það koma menn í sumum eða kannske öllum tvímenningskjördæmunum úr öðrum flokki en þeir þm. eru, sem nú, sitja á þingi fyrir þessi kjördæmi. Við, sem teljum okkur ekki til þess flokks, sem hefur kjördæmin í sveitunum, göngum þess ekki duldir, að það koma menn úr öðrum flokki, er við búumst við, að það verði líka menn, sem komu, þótt þeir verði úr öðrum flokki en þessum. Svo mér finnst nú, að þessi ástæða hv. þm. falli um sjálfa sig, en ég skil náttúrlega afstöðu háttvirts þn. g mundi haga mér nákvæmlega eins og hann, þrátt , fyrir það þótt ranglætið sé svo mikið sem öllum er kunnugt um. Ég veit, að hver flokkur reynir til hins ýtrasta að halda í sín sérréttindi, svo lengi sem unnt er. Það er mannlegt að halda í slík sérréttindi og láta ekki taka þau af sér. Þessar ástæður skil ég og get ekki láð hv. þm., þótt hann sé á móti þessu, eins og allt er í pottinn búið.