22.05.1942
Efri deild: 64. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki lengja umræðurnar. Mig langaði bara til að segja tvennt. Við síðasta ræðumann vil ég aðeins segja þetta: Við erum báðir kunnugir víða um landið. Við þekkjum hrepp með 26 kjósendum og annan hrepp með 486 kjósendum. Báðir senda þeir einn fulltrúa á sýslufund. Mér finnst, að ræðumaður verði að athuga þetta og leggja til og berjast fyrir breytingum á kosningum sýslunefndarmanna, svo að lýðræðið hans fái að njóta sín.

Við næstsíðasta ræðumann vil ég segja það, að ég mundi ekki vera hér á þingi, ef ég hefi ekki fengið umboð frá 930 mönnum, þeim 727, sem kusu mig við síðustu kosningar, og nokkrum í viðbót. Ég slæ því föstu, að það sitji enginn með siðferðislegu umboði frá sínum kjósendum, og þess vegna mátti þingið ekki hreyfa nema aðkallandi nauðsynjamálum, sem ekki þoldu bið. Ég slæ því föstu, að þetta séu svik á því, sem sagt var af Stefáni Jóhanni og Ólafi Thors, þegar þeir lofuðu að hreyfa ekki nema því, sem óumflýjanlega væri nauðsynlegt, meðan þm. sætu hér í sölum Alþ., kosnir af sjálfum sér og ekki öðrum. Þeir segja, að það séu réttlætanleg svik, en ég kalla það svik, og ekkert annað en svik.